Dýrð Guðs í upphæðum er einnig á jörðu.

Dýrð Guðs í upphæðum er einnig á jörðu.

Ef frumtexti guðspjallsins er brotinn til mergjar og við hættum að líta á englakórinn sem klappstýrur Guðs en rifjum upp, að hlutverk englanna er að bera okkur skilaboð frá Drottni; þá kemur aðeins annar vinkill á boðskap þeirra: sem er: Dýrð Guðs í upphæðum er einnig á jörðu.
fullname - andlitsmynd Sveinn Valgeirsson
24. desember 2021
Flokkar

Aftansöngur aðfangadag jóla 2021. Dómkirkjan.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Gleðilega hátíð.

 

„Sú þjóð sem í myrkri gengur sér mikið ljós."

 

Boð spámannssins eiga enn fullt erindi; ekki síst til okkar hér við ysta  haf, sem höfum mátt þreifa okkur áfram í Kófinu. Það hefur sannarlega verið mis-þykkt og vissulega hafa komið þær stundir að við sáum sæmilega fram úr því, en einnig þær sem myrkari máttu teljast og sennilega getur hið yfirstandandi Kóvid-kafald talist með því svartara. En í þessu sem svo mörgu öðru þá mun tími erfiðleika renna sitt skeið og við væntum hins bjartara framundan; En... skamma stund enn, áður en birtan skín... Er ekki sagt að nóttin sé svörtust sé rétt áður fer að skíma?

 

En nú er orðið heilagt. 

Klukkurnar hafa kallað til helgra tíða; hljómurinn ómað um land allt; í hvert herbergi, krók og kima; hátíð ljóssins er gengin í garð. Þessi hátíð sem helst hefur máttinn til að laða það besta fram í hverjum manni; hátíð þess ljóss sem kraftinn hefur að hrekja myrkrið burt. 

         Stundum hefur verið talað um jólin sem hátíð minninga og endurtekningar og er það í góðu samræmi við það hlutverk sem helgisagnir hafa, að við göngum inn í þær sögur sem hátiðinni tengjast og gerum þær að okkar sögu. 

Við fáum að fylgjast með ferðalagi Maríu og Jósefs og við fáum að standa álengdar nær á nóttinni helgu og hljóðu. Og athugið að nóttin var ekki hljóð af því María væri hætt að svara þegar Jósef yrti á hana, vonsvikin af því að hann hefði klúðrað hótelpöntuninni; enda var honum vorkunn og óhægt um vik. Nei, nóttin er hljóð af því að sköpunin öll hefur eins og varann á sér; líkt og gerist stundum skamma stund í miðri sumarnóttinni hér á landi - Fjölmargar helgisögur segja frá því að náttúran öll hafi hljóðnað einmitt þessa nótt, því hún þekkti skapara sinn og skynjaði að nú hefði eitthvað nýtt gerst í þeirra samskiptum; Guð sjálfur stigið niður á jörðina og gengið inn í mannleg kjör; ekki með látum og fyrirgangi, heldur í barninu smáa.

 

já jólin eru hátíð minninganna, þeirra minninga sem við höfum þegið og viljum skila áfram; í það minnsta þeim sem skilja okkur eftir með vellíðan og þakklæti. 

Að þessu leyti auka  jólin á tilfinningarnar og eru svolítið eins  og magnari; góð jól verða betri í minningunni en hinu er ekki að neita að erfiðleikar tengdir jólum verða gjarnan þungbærari; því þessi hátíð er frátekin fyrir gleði. Þess vegna verður ekki nógsamlega hægt að ítreka að jólin eiga ekki síst að miðla von.

 

Vonin er einmitt hinn  undirliggjandi boðskapur englanna á Bethelemsvöllum; nú ber nýrra við; það sem ekki virkaði áður, fær nýtt tækifæri. 

-Og voninni fylgir djörfung!

 

Verið óhræddir! Þetta eru fyrstu orðin sem engillinn mælir - einmitt við hirðana sem að sínu leyti voru utan við samfélagið í Bethlehem - Ég segi ekki beint í einangrun en alla vega saman í búbblu.  Boðskapur englanna slær svo tóninn fyrir það sem koma skal.

 

Og er hér ekki einmitt sá boðskapur sem við þráum og þurfum að heyra? Að það sé engin þörf að óttast? 

Það er svo ótal margt í umhverfi okkar og samfélagi sem virðist ýta undir hræðsluna, óttann! Alltaf hreint verið að segja okkur að vera nú frekar skelfd. Ekki þar fyrir að auðvitað er ekkert að því að vera varkár og fara sér að engu óðslega þegar það á við; eins og augljóst er af núverandi ástandi; en það er hægt að gera yfirvegað og óttalaust; og af sjálfsaga.

 

Því þegar grannt er skoðað, þá  þurfum við ekki svo mjög að óttast. Við búum bara við töluvert öryggi og flestar áskoranirnar eru sem betur fer viðráðanlegar. 

 

---

 

Gloria in excelsis

Enn fáum við að taka undir söng englanna á Bethlehemsvöllum - þessa knöppu ræðu sem nánast er í símskeytastíl - muni einhver eftir símskeytunum. Við þekkjum þann söng;  Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnunum

 

Höfum við heyrt hann svo oft, að við erum hætt að velta fyrir okkur merkingunni? 

Má vera. 

Ef frumtexti guðspjallsins er brotinn til mergjar og við hættum að líta á englakórinn sem klappstýrur Guðs en rifjum upp, að hlutverk englanna er að bera okkur skilaboð frá Drottni; þá kemur aðeins annar vinkill á boðskap þeirra: sem er: 

Dýrð Guðs í upphæðum er einnig á jörðu

 

Ég ætla að segja þetta aftur.

Dýrð Guðs í upphæðum er einnig á jörðu.

 

Hér er inntak atburðarins dregið fram, frekar en hvatning til lofgjörðarinnar, þótt sannarlega sé vandfundnara tilefni til lofgjörðar en einmitt hér. 

 

Afleiðingin er svo sú, að mennnirnir hljóta frið og velþóknun Guðs.

 

Hið mikilvægasta hér er að Guð gerist maður og gefur manninum aðgang að dýrð sinni í syni sínum. Hann er einmitt kominn í heiminn til að vera mönnum hjálpræði. Hér er rétt að benda á að sá friður sem kemur með Kristi í heiminn er ekki friður aðgerðarleysisins; svona eins og stillimyndin í sjónvarpinu; þið sem munið hvernig hún var; óbreytanleg og líflaus með sinn skúmla són.

 

Það er enginn friður.

 

Sá friður sem í hjálpræðinu býr er virkur og kröftugur friður sem helst í hendur við réttlæti. Hér að baki er hebreska orðið shalom - gjarnan þýtt með orðinu friður en hefur þó svo margþætta og djúpa merkingu. Merkingin er ekkert síður sú að fá að lifa og starfa og láta til sín taka, heldur en að sitja með hendur í skauti og hlusta á kyrrðina og hverfa innávið. 

Friðurinn í boðum englanna merkir, að fá að lifa þá góðu möguleika sem í manni búa og vera jafnframt öðru fólki til blessunar. 

 

Guð gefur okkur hjálpræði sitt og heill, og  auglýsir það í syni sínum; það er inntak þess friðar sem talað er um í dýrðarsöngnum.

 

---

Að heyra boðin himni frá 

fær heimi þínum breytt.

Þau boða að heilög himins dýrð

sé hjarta þínu veitt

 

Sr. Hjálmar Jónsson yrkir svo í sálmunum sem hefst á orðunum: "Á dimmri nóttu bárust boð... 

 

Þau áhrif sem holdtekja Guðs orðs getur haft á tilveru okkar, eru einmitt dregin fram hér; þessi atburður, - ef hann fær að tala til okkar og við höfum eyra að heyra; og hug og hjarta til að skilja - verður til þess að setja tilveru okkar, upphaf, mark og mið í rétt samhengi. 

 

Hendingar sálmsins gera svo ljóst að þegar Guð gerist maður og maðurinn fær hlutdeild í himninum þá verður afleiðing þess er að Friður - heill - verður hlutskipti mannsins; því Guð hefur velþóknun á manninum og vill farsæld hans sem mesta.

---

 

Við fögnum þessu í kvöld á heilagri jólahátíð.

Þessari hátíð, sem sameinar okkur öll; hvort sem við skynjum jólin sem hátíð komu Krists í heiminn eða leyfum bara ytra byrðinu að halda utan um okkur og sameinumst um að vera góð hvert við annað.  

Jólin eru þannig sameign okkar allra; hvernig sem við erum og hvar sem við erum, hvort sem það er á Tenerife eða Tálknafirði, Eyrarbakka eða Ástralíu. 

Jólin eigum við saman. 

 

Við hugsum sérstaklega til þeirra sem ekki eru með fjölskyldum og vinum á hátíðinni; og sér í lagi til þeirra sem pestin einangrar;  til þeirra sem eru á sjúkrastofnunum, hvort sem það er vegna vinnu sinnar eða sjúkleika, við hugsum til fanga og einstæðinga, til sjómanna og farmanna allra; og allra sem skyldustarfa sinna vegna geta ekki verið sínu fólki, og biðjum að birta jólanna nái að skína um alla sköpunina, í hvert hús, hvert hjarta.

 

Verum upplitsdjörf, því Birtan er  framundan. Missum ekki sjónar á því.

 

Guð gefi þér gleðileg jól.