Bloggað á 17. öld

Bloggað á 17. öld

Bloggið hans Hallgríms felur í sér ýmsar ábendingar og jafnvel hvöss skeyti til samfélagsins, en mér finnst hann þó greina sig frá mörgum bloggurum okkar tíma í því hve fús hann er að taka til sín boðskapinn.

Krossfesting, listaverk � Uppsaladómkirkju á föstu 2010Píslarsagan var lesin hér áðan. Hún hefur verið flutt í kristnum söfnuðum í 2000 ár, töluð, sungin, máluð, meitluð, leikin. Páskar eru mesta hátíð kristninnar og fyrir hinum fyrstu kristnu söfnuðum voru atburði dymbilvikunnar ekki einungis forleikur páska heldur öflugur vitnisburður um kærleika og samlíðan Krists með þeim sem oft þurftu að líða og jafnvel deyja fyrir trú sína.

Sagan geymir óteljandi listaverk sem sækja innblástur til píslarsögunnar og merki kristninnar, krossinn, er líka þaðan kominn eins og við vitum. Við erum vön krossmerkinu og líklega tengja flestir Íslendingar það frekar jákvæðum tilfinningum; við gerum krossmark er við signum okkur, börn er helguð með krossmarki við skírn og við gerum krossmark yfir ástvinum við hinstu kveðju. Krossinn tengist þannig vernd og skjóli, tryggri hvíld og kærleika.

En krossfestingin var ekki falleg athöfn og í huga lærisveinanna sem fylgdust með pyndingunum og þjáningunni var krossinn ekki sigurtákn, hvað þá vernd eða skjól. Krossinn var aftökutæki, þekkt frá 6. öld fyrir Krist og til 4. aldar eftir Krist þegar Konstantín keisari bannaði krossfestingar. Rómverjar notuðu þessa aftökuaðferð á tíma Krists fyrir ákveðna tegund brotamanna sem ekki voru Rómverskir borgarar, þar á meðal uppreisnarmenn eða þá sem hvöttu til uppreisnar. Þúsundir voru teknir af lífi með þessum skelfilega hætti í Palestínu – hangandi á krossi, jafnvel dögum saman, þar til hjartað gaf sig. Við getum vart gert okkur í hugarlund aftökustaðina, sársaukann, örvæntinguna, reiðina, formælingarnar, uppgjöfina. Krossinn var ekki sigurtákn, hann var tákn kúgunar, refsingar, niðurlægingar.

Hinn sigrandi og hinn líðandi Til er gömul veggrista frá því snemma á þriðju öld sem sýnir asna hangandi á krossi. Þarna er á ferðinni hótfyndni Rómversks veggjakrotara gagnvart hinum kristnu, enda fannst honum án efa fyndið að einhver skildi tilbiðja þann sem hafði verið krossfestur. Graffiti – veggjakrot á fyrstu öldum okkar tímatals bætist þannig við langan lista málverka og teikninga af krossfestingunni.

Listasagan endurspeglar ólíka tíma og það myndmál sem við sjáum af píslarsögunni talar jafnan til samtíma síns eða samfélagshópa. Á víkingatímanum birtist Kristur sem sigurvegari, með kórónu á höfði - jafnvel á krossi - leiðtogi sem samfélagið gat samþykkt og virt . Við sjáum þessa Kristsmynd einnig í nútímanum í þeirri menningu er dýrkar ofurmenni og stríðshetjur, eins og mér þótti koma glöggt fram í bíómyndinni The passion of the Christ sem Mel Gibson gerði fyrir um áratug.

