
- Laufey Brá Jónsdóttir
- Prestur

Grensáskirkja var teiknuð af Jósep Reynis arkitekt. Safnaðarheimili kirkjunnar var vígt árið 1972 og var notað sem kirkja safnaðarins allt fram til ársins 1996. Þann 8. desember árið 1996 var kirkja safnaðarins vígð og tekin í notkun.
Loft kirkjuskipsins táknar biðjandi hendur. Allir gluggar kirkjunnar eru eftir Leif Breiðfjörð. Þeir eru með eftirtöldum táknum:
Fiskur: Elsta tákn kirkjunnar. Fiskurinn var leynitákn hjá lærisveinunum.
Krossinn. Orð Krists: Heilög ritning.
Þyrnikórónan: Krossfestingin.
Berjaklassi: Blóð Krists. Tákn heilagrar kvöldmáltíðar.
Fangamark Krists: X og P, eða K og R í okkar stafrófi.
Tréð: Tákn eilífs lífs, tákn upprisu lífsins í Guði.
Auga: Tákn alsjáandi auga Guðs.
Heilög þrenning: Faðir, sonur og heilagur andi.
Alpha og Omega: Upphaf og endir.
Sólin: Sköpunin.
Kórónan: Paradís og eilíft líf.
Dúfan: Heilagur andi.
Gluggarnir eru nefndir ,,sköpunin." Á fyrsta glugganum stendur ,,verði ljós og það varð ljós." Á sjöunda glugganum stendur ,,það er fullkomnað." Þegar gengið er út úr kirkjuskipinu blasir við gluggi með sjö dúfum, sjö andans gjafir: Kærleikur, gleði, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi. Hringurinn er tákn eilífðar. Orgel safnaðarins var vígt þann 23. október 1988. Orgelið er smíðað af dönsku orgelsmiðunum Bruno Christensen og Sønner. Fyrst um sinn var hljóðfærið í núverandi safnaðarheimili sem var nýtt sem kirkja safnaðarins. Við vígslu kirkjunnar, árið 1996 var hljóðfærið flutt í kirkjuskipið og er þar nú. Skírnarfonturinn er gjöf frá Jósef Reynis, arkitekt. Í kirkjunni er flygill og Yamaha píanó. Kirkjan á kaleik og patínu úr leir frá kristnitökuafmælinu árið 2000. Þá á kirkjan einnig kaleik og patínu úr silfri. Hljóðkerfið er með hljóðnemum á altari, í prédikunarstól og á austurgafli. Kvenfélag Grensássóknar gaf kirkjunni þrjár kirkjuklukkur árið 1974 og voru klukkurnar settar upp þá um haustið. Þær voru teknar í notkun fyrsta sunnudag í aðventu þann 1. desember árið 1974. Klukkurnar eru rafstýrðar og fylgir þeim þráðlaus fjarstýring.
Ljósmynd tók Guðmundur Karl Einarsson



