Trú í opinberu rými

19. janúar 2018

Trú í opinberu rými

Samráðsvettvangur trúfélaga og lífsskoðunarfélaga, sem stofnaður var á Íslandi árið 2006, heldur málþingið „Trú í opinberu rými: Fjölmiðlar, skólar og stjórnmál‟ í safnaðarheimili Neskirkju í Reykjavík fimmtudaginn 25. janúar næstkomandi kl. 17:30-19:30. Frummælendur á málþinginu eru Sema Erla Serdar stjórnmála- og Evrópufræðingur, dr. Gunnar J. Gunnarsson prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Ævar Kjartansson fjölmiðlamaður. Einar Skúlason stjórnmálafræðingur stýrir fundinum.

Markmiðið með samráðsvettvanginum er að stuðla að jákvæðum samskiptum, skilningi, umburðarlyndi og virðingu milli trúfélaga, lífsskoðunarfélaga og fólks með mismunandi trúar-viðhorf hér á landi og standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi. Aðildarfélög samráðs-vettvangsins eru alls 17 en að auki er m.a. samstarf við Trúarbragðafræðistofu Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

Á Íslandi hefur fólk með ólíkan bakgrunn getað játað trú sína opinberlega og iðkað hana án þess að óttast um líf sitt eða sinna nánustu. Íslenska ríkið er í formlegum tengslum við fjölda trúfélaga af hinum ýmsu trúarbrögðum og er almenn friðsemd og víðsýni meðal þess sem mótað hefur jákvæða ímynd landsins á alþjóðavettvangi. Arfleifð friðar og öryggis er þó langt frá því að vera sjálfgefin enda hefur hatursorðræða af ýmsu tagi sett í vaxandi mæli mark sitt á umræðuna á opinberum vettvangi og beinist hún ekki síst gegn fólki úr hinum ýmsu minnihlutahópum en þar standa hælisleitendur, innflytjendur og fólk með önnur trúarbrögð sérstaklega höllum fæti. Þær raddir heyrast að víkja beri hvers kyns trúarlegri tjáningu úr hinu opinbera rými og rjúfa öll tengsl ríkisins við mismunandi trúarlegar menningarhefðir. Ástæða er því til að ræða hvernig best verði stuðlað að jákvæðu fjölmenningarsamfélagi á Íslandi og að hvaða marki mismunandi trúartjáning eigi rétt á sér á opinberum vettvangi en þar er um fjölmörg álitamál að ræða. Meðal þess sem þarf að spyrja er hver eru þau menningarlegu gildi sem mótað hafa sögu lands og þjóðar og sem allra flestir með ólík trúarviðhorf geta sameinast um í heilbrigðu fjölmenningarsamfélagi. Á málþinginu verður þar sérstaklega hugað að fjölmiðlum, skólum og stjórnmálum.

Málþingið er öllum opið og verður boðið upp á léttar veitingar í hléi.

F.h. Samráðsvettvangs trúfélaga og lífsskoðunarfélaga á Íslandi, 

Séra Jakob Rolland, prestur kaþólsku kirkjunnar og talsmaður verkefnis.

Aðildarfélög samráðsvettvangsins:

Ásatrúarfélagið, Bahá’í-samfélagið, Búddistafélag Íslands, Búddistasamtökin SGI á Íslandi, Félag múslima á Íslandi, Fríkirkjan í Reykjavík, Heimsfriðarsamtök fjölskyldna, Kaþólska kirkjan á Íslandi, Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu, Kirkja sjöunda dags aðventista á Íslandi, Menningarsetur múslima á Íslandi, Rússneska rétttrúnaðarkirkjan, Smárakirkja, Stofnun múslima á Íslandi, Vegurinn, kirkja fyrir þig, Zen á Íslandi – Nátthagi og Þjóðkirkjan.

Samstarfsaðili:

Guðfræði- og trúarbragðadeild hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

  • Frétt

  • Fundur

Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta
Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs