Þvottadagur í dýragarðinum

No image selected

Það er mikið um að vera í dýragarðinum.
Fuglinn er svangur og fílsungarnir þurfa að fara í bað og svo þarf að klippa apana!

Gæðastundir

Kærar þakkir fyrir að koma í sunnudagaskólan með barnið. Stundirnar í sunnudagaskólanum eru gæðastundir, fjarri símum, skjám og öðrum snjalltækjum.

Hér kemur lítil hugmynd að gæðastund heima:

Það má gera gæðastundir úr öllum samverustundum. Það getur verið hundleiðinlegt að þvo sér.

En ekki þegar litli fuglinn kemur og „borðar“ öll óhreinindin úr andlitinu
og úr eyrunum þá er það bara fyndið og skemmtilegt.

Litli fuglinn er góður með bjarta rödd.
En hann er líka óskaplega svangur.
Það gerir þó ekkert til því það er sko til meira en nægur matur á andliti barnsins eftir heila máltíð!
Fuglinn „flögrar“ um andlitið og segir með blíðu og björtu röddinni sinni:
Mikið er gott að fá að borða. Ég var að drepast úr hungri. Namm, namm, namm, namm.
Má ég fá meira?

En það er ekki bara andlitið sem þarf að vera hreint.
Það þarf að þvo litlu fílsungana (hendur barnsins) sem búa í dýragarðinum.
Stóru fílaforeldrarnir (hendur hins fullorðna) setja sápu á litlu fílsungana og þvo þeim vel.
Síðan skola þeir fílsungana vel og vandlega.
Þegar því er lokið þarf að þurrka fílsungunum.
Þetta er allt annað líf! Nú ilma litlu fílsungarnir af hreinlæti.
Þessi leikur má taka eins langan tíma og þurfa þykir. Það liggur ekkert á.

En æ! Mér sýnist aparnir þurfa að fara í klippingu.
Þumalfingursapinn er orðinn mjög síðhærður (Nú klippum við neglurnar).
Heyrðu litli api, þú þarft að fara í klippingu.
Svona þetta er miklu betra!
Næsti gjörið svo vel!
Vísifingursapi þú ert næstur. Hvernig klippingu vilt þú?
Svona gengur þetta með alla tíu apana... nei tuttugu!
Það má ekki gleyma litlu tásuöpunum 😉.

Efni og áhöld:
Rakur þvottapoki (sem er fuglinn).
Handsápa (fyrir fílana).
Handklæði.
Naglaklippur eða naglaskæri.

Þroskaþættir
Barnið lærir að það að það má skemmta sér yfir hversdagslegum hlutum.
Það er gott að kunna að finna leiðir til þess að komast í gegnum
leiðinlega hluti með því að nota ímyndunaraflið, leikinn og hugmyndaflugið.

Tengslamyndun og góðar minningar
Í stað þess að vera með langar fortölur og skammir, má nýta lempni og húmor.
Þannig lærir barnið skemmtilegar og jákvæðar leiðir til þess að nálgast annað fólk.

Spörum skjátímann og fjölgum gæðastundum og frjálsum leik

Leikskólabörn: Hámarksskjátími 60 mínútur á dag.
1.-4.bekkur: Hámarksskjátími 90 mínútur á dag.

 

https://kirkjan.is/thjonusta/fraedsla/bras-og-brall/thvottadagur-i-dyragardinum/