Samvinna kirkna er til heilla

22. maí 2019

Samvinna kirkna er til heilla

Samkirkjuvinna kirkna

Íslenska þjóðkirkjan hefur tekið þátt í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi við ýmsar kirkjudeildir og kirknasamtök. Dæmi um það er Alkirkjuráðið Oikoumene, Lúterska heimssambandið og Kirknaráð Evrópu. Þá samþykkti íslenska þjóðkirkjan Porvo-samkomulagið árið 1995 en það lýtur að samstarfi anglikanskra og lúterskra kirkna og sameiginlegum skilningi þeirra á ýmsum þáttum trúar og helgihalds Porvoo Communion.
Á kirkjuþingi 2017 var samþykkt þingsályktunartillaga um að kannaðir yrðu möguleikar á auknu samstarfi þjóðkirkjunnar við Samtök evangeliskra kirkna í Evrópu Leuenberg. Markmiðið yrði full aðild að samtökunum. Biskup lagði málið fyrir ráðgjafanefnd um kenningarleg málefni. Í nefnd þeirri sitja þau dr. Arnfríður Guðmundsdóttir, sr. Kristján Valur Ingólfsson og dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson. Mælti nefndin eindregið með því að íslenska þjóðkirkjan gerðist aðili að samkomulaginu.

Málið var svo borið undir Prestastefnu 2019 og samþykkti hún að þjóðkirkjan yrði aðili að samtökunum. Með aðild sinni gengst íslenska þjóðkirkjan við svokölluðu Leuenberg-samkomulagi.

Samtök evangeliskra kirkna í Evrópu voru stofnuð í svissnesku borginni Leuenberg árið 1973. Þau eru nokkurs konar regnhlífasamtök lúterskra kirkna, reformertra og annarra kirkjudeilda sem eiga rætur í siðbótarhreyfingunni. Samtökunum tilheyra nú 94 kirkjudeildir og hafa þær innan sinnan vébanda um fimmtíu milljónir manna. Ástæða þess að samtök þessi voru stofnuð var umræða um mikilvægi þess að kirkjudeildir af sama sögulega uppruna tækju upp samvinnu og samstarf sem byggði á gagnkvæmri virðingu og skilningi á mismunandi áherslum í boðun og helgisiðum. Talið var til heilla að líta til þeirra þátta sem væru sameiginlegir fremur en þeirra sem væru ólíkir en hvort tveggja skyldi vitanlega virt að verðleikum. Samvinna skyldi vera hornsteinn í samtökunum sem hefur leitt meðal annars til þess að altarisborð er opið þeim er samtökunum tilheyra sem og prédikunarstóllinn.
En hvaða samkomulag er þetta sem kennt er við Leuenberg?
Forystumenn siðbótarinnar á 16. öld höfðu um margt ólíkan skilning á ýmsum þáttum trúarinnar enda þótt þeir gerðu sér grein fyrir því að þeir stæðu á fornum sameiginlegum játningargrunni. Guðfræðilegar áherslur þeirra, þýðing og umgjörð helgisiða, mynduðu þó ekki samhljóm í einu öllu. Í Leuenberg-samkomulaginu er strax tekið fram að mikið vatn hafi til sjávar runnið frá siðbótartímum og margt breyst. Þegar horft er af sjónarhóli nútímans sést í gegnum skýjahulu aldanna að margt er það sem sameinar evangeliskar kirkjudeildir fremur en sundrar. Sögulegur veruleiki einnar aldar ásamt því sem hann getur af sér er nefnilega ekki endanleg og óbreytanleg uppskrift fyrir framtíðina.
Kirkjur þær sem standa að samkomulaginu leggja fram í kjölfar ítarlegra umræðna sameiginlegan skilning á nokkrum þáttum fagnaðarerindisins að því marki sem nauðsyn krefur til þess að unnt sé að bindast í kirknasamfélag. Samkvæmt samkomulaginu er staðið á grundvelli hinna fornu kirkjulegu játninga og siðbótarjátninganna hvað snertir kjarna fagnaðarerindisins sem er hjálpræðisverk Jesú Krists og réttlætingarboðskapar hans. Hvort tveggja er mælikvarði allrar boðunar kirkjunnar.
Ólíkar kenningar lúterskra og reformertra siðbótarmanna um heilaga kvöldmáltíð, Kristsfræði og fyrirhugunarkenninguna, kölluðu fram fordæmingar af beggja hálfu á sínum tíma. Enda þótt orð þessara ágætu manna séu virt í sínu sögulega samhengi þá kveður Leuenberg-samkomulagið á um það að téðar fordæmingar samrýmist ekki skilningi nútímamanna á kenningunni og það virt að siðbótarhiti hafi hleypt mönnum kappi í kinn. Einnig er kveðið á um það að fordæmingar þessar séu ekki Þrándur í Götu kirknasamfélags. Hið sama eigi við þótt guðsþjónustur séu hafðar um hönd með ólíkum hætti milli kirkna sem og helgisiðir. Þá er og tekið fram að ólíkur játningargrunnur standi ekki í vegi fyrir samfélagi um orð og sakramenti enda séu stoðir hans sami skilningur á fagnaðarerindinu.

Með Leuenberg-samkomulaginu er því lýst yfir að ástæður fyrir aðskilnaði kirkjudeildanna á 16. öld séu ekki lengur fyrir hendi. Þær stefni nú allar að sama marki.
Kirkjurnar sem samþykkja Leuenberg-samkomulagið munu vinna áfram að guðfræðilegum rannsóknum á ýmsum þáttum fagnaðarerindisins og kirkjustarfsins. Þær eru einhuga um að horfast í augu við nýjar aðstæður í nútímasamfélaginu sem snerta hlutverk kirknanna í boðun og þjónustu.

Kirkjunum sem gjalda jáyrði við Leuenberg-samkomulaginu er ljóst að enda þótt þær standi á sameiginlegum sögu- og menningarlegum grunni þá geti vaknað spenna milli ólíkra viðhorfa í nútímanum og við hana þarf að glíma. Leiðarljósið er sannleikur fagnaðarerindisins. Kirkjurnar munu og ekki skorast undan því að þjóna samkirkjulegu samfélagi kristinna kirkna.
Í lok Leuenberg-samkomulagsins er sú von sett fram að kirknasamfélagið sem af henni er sprottið verði aflvaki til samfunda og samvinnu við söfnuði annarra kirkjudeilda.
Frumþýðingu á Leuenberg-samkomulaginu gerði sr. Kristján Valur Ingólfsson. Þau sem komu að endanlegri þýðingu voru: dr. Arnfríður Guðmundsdóttir, sr. Dalla Þórðardóttir og dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson.

  • Alþjóðastarf

  • Frétt

  • Samstarf

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut