Frétt af nýrri bók og annarri eldri

3. janúar 2019

Frétt af nýrri bók og annarri eldri

Það voru ánægjuleg tíðindi sem bárust fyrir skömmu að sala á barna- og unglingabókum hefði gengið betur fyrir jólin en oft áður. Viðmælandi fréttamannsins nefndi meðal annars að umræða um afturför í læsi barna og ungmenna gæti skýrt þessa aukningu. Fólk hefði brugðist við og skundað út í búð og keypt bók til að stuðla að betra læsi þessa hóps.

Menn hafa lengi rætt um dauða bókarinnar sem og dagblaða í prentuðu formi. Bent á að hið rafræna form væri það sem koma skyldi. Snjalltækin væru lestrarsalir nútímans. En það hefur ekki gengið eftir sem skyldi í einu og öllu. Fráleitt er að hægt að fá allar útgefnar pappírsbækur í rafrænu formi. Hér á landi tengist það eflaust að einhverju leyti þeim sið að bók er áþreifanleg gjöf við ýmis tækifæri.

Nú fyrir jól kom út athyglisverð bók eftir Ragnar Helga Ólafsson, Bókasafn föður míns sálumessa (samtíningur) sem fólk ætti ekki að láta fara fram hjá sér. Hún fjallar um þann vanda sem höfundurinn stendur frammi fyrir þegar hann fer í gegnum bókasafn látins föður síns, fjögur þúsund titla. Hvað skal gera? Hann hefur ekki pláss fyrir safnið og fornbókasalar meta það til fárra fiska. Segja það líklega vera meira og minna tunnumat. Sjálfur er höfundurinn heimspekingur, rithöfundur, grafískur hönnuður og hefur komið að útgáfu bóka. Og faðir hans var kunnur og metnaðarfullur útgefandi, Ólafur Ragnarsson. Höfundinum þykir vænt um bækur: „Ég ólst upp í bókaútgáfu eins og afi ólst upp í torfbæ.“ (Bls. 162).

Og nú horfir hann á þetta bókasafn og spyr sjálfan sig um bókina og framtíð hennar. Textinn er ofinn saman með glæsibrag úr minningarbrotum um föður hans og vitnað er með ýmsum hætti til bókanna sem hann þarf að losa sig við. Hann veltir fyrir sér innihaldi þeirra og markhópum, liðnum og lifandi. Skyldi enn vera áhugi á hinum svo kallaða þjóðlega fróðleik? Höfundur segir: „En í bókinni var þessi gamli heimur hólpinn. En fornbóksalinn vildi ekki þjóðlega fróðleikinn frekar en sálmabækurnar.“ (Bls. 160).

Höfundur handleikur bækurnar af virðingu eins og hann sé með hverja aðra forngripi. Hann fullyrðir: „Bókin er úrelt tæki, sem hannað var til að bera á milli manna tegundir skilaboða eða form þekkingar sem sífellt minni eftirspurn er eftir.“ (Bls. 161).

Hann er fremur svartsýnn fyrir hönd bókarinnar svo ekki sé meira sagt. Hún sé á hverfandi hveli hvað snertir form og efni, og hann hefur það á tilfinningunni að við séum að lifa „efstu daga bókarinnar“ og: „Bókina rekur út á  jaðarinn í menningu okkar.“ Lestur verði í framtíðinni settur í flokk með kunnáttu á borð við að kunna að slá tún með orfi og ljá.

Þetta viðhorf til bókarinnar er umhugsunarvert. Það kann að vera tímabundin tilfinning sem felst í þeirri athöfn ef svo má segja að handleika bók, hafa bók í höndunum. Geta flett fram og aftur, strokið um síðurnar, skoðað hvað lagt er í ytra form bókarinnar, band og pappírsgerð, og þar fram eftir götunum. Rennisléttur skjár snjalltækisins gefur aðra tilfinningu. En kannski verður hann það sem koma skal – hver veit. Það er hið nýja form bókarinnar – kannski eitt af mörgum – sem þegar hefur hafið innreið sína. Hvenær það tekur yfir er óvíst.

