Krossar við þjóðvegina
Nú fer senn í hönd hvítasunnuhelgin. Það er ekki bara mikil hátíðarhelgi í kirkjunni þegar þess er minnst að heilagur andi kom yfir lærisveinana og kirkjan var stofnuð. Þessi helgi er líka mikil ferðahelgi. Stundum er sagt að þetta sé fyrsta ferðahelgi sumarsins. Þá er eins gott að fara með varúð um vegi landsins svo heilum vagni sé heim ekið.
Þegar farið er um þjóðvegina ber stundum fyrir augu krossa við vegarbrún. Þeir hafa sumir staðið þarna lengi og einhver virðist hirða um þá. Rétt þá við ef þeir taka að hallast, málað þá þegar málningin er farin að flagna af. Stundum hafa blóm verið lögð við þá eins og við leiði í kirkjugarði. Jafnvel leikföng. Og fallegir steinar. Þetta eru hljóðir minnisvarðar við oft fjölfarna þjóðvegi þar sem bílar þjóta um. Ökumenn sjá þessa krossa þegar þeir fara um og kannski vekja þeir einhverjar hugsanir hjá þeim um lífið og tilveruna, trúna og eilífa lífið; einnig hvað allt er nú fallvalt í heiminum. Eða kannski eru þeir bara orðnir ósýnilegur hluti af margfarinni leið sem ökumaðurinn sér en sér þó ekki. Hver veit?
Hvaða krossar eru þetta?
Þetta eru minningarmörk um fólk sem hefur farist á þessum stöðum í voveiflegum umferðarslysum. Krossinn er í þessum aðstæðum sérstaklega sterkt trúartákn, upprisutákn. Tákn vonar og kærleika. Ættingjar og vinir hafa komið krossunum fyrir til minningar um kæra ástvini. Þetta er staðurinn þar sem hann eða hún beið bana. Staðurinn má ekki gleymast. En hann er líka öðrum áminning í umferðinni um að fara gætilega. Aka ekki oft hratt. Vega og meta aðstæður hverju sinni.
Krossarnir við þjóðveginn eru skyldir öðrum kunnum og eldri krossum eins og við Njarðvíkurskriður milli Borgarfjarðar eystra og Njarðvíkur og við Kúagerði hjá Reykjanesbraut. Þeir tveir síðarnefndu hafa staðið lengi, sá fyrri meira að segja um aldir. Sagnir herma að mörg alvarleg slys hafi orðið á umliðnum öldum við Njarðvíkurskriður. Á sínum tíma urðu mörg mannskæð slys við Kúagerði en nýr vegur dró stórlega úr slysahættu þar.
Kirkjan.is hvetur alla til að fara varlega í umferðinni um hvítasunnuhelgina.