Á erfiðleikatímum birtist Jesús í listaverkum sem hinn líðandi Kristur. Á sama hátt hefur píslargangan talað til minnihlutahópa í baráttu þeirra fyrir réttlæti og á 20. öld mátti sjá listaverk er túlkuðu Krist sem fulltrúa þessara hópa – svartra, kvenna og samkynhneigðra svo dæmi séu tekin. Því þó að gæðum sé vissulega misskipt og erfiðleikar mismiklir er þjáning eitthvað sem allar manneskjur upplifa, hún er sammannleg tilfinning. Í þjáningu Krists sjáum við þann sem hefur allt í hendi sér en tekur sér stöðu með þeim sem þjást – og listaverkin túlka það.

Ekki dýrkun ofbeldis Sameiginlegt þeim listaverkum sem túlka píslarsögu Krists er að þau hafa að markmiði að fá okkur til að lifa okkur inn í píslasöguna, skilja hana á nýjan hátt. Og þar skiptir líka máli sú sýn að þjáningar Krists í píslarsögunni eru ekki þjáninganna vegna, ekki dýrkun ofbeldis. Vegurinn sem Kristur gekk var leið þjáninganna en hún var líka leiðin til lífs. Krossfestingin er þannig alltaf skilin í ljósi upprisunnar. Dauðinn er alltaf skilinn í ljósi sigurs yfir dauðanum, örvæntingin og vonleysið við krossinn í ljósi fyrirheitanna og vonarinnar sem upprisan gefur okkur. Og í því ljósi verður krossinn sigurtákn.

Bloggari síns tíma Þetta er leiðarstef í Passíusálmunum, sem lesnir verða víða í kirkjum landsins í dag og hafa verið lesnir í ríkisútvarpinu nú á föstunni. Passíusálmarnir eru merkilegur menningararfur og hafa sérstakan sess hjá þjóðinni en eigi að síður var slíkur kveðskapur ekki einsdæmi, Hallgrímur Pétursson gengur líka inn í ákveðna hefð í túlkun sinni og framsetningu. Pína og dauði Krists hafði um aldir verið uppspretta ljóða og tónlistar í Evrópu og til voru fleiri slíkar íhuganir á íslensku, þó flestar séu þær fallnar í gleymsku.

Yfirskrift verksins er Historía pínunnar og dauðans Drottins vors Jesú Kristí, með hennar sérlegustu lærdóms-, áminningar- og huggunargreinum, ásamt bænum og þakkargjörðum, í sálmum og söngvísum í ýmsum tónum samsett og skrifuð annó 1659. Með því að yrkja ljóð undir þekktum lagboðum velur Hallgrímur það form sem líklega var tryggast til útbreiðslu máls á hans tíma. Það var auðveldara að læra og muna bundið mál en óbundið og þess konar lærdómur var þjóðinni tamur.

Með það í huga mætti segja að Hallgrímur Pétursson væri bloggari síns tíma. Bloggarar dagsins í dag kryfja ýmis málefni í stuttum pistlum á veraldarvefnum – sem er það form er nú hentar best til útbreiðslu. Hallgrímur kryfur píslarsöguna og hvert atvik verður honum tilefni til endursagnar, íhugunar, speglunar, lærdóms og bænar. Bloggið hans Hallgríms felur í sér ýmsar ábendingar og jafnvel hvöss skeyti til samfélagsins, en mér finnst hann þó greina sig frá mörgum bloggurum okkar tíma í því hve fús hann er að taka til sín boðskapinn. Hver gagnrýni hjá honum verður tilefni til að spegla eigið líf, játa eigin breyskleika, læra af og þakka.

Allt gert af kærleika til mannanna Hallgrímur fylgir útleggingarhefð sem átti sér langa sögu innan kristninnar, þar sem rakin var hin sögulega vídd og atburðurinn síðan reifaður til lærdóms með því að skoða táknræna vídd, siðferðilega vídd og loks þá huggun sem þetta veitir. Hallgrímur stendur páskamegin við krossinn – íhugunin er í ljósi upprisunnar og meginhugsunin er sú að allt sem Jesús þurfti að líða var gert af kærleika til okkar mannanna, til að opna þeim leið til Guðs. Þetta sjáum við til dæmis þegar hann segir:

