Tímabili sköpunarverksins

13. september 2018

Tímabili sköpunarverksins

Þjóðkirkjan fagnar Tímabili sköpunarverksins 6. september – stund sannleikans runnin upp

Annað árið í röð markar þjóðkirkjan Tímabil sköpunarverksins frá 1. september til 4. október. Í tilefni þess mun Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands taka upp haustuppskeru í grenndargörðunum Seljagarðar í Seljahverfi við fjölskyldustund þann 6. september klukkan 16 og undirrita áskorun við bann við notkun svartolíu í Norðurhöfum.

„Á síðasta ári hafði ég forgöngu að því að helga í fyrsta skiptið í kirkjunni okkar sérstakt Tímabil sköpunarverksins (Season of Creation), líkt og víða tíðkast í kirkjum heimsins,“ segir Agnes. „Í raun höfum við helgað bæði september og október þessu viðfangsefni. Og nú er í annað sinn beint sjónum að sköpunarverkinu á þeim tíma sem notið er uppskeru sumarsins og þakkað fyrir gjafir náttúrunnar.“

Vanrækt ráðsmannshlutverk okkar

Umhverfismál eru einhver sú stærsta áskorun sem maðurinn stendur frammi fyrir. Þurrkar, skógareldar og náttúruhamfarir af völdum úrhellis nær og fjær á síðustu misserum hafa ekki farið fram hjá neinum. Þörfin á aðgerðum til þess að draga úr og bregðast við ofhlýnun jarðar og breytingum á loftslagi er knýjandi.

„Við höfum vanrækt ráðsmannshlutverkið sem manninum var falið, með því að drottna, ríkja og deila í sköpunarverkinu í stað þess að hlúa að, rækta það allt í sinni fjölbreytni og vernda,“ segir Agnes. „Stund sannleikans er runnin upp í umhverfismálum. Nú er það okkar allra, hvar sem við stöndum, og ekki síst stjórnvalda og forystufólks í atvinnulífi, að breyta með orðum og athöfnum lífsmáta okkar samfélaga þannig að hann þjóni lífinu á jörðinni.“

Uppskerumessur um land allt

Á fjölskyldustundinni mun barnakór Neskirkju koma fram og tekin verður upp uppskera haustsins. Auk þess verður kynnt umhverfisstefna þjóðkirkjunnar. Fram til október eru söfnuðir um allt land hvattir til að halda uppskerumessur þar sem sjónum verður beint að ábyrgð okkar allra þegar kemur að umhverfismálum.

„Tímabil sköpunarverksins er kjörið til þess að menn skoði hug sinn í umhverfismálum og leggi á ráðin um það hvernig náð verði árangri í því að tryggja sjálfbærni og samfélag sem lifi í sátt og samræmi við náttúruna. Með von og trú í farteskinu er líklegra að við höfum þrek og úthald til þess að breyta því sem þörf er á til grósku og lífs til framtíðar,“ segir Agnes að lokum.
  • Biskup

  • Samfélag

  • Viðburður

  • Biskup

  • Samfélag

Biskup Íslands og erkibiskup Svía -mynd Magnea Sverrisdóttir

Martin Modéus settur í embætti erkibiskups

05. des. 2022
.........71. erkibiskup Svía frá árinu 1164
Biskup Íslands talar um konur í biblíunni

Biskup Íslands dómari í kökukeppni KSS

02. des. 2022
......hélt erindi um konur í Biblíunni
Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands les ritningarlestur

Fullveldisdagurinn í Háskólakapellunni

02. des. 2022
......áratuga hefð