Af öðru bókasafni

Biblían er bókasafn, fornar bækur úr ólíkum áttum í einni bók, og hún er til á mörgum heimilum. Bóksafn föður okkar á himnum, gæti einhver sagt af heitri trúarsannfæringu. Enn er hún gefin í fermingargjafir og eflaust við önnur tilefni. Hún er líka til í rafrænu formi, hægt að lesa hana á biblían.is og eins er hún til í handhægu appi. Texti Biblíunnar er sem sé aðgengilegur öllum og ekki bara nýjasta þýðing heldur og eldri texti. Sjálfa Guðbrandsbiblíu má líka lesa á netinu. Á öllum öldum hefur það verið kappsmál að útgáfur Biblíunnar væru vandaðar og smekklegar. Höfundur segir frá því að hann hafi hannað rauðu flauelsklæddu Biblíuna sem kom út árið 2007 – ein gerð af nokkrum. Það var falleg hönnun. Auk þess hafa verið gefnar út á þrykk barnabiblíur af ýmsum toga, endursagnir og umorðanir. Margir trúartextar Biblíunnar eru víðkunnir í ólíkum menningarheimum. Textann er sem sé víða að finna í fjölbreytilegu formi (kvikmyndum, þáttum, listum og bókmenntum) – og enginn skortur á því.

En þótt aðgangur sé greiður að trúartextum þessa bókasafns sem Biblía geymir þá er ekki þar með sagt að textinn nái til allra – að textinn skiljist. Sá heimur sem trúartextinn endurspeglar er býsna fjarri nútímanum. Þar blasir við önnur veröld og heimssýn enda þótt manneskjan breytist lítið í eðli sínu frá einni öld til annarrar. Markmiðið hlýtur að vera að grafast fyrir um boðskap þessa texta, afla sér skilnings og þekkingu á honum, bakgrunni hans og helstu stefjum. Það tekur tíma og í mörgum tilvikum kann boðskapurinn að vefjast fyrir mönnum. Auk þess sem það getur verið harla misjafnt hvað menn lesa út úr texta, hvernig þeir túlka hann. Það er því ljóst að yfir marga fjallvegi þarf að fara.

Í kirkjum landsins er lesið upp úr Biblíunni – valdir textar fyrir hvern helgan dag. Textinn er útlagður af prédikurum með ýmsu móti til þess að létta undir með áheyrendum og ryðja boðskapnum braut. Verkefnið er að heimfæra textann til nútímans svo að hann skiljist bærilega. Það gengur misjafnlega og oft getur það verkefni verið býsna erfitt – og stundum auðvelt og fyrirsjáanlegt.

Kunn er sagan af lærisveininum Filippusi og hirðmanninum frá Eþíópíu. Hann las einhverju sinni í einni spádómsbókinni og Filippus spurði hann blátt áfram hvort hann skildi það sem hann væri að lesa. Hirðmaðurinn svaraði heiðarlega: „Hvernig ætti ég að geta það ef enginn leiðbeinir mér?“ Filippus tók hann á orðinu ef svo má segja og heimfærði textann, útskýrði fyrir honum boðskapinn og skömmu síðar tók hirðmaðurinn skírn. (Postulasagan 8.26-40). Þarna var öflug kirkja að störfum og skilaði drjúgum árangri og það á skammri stundu í anda hins hraðfleyga nútíma.

Leiðbeining og fræðsla eru sígildir grundvallarþættir í starfi kirkjunnar til þess að öll þau sem tilheyra henni, allt fólkið, nái að skilja boðskapinn í hinu mikla bókasafni Biblíunnar. Fjölbreytileg leiðsögn og gróskumikil fræðsla sem nær til sem flestra skilar árangri og því drýgri sem fleiri stilla saman strengi sína.

Og verkefnið er það sama: að heimfæra og skýra textann, leiðbeina, flytja merkingu hans yfir á mál nútímans. Dauft ljósið frá skjá snjalltækisins upplýsir andlit lesandans og segja má að textinn skíni í rökkrinu. Og vonandi ljómar hann enn skærar ef heimfærslan hittir í mark. Þá er boðskapur hins tiltekna texta kominn til skila að einhverju leyti og hann úreldist seint og yfir honum þarf vonandi ekki að syngja neina sálumessu.

En kjarni málsins er þegar öllu er á botninn hvolft: Boðskapurinn, fagnaðarerindið er ekki bókin eða formið sem textanum er miðlað með. Fagnaðarerindið er atburður eða persóna, koma Krists í heiminn.

Hreinn S. Hákonarson,
fangaprestur þjóðkirkjunnar

 

Mynd: Kápa bókarinnar Bókasafn föður míns  - sálumessa,

og af flauelsbiblíunni 2007 en höfundurinn, Ragnar Helgi Ólafsson, hannaði útlit hennar.

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Fræðsla

Valþjófsstaðarkirkja

Passíusálmarnir sungnir við gömlu lögin

31. mar. 2023
..........í Egilsstaðaprestakalli
Ingibjörg Jóhannsdóttir

Ingibjörg Jóhannsdóttir ráðin

30. mar. 2023
....djákni í Austfjarðarprestakalli
Páskaliljur í glugga á Fáskrúðsfirði-mynd sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir

Þjónusta kirkjunnar þegar áföll verða

30. mar. 2023
.......prestar á Austurlandi á vaktinni