Yfirgefinn kvað son Guðs sig þá særði hann kvölin megna yfirgefur því aldrei mig eilífur Guð hans vegna. (Ps 41)

Þegar vers píslarsögurnar eru íhuguð svo ítarlega sem við sjáum í Passíusálmunum er ýmsum löstum lyft fram. Skap og bráðlæti, hugleysi, svik og undirferli – allt fær sinn skammt. Og oft er lexía dregin af litlu: Sú staðreynd að Pétur postuli kom upp um uppruna sinn með mállýskunni verður Hallgrími tilefni til að yrkja:

Oft má af máli þekkja, manninn hve helst hann er. Sig mun fyrst sjálfur blekkja Sá með lastmælgi fer. (Ps 11)

– Það hvernig við tölum um aðra birtir eðli okkar þeim sem heyra.

Það var ekki spurt um þau Fyrir nokkrum árum var sýndur í Borgarleikhúsinu trúðaleikur sem bar yfirskriftina Dauðasyndirnar sjö sem byggði - að sögn aðstandanda - frjálslega á Guðdómlegum gleðileik Dantes. Dauðasyndirnar sjö er nafn á eiginleikum sem í okkur öllum búa - það er hroki, öfund, reiði, leti, ágirnd, ofát og losti. Í trúðaleiknum var syndunum lyft fram einni af annarri á afar myndrænan hátt. Ég man að það brást varla í sýningunni að ég hugsaði: Já, ég þekki nú fólk sem er svona... En síðan var eins og leikararnir næðu á snilldarhátt að lyfta upp spegli og þar horfðist ég í augu við eigin breyskleika – mínar eigin stóru syndir. Þarna var nefnilega ekki spurt um þau – það var spurt um mig.

Hið sama gerir Hallgrímur. Hann rekur breyskleika lærisveinanna sem ekki geta vakað með Kristi en það verður honum tilefni til að íhuga eigin sofandahátt í lífinu og loks að biðja um hjálp þegar hann bregðist að nýju – það gerir hann með bæninni fallegu:

Vaktu minn Jesú, vaktu í mér vaka láttu mig eins í þér Sálin vaki þá sofnar líf sé hún ætíð í þinni hlíf. (Ps. 4)

Tækifæri okkar Íhugun píslarsögunnar er ekki eitthvað sem listafólki einu er látið eftir – hún er tækifæri kristins fólks á hverjum tíma. Líkt og Hallgrími er okkur boðið að fylgja Jesú í grasgarðinn, í yfirheyrslur, veg þjáningarinnar og standa við krossinn. Við sjáum hugleysi, hræsni, múgsefjun, reiði, ótta, þjáningu og dauða og við bregðum upp speglinum og spyrjum: Hvar stend ég? Í hverra hópi er ég? Er ég ef til vill bæði með og á móti, full hugrekkis og huglaus, föst á mínu og flýt með fjöldanum? Hvar stend ég í dag gagnvart öllum þeim táknmyndum krossins sem við sjáum í samfélaginu - gagnvart valdinu – gagnvart misbeitingu valds og ofbeldi, gagnvart þeim sem líða og þjást á okkar tímum Hvað segir píslarsagan mér og til hvers hvetur hún mig? Hver er hvatning krossins og hver er huggun krossins?

Þetta tækifæri getum við gripið í dag. Við getum tekið okkur stöðu við krossinn og séð hann með okkar augum.

Hallgrímur, sem sjálfur þekkti þjáningar vel, fylgdi Jesú veg þjáninganna og dró af því sinn lærdóm fyrir lífið. Svo stóð hann við krossinn og þar sá hann ást Guðs:

Gegnum Jesú helgast hjarta Í himininn upp ég líta má. Guðs míns ástar birtu bjarta Bæði fæ ég að reyna og sjá Hryggðar myrkrið sorgar svarta Sálu minni hverfur þá. (Ps 48)

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda, amen.