Fangaprestur

Fangaprestur þjóðkirkjunnar sálusorgar fanga og fjölskyldur þeirra. Starfsvettvangur hans eru afplánunarfangelsi landsins.

Sigrún Óskarsdóttir fangaprestur þjóðkirkjunnar

Sérstakur fangaprestur hefur verið starfandi frá árinu 1970. Starfsvettvangur fangaprests eru fangelsin og þjónusta við fanga, aðstandendur þeirra og aðra er láta sig eitthvað varða um hag þeirra.

Fangelsin á Ísland eru fjögur að tölu: Litla-Hraun, fangelsið að Sogni í Ölfusi, Hólmsheiðarfangelsið í Reykjavík og Kvíabryggja á Snæfellsnesi. Um 180 fangar eru í afplánun hverju sinni en það er þó breytilegt.

Fangelsin á Sogni og Kvíabryggju eru svo kölluð opin fangelsi sem þýðir að fangar hafa netaðgang en þó takmarkaðan, geta unnið út frá fangelsinu o.s.frv.
Kvennafangelsið er í Hólmsheiðarfangelsinu og þar er einnig gæsluvarðhaldsfangelsi og móttökufangelsi. Konur eru um 5% af fangafjöldanum. Meðalaldur fanga er á bilinu 20-35 ár.

Fangaprestur fer reglulega í öll fangelsin.
Náið samstarfsfólk fangaprests á vettvangi eru fangaverðir. Þeirra starf er þýðingarmikið og gerir kröfur um sterkar hliðar í mannlegum samskiptum.

Fangaprestur heldur úti fb síðunni Fangaprestur þjóðkirkjunnar. Þar eru birtar myndir af helgihaldi, bænir og stuttar hugleiðingar.

Starfsaðferð fangaprests hefur verið sú að kynnast föngum persónulega. Vinnustaðir eru góður vettvangur til að taka tal saman, gjarnan yfir kaffibolla. Fagnar geta óskað eftir að hitta prest einslega og er prestur nokkuð oft kallaður til að hitta fanga sem eru í einangrun. Fangar vilja oft láta biðja fyrir sér og sínum. Fangaprestur spjallar bæði á léttum nótum og alvarlegum á kaffistofum og annars staðar í fangelsunum. Umræðuefnin eru fjölbreytileg líkt og annarsstaðar þar sem fólk tekur tal saman.

Fangaprestur hefur um hönd helgihald í fangelsunum, guðsþjónustur og samkomur. Þær eru yfirleitt vel sóttar. Stundum skipuleggur fangaprestur viðburði í fangelsum með öðrum eða að eigin frumkvæði. Öll tilbreyting er vel þegin innan fangelsanna.

Aðstandendur og börn fanga eru hópar sem eru mjög svo viðkvæmir og í raun ósýnilegir. Margir fangar eiga börn. Stundum vita þau hvar foreldrið er og stundum ekki. Fangaprestur hafði frumkvæði að tilraunaverkefni sem ber vinnuheitið Bjargráð þar sem tveir fjölskyldufræðingar, þau Jenný Þórkatla Magnúsdóttir og Eiríkur Steinarsson starfa í hlutastarfi við að sinna aðstandendum fanga. Verkefnið er fjármagnað af Félags- og vinnumálaráðuneytinu og kirkjan styrkir það með því að útvega húsnæði í Háteigskirkju og halda utan um verkefnið.

Kjörorð þjónustu þjóðkirkjunnar við fanga hafa ætíð verið orð Jesú Krists: „...í fangelsi var ég og þér komuð til mín.“ (Matteusarguðspjall 25.36).

Skrifstofuaðstaða fangaprests er til bráðabirgða í Fella – og Hólakirkju í Reykjavík.