Dýrin blessuð

25. maí 2019

Dýrin blessuð

Gæludýrablessun

Segja má að örkin hans Nóa hafi verið griðastaður dýra á sínum tíma. Hún var nokkurs konar kirkja í ólgusjó. Þess vegna er vel til fallið að bjóða dýr velkomin til kirkjunnar eins og mannfólkið

Í dag fór fram dýrablessun í Kirkjuselinu í Spöng í Grafarvogi. Fólki var boðið að koma með gæludýrin sín á samkomu sem sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir, stjórnaði. Við píanóið var Hákon Leifsson. Sungin voru lög þar sem dýrin koma við sögu.

Í þetta sinn vildi svo til að aðeins var mætt með hunda. Það var líflegur söfnuður og lét vel í sér heyra á tímabili, urraði, rak upp bofs og gelt. Og rófur gengu stundum hratt. En söfnuðurinn róaðist fljótt þegar leið á athöfnina. Einn hundurinn kom of seint með eiganda sínum og þá hvesstu hinir augum á hann, sperrtu eyru og urruðu í áminningarskyni. Hljóðnuðu síðan, settu upp prúðhundslegan svip.

Sr. Arna Ýrr gekk að hverjum hundi, strauk honum og blessaði, signdi yfir hann. Ekki var annað að sjá en ferfætlingarnir tækju þessu vel og tvífætlingarnir eigendur þeirra enn betur.

Nokkrir söfnuðir hafa boðið upp á gæludýrablessun af þessu tagi og hefur þeim verið vel tekið. Gæludýr af ýmsum tegundum eru á fjölmörgum heimilum og sennilega eru hundar og kettir þau algengustu. Náið samband tekst milli heimilisfólks og gæludýrsins. Sérstaklega milli barna og gæludýrs en hverju barni er hollt að umgangast dýr.

Hundurinn er besti vinur mannsins, er gjarnan sagt. Og víst er að fólk getur lært margt af heimilisdýrunum. Þau kalla fram góðar tilfinningar og hlýju. Opna stundum augu fólks fyrir ýmsu í mannlegu eðli. Frægt er tilsvar sem oft er eignað Friðriki mikla Prússakonungi: „Því betur sem við kynnumst mönnunum, því betur kunnum við að meta hundana okkar.“ Það segir margt um einlægni og tryggð hundsins gagnvart húsbændum sínum. Og líka svolítið um manneskjuna.

  • Frétt

  • Messa

  • Samfélag

  • Samfélag

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut