Stjórnsýsla kirkjunnar: Réttindi embættismanna andspænis hagsmunum þjónustunnar

14. febrúar 2019

Stjórnsýsla kirkjunnar: Réttindi embættismanna andspænis hagsmunum þjónustunnar

Sr. Vigfús Bjarni Albertsson settur mannauðsstjóri þjóðkirkjunnar hafði framsögu á fundi um framtíðarsýn kirkjunnar undir yfirskriftinni „Er stjórnsýsla kirkjunnar of flókin?“. Nefndi hann m.a. í framsögu sinni að hann teldi að réttindi embættismanna kirkjunnar væru mikil og starfsmenn varðir í krafti embætta, en það fyrirkomulag setti hagsmuni þjónustu og fagmennsku ekki alltaf í forgang.

Sr. Vigfús Bjarni taldi að breyttir tímar gerðu meiri kröfur á starfsfólk kirkjunnar sem fagfólk á sama tíma og s.k. embættismannakerfi gæti bitnað á skjólstæðingum. Þá nefndi hann að mjög mikil vinna í stjórnsýslu kirkjunnar færi í mál örfárra starfsmanna og ekki virtist vera hægt að senda þau skilaboð að starfsfólk sé látið hætta. Vitnaði hann í orð stjórnenda í stofnunum og fyrirtækjum sem hann hafði verið í samskiptum við en þeir hefðu haft á orði; „þið getið ekki sagt upp fólki“ og slíkt kæmi illa út gagnvart almenningi. Þá væri embættismannakerfið alltof flókið, starfsfólk ætti að vera færanlegt, slíkt væri í samræmi við hagsmuni þjónustunnar.

Sr. Vigfús Bjarni taldi að prestar hefðu víða mjög jákvæða mynd „heima í héraði“. Hins vegar hefði hann spurt yfirmenn fréttamiðla álits og enda þótt þeir hefðu yfirleitt verið jákvæðir gagnvart starfi kirkjunnar, þá hefðu þeir sagt; „þið sýnið bara svo neikvæða mynd af ykkur“.

Þá nefndi hann að ákveðið agaleysi ríkti í stjórnkerfi kirkjunnar, t.d. kæmust sumir starfsmenn upp með að skila ekki inn starfsskýrslum eins og þeim væri uppálagt.

Á eftir framsögu sr. Vigfúsar Bjarna voru almennar umræður. Sr. Arna Grétarsdóttir minnti á „hina hliðina“ þ.e. að núverandi skipulag tryggði starfsöryggi sem skipti vinnandi fólk almennt miklu máli. Sr. Halldór Reynisson taldi að stjórnskipun kirkjunnar og starfsreglur væru orðnar svo flóknar að þær stæðu starfinu fyrir þrifum og tók sem dæmi af vígslubiskupskjörinu í Skálholti sem hefði tekið á annað ár og verið flóknari í framkvæmd en val á þjóðhöfðingja. Þá tók hann undir með sr. Vigfúsi Bjarna að svo virtist sem hagsmunir embættismennskunnar virtust skipta meira máli en hagsmunir þjónustunnar. Þjóðkirkjan hefði misst mikið traust, m.a. vegna vandræðagangs í að leysa starfsmannamál og eina leiðin til að endurheimta traust almennings væri að bæta þjónustuna og fagmennsku, ekki að tryggja sérhagsmuni ákveðinna stétta.

Dr. Hjalti Hugason spurði tveggja spurninga; hvað væri lúterskt í þessum embættisskilningi presta og hvað væri sérstakt við prestsstarfið. Hann taldi að sumir notuðu embættisguðfræði á dálítið vafasaman hátt. Það væri ekkert lúterskt við það að prestar væru embættismenn að skilningi laga. Þá velti hann því fyrir sér hvað væri svona sérstakt við prestsstarfið eins og þegar sagt væri að prestar væru „alltaf á vakt“. Hann kannaðist reyndar við sambærilega upplifun úr akademíunni og taldi að þetta „syndróm“ einkenna stéttir sem ekki hafa skilgreindan vinnutíma.

Dr. Grétar Halldór Gunnarsson benti á að staðan snérist ekki alltaf um skipulag (strúktúr) heldur oft um vinnustaðamenningu (kúltúr). Hann tók sem dæmi að enda þótt skipulag rómversk-kaþólsku kirkjunnar og suður-baptista væri gjörólíkt virtist þrífast þar sambærileg menning a.m.k. þegar kæmi að meðhöndlun kynferðisglæpa starfsfólks.

Magnea Sverrisdóttir minnti á að í samfélagi kirkna heimsins væru menn fyrst og fremst að tala um þjónustu við umbjóðendur sína. Hér á landi virtist hugsunarhátturinn öðru vísi.

Sr. Hreinn Hákonarson minnti á að starfsreglur kirkjunnar væru í endurskoðun, hins vegar væri ekki hægt að horfa fram hjá því að embættismennskan snérist um hagsmuni og prestar hafi litið á það sem skjól að vera embættismenn.

Loks minnti Arna Grétarsdóttir á nauðsyn þess að setja fram skýra framtíðarsýn í kirkjustarfi og að nálgast þyrfti skipulag út frá slíkri sýn.

Fólk lét í ljós ánægju með fundinn, ekki síst þau hreinskilnu skoðanaskipti sem farið hefðu fram um skipulags- og starfsmannamál.

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Fræðsla

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut
Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apr. 2024
...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra