Kirkjur sem vinna að betri framtíð

6. desember 2018

Kirkjur sem vinna að betri framtíð

Þar eð ég nú hef slíka von þá kem ég fram með mikilli djörfung.” Annað bréf Páls postula til vina sinna í Kórintu.

Fyrir mér grípur þessi tilvitnun í Pál postula kjarna þess af hverju þjóðkirkjan, Lútherska heimssambandið (LWF), Heimsráð kirkna (WCC) og tugir annarra trúfélaga hafa sent fulltrúa á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Póllandi í ár. Trúin gefur okkur tækifæri til að sjá áskoranir loftslagsbreytinga frá öðru sjónarhorni en stjórnmálafólkið og embættismennirnir sem eru samankomnir hér. Við eigum von um að þrátt fyrir að við stöndum frammi fyrir erfiðu verkefni þá sé það ekki óyfirstíganlegt.

Lútherska heimssambandið sendi sjö ungmenna frá fimm heimsálfum hingað á ráðstefnuna í þeim tilgangi að valdefla ungt fólk, gefa rödd þeirra rými í umræðunni og til að styrkja umhverfisstarf í Lútherskum kirkjum um allan heim. Hér störfum við með ActAlliance sem eru regnhlífasamtök trúarlegra hjálparsamtaka sem starfa á hamfarasvæðum og í þróunarlöndum. Árið um kring snýst starf þeirra um loftslagsréttlæti og á COP24 snýr vinna þeirra að því að raddir fátækra og viðkvæmra samfélaga fái að heyrast hér. Það hefur verið áhugavert að fá að taka þátt í starfi þeirra á ráðstefnunni en mín áhersla hefur þó fyrst og fremst verið að fara á fyrirlestra og tengjast fólki sem ég hef trú á að geti styrkt það umhverfisstarf sem þjóðkirkjan hefur hafið á Íslandi.

Hér er flestum ljóst að til þess að geta lifað af ábyrgð með loftslagsbreytingum er ekki nóg að embættismenn komist að góðri niðurstöðu, allt samfélagið þarf að taka þátt og þar eru trúarhópar engin undantekning. Í öllum samfélögum á jörðinni má finna trúarhópa og helgidóma þeirra. Hátt í 90% mannkyns segjast tilheyra einhverju trúarsamfélagi og í hverri viku sækja milljónir manns trúarlegar samkomur. Því hvílir rík ábyrgð á okkur að tengja þessa stærstu áskorun 21. aldar við þann boðskap og siðfræði sem trúararfur okkar hefur að geyma.

Í gær komu fulltrúar kristinna, hindúískra og múslimskra trúarhópa saman til að eiga stund þar sem við báðum á okkar máta fyrir ráðstefnunni og farsælli niðurstöðu. Við erum hér til að byggja brýr og rífa niður veggi. Þrátt fyrir að tilheyra ólíkum trúarhópum upplifum við að sami kraftur og von liti afstöðu okkar hér. Það er hlutverk trúarhópa að vera skapandi og valdeflandi kraftur í sínu samfélagi og út frá mínu kristna sjónarhorni finn ég að speki og siðferðisboðskapur Jesú hafi margt að segja inn í samfélag sem reynir að fóta sig á nýrri og sjálfbærri leið.

Við sem þjóðkirkja megum, getum og eigum að vera djörf í umræðu okkar um trú og náttúru. Við eigum að vera uppbyggjandi og deila von um betri framtíð sem eflir samfélög um allt land í því verkefni að lifa þær breytingar sem þurfa að verða.

Sindri Geir Óskarsson,
Guðfræðingur.

 

Mynd: Sendinefnd Lútherska heimssambandsins á COP24 (Sean Hawkey / LWF)

  • Alþjóðastarf

  • Frétt

  • Guðfræði

Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta