
- Bryndís Svavarsdóttir
- Sóknarprestur

Núverandi kirkja á Rauðasandi var áður á Reykhólum, þar sem hún var byggð skömmu eftir miðja 19. öld og vígð á nýjum stað árið 1963. Þegar hún var tekin niður, voru viðirnir merktir rækilega, svo að hægt væri að reisa hana að nýju, því hún þótti merkileg frá byggingarfræðilegu sjónarmiði.
Áður var hrörleg bændakirkja í Saurbæ, sem fékk ekki nauðsynlegt viðhald, og fauk loks í fárviðri í janúar árið 1966. Nokkrum árum síðar var ákveðið að reisa Reykhólakirkju aftur í Saurbæ. Það tókst með með átaki heimamanna og aðstoð Þjóðminjasafns og Húsafriðunarsjóðs. Endurbyggingin tók nokkur ár og Hörður Ágústsson hafði umsjón með henni. Gunnar Guðmundsson, kirkjusmiður á Skjaldvararfossi á Barðaströnd, vann verkið að mestu.
Kirkjan var vígð þann 5. september árið 1982. Veggir kirkjunnar eru klæddir listaþili. Á hvorri hlið kirkjunnar eru þrír gluggar. Þakið er krossreist, klætt bárujárni. Altaristaflan er smíðuð úr eik og máluð af Hjalta Þorsteinssyni prófasti og málara í Vatnsfirði. Á miðtöflu sjást þau hjónin krjúpa við krossinn. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem eru danskir smíðisgripir frá árinu 1623. Þá á kirkjan silfurkaleik og patínu sem gefnir voru kirkjunni við endurreisn hennar árið 1982. Í kirkjunni er skírnarfat úr tini, sem smíðað var í Kaupmannahöfn árið 1699.
Skírnarfonturinn er úr tré, smíðaður árið 1982 af Sveini Ólafssyni myndskera í Reykjavík eftir teikningu Harðar Ágústssonar listmálara og fræðimanns. Tvær kirkjuklukkur Saurbæjarkirkju eru með ártalinu 1560. Þriðja klukkan er með ártalinu 1710.
