Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Vesturhópshólakirkjuvegi, 531 Hvammstanga
Bílastæði
Kirkjugarður
Fjöldi: 50

Vesturhópshólakirkja

Vesturhópshólakirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1877. Hönnuður hennar var Sigurður Helgason forsmiður frá Auðólfsstöðum. Í öndverðu var kirkjan timburklædd á veggjum og þaki og ómáluð að innan. Hún var máluð fyrsta sinni utan og innan árið 1893, en þá hafði þakið verið pappaklætt og það var klætt bárujárni árið 1911. Veggir voru klæddir steinajárni skömmu fyrir árið 1937. Þak kirkjunnar er krossreist og trékross upp af framstafni. Kirkjan er klædd steinajárni, þak bárujárni og stendur á steinhlöðnum sökkli.

Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar. Í þeim er miðpóstur og tveir þriggja rúðu rammar. Lítill póstgluggi er efst á framstafni með tveggja rúðu römmum. Á klukknaporti er krossreist bárujárnsklætt þak en efsti hluti stafns og hliða er klæddur steinajárni. Stoðir eru undir framhornum en hálfstoðir við framstafn kirkju. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar spjaldsettar vængjahurðir.

Altaristaflan er krossfestingarmynd, máluð á tré, líklega dönsk. Hún var gefin Höskuldsstaðakirkju árið 1761 og keypt til Vesturhópshóla árið 1878. Umgjörðin er úr eik í barokkstíl, líklegast upphaflega skraut af stofuþili úr höll eða herragarði.

Kirkjan á silfurkaleik og patínu. Patínuna smíðaði Páll Halldórsson silfursmiður á Höskuldsstöðum, en Helgi Þórðarson silfursmiður á Brandsstöðum í Blöndudal smíðaði skál og legg á kaleiknum 1812-1813, líklega úr gömlum kaleik. Prédikunarstóllinn er með útskornu skrautverki í barokkstíl eftir Guðmund Guðmundsson frá Bjarnastaðahlíð. Hann var áður í Höskuldsstaðakirkju. Í kirkjunni er skírnarfat úr tini frá fyrri hluta 18. aldar. Klukkur Vestuhópshólakirkju eru báðar líklegast frá 18. öld.

Ljósmynd tók Jóna Þórunn Ragnarsdóttir.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Edda Hlíf Hlífarsdóttir
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Magnús Magnússon
  • Sóknarprestur
Mynd sem tengist textanum
  • Margrét Rut Valdimarsdóttir
  • Héraðsprestur Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi