Kirkjuþing

Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka. Þingið kemur árlega saman til fundar á haustdögum. Heimilt er að gera allt að sex mánaða hlé á þingfundum milli umræðna eða áður en síðari umræðu um þingmál lýkur. Á þinginu sitja 29 fulltrúar, 12 vígðir og 17 leikmenn. Forseti kirkjuþings er kjörinn úr röðum leikmanna. Núverandi forseti er Drífa Hjartardóttir.

Starfsemi

Kirkjuþing starfar á grundvelli laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78 frá 1997. Samkvæmt ákvæðum þeirra fer það með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka, þ.e. nema önnur ákvæði þeirra eða annarra laga mæli fyrir um annað.

Á kirkjuþingi eiga sæti 29 kjörnir fulltrúar, 12 vígðir menn og 17 leikmenn, auk þess biskup Íslands, tveir vígslubiskupar og einn fulltrúi guðfræðideildar Háskóla Íslands með málfrelsi og tillögurétt. Hinir kjörnu fulltrúar eru kosnir í níu kjördæmum, sem ná yfir eitt eða fleiri prófastsdæmi og úr hverju þeirra kemur einn vígður maður og einn leikmaður, nema úr þremur þeim fjölmennustu, tveimur Reykjavíkurprófastsdæmum og Kjalarnessprófastsdæmi. Þar eru tveir vígðir menn og þrír leikmenn úr hverju kjördæmi. Auk þess eru tveir leikmenn fyrir Eyjarfjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi og tveir leikmenn fyrir Suðurprófastsdæmi.

Forseti kirkjuþings er kosinn til fjögurra ára úr röðum leikmanna. Á þinginu starfa allsherjar-, fjárhags- og löggjafarnefnd og eiga allir fulltrúar, nema forseti, sæti í einhverri þeirra.

Með þjóðkirkjulögunum frá 1997 var kirkjuþingi fengin heimild til að skipa með starfsreglum flestum þeim málefnum, sem áður var gert með lögum frá Alþingi eða reglugerðum frá kirkjumálaráðuneytinu. Á fyrstu þremur kirkjuþingunum eftir lagabreytinguna voru settar starfsreglur um mikilvægustu stofnanir og verkefni kirkjunnar.

Þá er kirkjuþingi falið að annast stefnumörkun á ýmsum sviðum kirkjunnar, nema annað sé tekið fram í lögunum. Um sum verkefni skal hafa samráð við prestastefnu.

Kirkjuþing fjallar um reikninga, sem það skal sjá til að hljóti fullnægjandi endurskoðun, og fjárhagsáætlanir. Með ályktunum getur þingið sett fram tillögur og ábendingar um þau atriði, sem það telur að betur megi og þurfi að fara. Kirkjuráði er hins vegar með lögum falin að öðru leyti ábyrgð á fjármálum. Kirkjuþing kýs fjóra fulltrúa í kirkjuráð, sem fer með framkvæmdavald kirkjunnar undir forsæti Biskups Íslands.

Kirkjuþing getur haft frumkvæði að frumvörpum til laga um kirkjuleg málefni og beint þeim tilmælum til ráðherra að þau verði flutt á Alþingi. Ennfremur leitar ráðherra umsagnar og tillagna kirkjuþings um lagafrumvörp um kirkjuleg málefni er hann hyggst flytja á Alþingi.

Meðferð mála á kirkjuþingi

Um málsmeðferðina gilda ákvæði laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 og starfsreglur um þingsköp Kirkjuþings nr. 235/2006.

Mál á kirkjuþingi geta verið tillögur að starfsreglum eða til þingsályktunar og skýrslur. Tvær tegundir mála eru skyldubundin og eru alltaf lögð fram á kirkjuþingi þ.e. skýrsla kirkjuráðs og fjármál þjóðkirkjunnar. Um mál á kirkjuþingi getur verið að ræða frá

kirkjustjórninni þ.e. mál sem Kirkjuráð og Biskup Íslands flytja. Jafnframt flytur biskupafundur tillögur um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma og tiltekna aðra málaflokka.
einstökum kjörnum þingfulltrúum eða öðrum fulltrúum með seturétt á kirkjuþingi.
Ofangreind mál eru send forseta Kirkjuþings og eiga að jafnaði hafa borist forseta eigi síðar en sex vikum fyrir upphaf þings.

Í upphafi kirkjuþings er kosið til þingnefnda. Þær eru þrjár; allsherjarnefnd sem fjallar um mál sem geta talist almenns eðlis, fjárhagsnefnd sem fjallar um mál sem lúta fyrst og fremst að fjármálum og löggjafarnefnd, sem fjallar um löggjafar – og skipulagsmálefni.

Hvert mál skal rætt í tveimur umræðum á þingfundi, fyrri og seinni umræðu. Mál er sett á dagskrá þingfundar samkvæmt nánari ákvörðun forseta. Flutningsmaður mælir fyrir málinu í fyrri umræðu og gerir tillögu um vísun til tiltekinnar þingnefndar. Að fyrri umræðu lokinni eru greidd atkvæði um hvort málinu skuli vísað til síðari umræðu. Ef það er samþykkt eru greidd atkvæði um tillögu um vísun til þingnefndar. Ef sú tillaga er samþykkt í atkvæðagreiðslunni gengur málið til hlutaðeigandi nefndar. Nefndin fjallar um málið á nefndarfundi með samræðum og eftir atvikum með gagnaöflun og viðtölum við þá aðila sem málið varðar eða sérfræðinga á málasviðinu. Nefndin afgreiðir mál frá sér og getur verið um eftirfarandi að ræða: Þingnefnd getur mælt með því að tillaga sé samþykkt óbreytt eða lagt fram breytingatillögu. Einnig gæti nefnd lagt til að tillaga verði ekki samþykkt.

Þingnefnd skilar frá sér nefndaráliti sem er rökstuðningur fyrir afgreiðslu nefndarinnar og breytingatillögu ef því er að skipta. Stundum er viðbótarályktun frá þingnefnd í máli. Getur þá verið um að ræða að lagt er til að tilteknum þáttum máls er frestað uns fjallað hefur verið um það á öðrum kirkjulegum vettvangi, t.d. á héraðsfundum. Einnig getur verið um að ræða tilmæli eða ábendingar til kirkjustjórnarinnar sem tengjast málinu. Forseti setur að þessu búnu málið á dagskrá til annarrar umræðu og atkvæðagreiðslu. Mælt er fyrir nefndarálitinu af einum nefndarmanna hlutaðeigandi þingnefndar og önnur umræða fer síðan fram. Að henni lokinni fer fram atkvæðagreiðsla um málið og úrlausn þingnefndarinnar. Atkvæðagreiðslan getur verið í nokkrum liðum þ. e. um einstaka málsliði í senn, allt eftir eðli málsins og úrlausn þingnefndarinnar.

Að lokinni atkvæðagreiðslu liggur fyrir formleg og endanleg úrlausn Kirkjuþings á málinu. Sú úrlausn er birt í svonefndum Gerðum Kirkjuþings. Ef um starfsreglur er að ræða eru þær birtar í Stjórnartíðindum. Vitaskuld eru svo ákvarðanir Kirkjuþings kunngerðar hlutaðeigandi aðilum öðrum, allt eftir eðli máls.

Sérstakar reglur gilda þegar nýkjörið Kirkjuþing kemur saman m.a. skal forseti kjörinn til fjögurra ára.

Fyrirspurnatími er á hverju Kirkjuþingi. Þá geta kirkjuþingsmenn lagt fram fyrirspurnir til dóms- og kirkjumálaráðherra, Biskups Íslands og Kirkjuráðs.