Falleg og áhrifarík stund í Háteigskirkju

14. desember 2018

Falleg og áhrifarík stund í Háteigskirkju

Það var falleg og áhrifarík stund í Háteigskirkju að kvöldi 12. desember. Kirkjan var þéttsetin af syrgjendum sem voru mættir til að eiga saman fallega jólastund. Þessi samvera hefur verið haldin árlega á aðventunni í 19 ár og hefur ævinlega verið fjölmenn. 

Fyrir marga var stundin í senn falleg, áhrifarík og erfið. ,,Við erum mörg að hugsa til þess að halda jól í fyrsta skipti við breyttar aðstæður eftir fráfall ástvinar“, sagði Sigfús Kristjánsson einn kirkjugesta. Þessi stund var því tilfinningarík og gott að eiga hana með mörgum í sömu sporum. Það var áþreifanlega mikil samkennd í kirkjunni.

Sr. Sveinbjörg Pálsdóttir sjúkrahúsprestur flutti hugleiðingu, Hamrahlíðakórinn söng undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur og Guðný Einarsdóttir organisti Háteigskirkju lék undir jólasálma.

Undir lok athafnarinnar var minningarstund þar sem allir viðstaddir gátu kveikt á kerti og minnst ástvina sinna, undir fallegum orgelleik og söng.

Eftir stundina í kirkjunni var farið upp í safnaðarheimili Háteigskirkju í kaffi, piparkökur og spjall.

Þeir hópar sem standa að þessum atburði eru Þjóðkirkjan og Landspítalinn ássamt félagssamtökunum Ný dögun og Ljónshjarta.

Í kirkjum um allt land kemur fólk saman fyrir jólin, bæði til þess að halda upp á fæðingu frelsarans en einnig til að finna samhug með þeim sem hafa misst ástvin.

  • Frétt

  • Sálgæsla

  • Viðburður

Vetrarmynd af Hallgrímskirkju í Reykjavík

Myrkir músikdagar

24. jan. 2025
...í Hallgrímskirkju
Skrifstofa_nordurland.jpg - mynd

Skrifstofa biskups Íslands verður á Norðurlandi í vikunni

22. jan. 2025
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, flytur skrifstofu sína á Norðurland. Boðið verður upp á opna viðtalstíma á Húsavík og súpufund á Akureyri.
Kristján Björnsson vígslubiskup

Vígslubiskup prédikar í Eyjamessu

22. jan. 2025
...í Bústaðakirkju