
- Snævar Jón Andrésson
- Sóknarprestur

Skarðskirkja á Skarðsströnd er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1915. Hönnuður hennar var Bogi Magnússen smiður að Skarði, að talið er. Kirkjan er smíðuð upp úr timburkirkju sem fauk árið 1910, en hún var smíðuð á árunum 1847–1848 af viðum úr grind torfkirkju sem reist var árið 1807. Yfirsmiður gömlu timburkirkjunnar var Sigurður Sigurðsson, forsmiður í Grundarfirði. Við smíðina árið 1915 var gamla timburkirkjan stytt um eitt sperrubil og smíðaður á hana þakturn. Í upphafi stóð kirkjan á steinhlöðnum sökkli, veggir voru pappaklæddir, í gluggum var krosspóstur og fjórar rúður og þakið var bárujárnsklætt. Veggir voru klæddir bárujárni um 1925 nema norðurhlið, sem var pappaklædd allt fram til þess að kirkjan var klædd trapisustáli og sett á steinsteyptan grunn, á árunum 1977–1983. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af vesturstafni er lágur ferstrendur turn. Á honum er kvistsett pýramídaþak sem gengur út undan sér að neðan. Þak kirkjunnar er klætt bárujárni, turnþak sléttu járni en veggir klæddir trapisustáli og hún stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír sexrúðu gluggar með þverrimum utan á gleri og einn minni er á framstafni.
Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir klæddar skásettum panel. Altarisbrík kirkjunnar er vængjabrík, með myndum, útskornum í tré, gylltum og máluðum og er frá síðari hluta miðalda. Miðtaflan sýnir fæðingu Jesú. María og Jósef krjúpa fyrir framan fjárhúsið, en Jesúbarnið í örmum Maríu vantar nú. Á öðrum vængnum er mynd sem sýnir trúlofun Maríu og Jósefs. Á hinum vængnum er mynd sem sýnir Maríu halda Jesú yfir gylltum stalli. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem eru fornir gripir í gotneskum stíl. Á prédikunarstól eru myndir af krossfestingunni, fæðingu frelsarans og upprisu Krists. Skírnarfontur með tilheyrandi skál úr brenndum leir, eftir Steinunni Marteinsdóttur leirlistakonu, var gefinn kirkjunni árið 1985.
