Alls konar guðsþjónustur

07. júní 2019

Alls konar guðsþjónustur

Hvítasunnuhelgin

Hvítasunnuhátíðin gengur nú í garð um helgina.

Guðsþjónustuhald er með fjölbreytilegum hætti. Sums staðar nýstárlegt og annars staðar með hefðbundnum hætti. Í nokkrum kirkjum verða börn fermd eins og í Dómkirkjunni, Ísafjarðarkirkju, Sauðarárkrókskirkju, Goðdalakirkju, Akureyrarkirkju, Egilsstaðakirkju, Bakkagerðiskirkju, Seyðisfjarðarkirkju og Bjarnarneskirkju.

Í Ástjarnarkirkju er boðið upp á alþjóðlega guðsþjónustu á hvítasunnudag, 9. Júní, kl. 11.00. Þar munu nýbúar lesa ritningarlestra á móðurmáli sínu, prédikunin verður á ensku. Að lokinni guðsþjónustu verður boðið upp á mat frá ýmsum löndum. Sr. Kjartan Jónsson leiðir stundina en um tónlist sér Keith Reed.

Í Laugarneskirkju verður kvöldguðsþjónusta í tóftum hinnar fornu Laugarneskirkju kl. 20.00. Gengið verður frá sóknarkirkjunni kl. 19.40. Prestarnir sr. Davíð Þór Jónsson og sr. Hjalti Jón Sverrisson leiða stundina og sjá um hljóðfæraslátt.

Í Neskirkju verður hefðbundin guðsþjónusta kl. 11.00 á hvítasunnudag. En annan hvítasunnudag verður gróðursett ávaxtatré í garði kirkjunnar. Þangað kemur Ásta Camilla Gylfadóttir, landslagsarkitekt, og veitir ráðgjöf í garðyrkju. Kór kirkjunnar syngur sumarlög og vorsálma undir stjórn organistans, Steingríms Þórhallssonar. Veitingar verða á staðnum. Sóknarpresturinn, sr. Skúli Sigurður Ólafsson, leiðir stundina.

Kaffihúsamessur í Grafarvogskirkju hafa verið vinsælar. Nú hefjast þær aftur og verður sú fyrsta kl. 11.00 á hvítasunnudag. Sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir leiðir hana og kór kirkjunnar syngur undir stjórn Hákonar Leifssonar, organista.

Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju hefur sett mikið mark á kirkjustarfið undarfarna daga. Dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytileg og metnaðarfull. Hátíðin hefur verið vel sótt. Lokatónleikar hennar verða annan dag hvítasunnu kl. 17.00. Messa verður í kirkjunni á hvítasunnudag kl. 11.00. Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir og sr. Sigurður Árni Þórðarson, þjóna. Mótettukórinn syngur og Alþjóðlega barokksveitin kemur fram. Þar mun meðal annars syngja hinn kunni tenórsöngvari, Benedikt Kristjánsson. Organistarnir Björn Steinar Sólbergsson og Hörður Áskelsson standa sína vakt að vanda.

Þá verður göngumessa fyrir Reynivalla- og Brautarholtssóknir á Reynivöllum í Kjós á hvítasunnudag og hefst hún kl. 14.00. Gangan er létt og hentar öllum! Lagt verður í hann frá Reynivallakirkju og gengið að kirkjugarðinum þar sem kynntar verðar teikningar af þjónustuhúsi. Síðan verður ferðinni haldið áfram og numið staðar á nokkrum stöðum og íhugað á hverjum stað um stund í anda pílagrímanna. Boðið verður upp á kaffi á prestssetrinu í lok göngu. Sr. Arna Grétarsdóttir stýrir göngunni og helgihaldinu, organisti er Guðmundur Ómar Óskarsson. Kirkjukór Reynivallaprestakalls syngur.

Lesendur kirkjan.is eru hvattir til að fara inn á heimsíður kirkna sinna og Facebókar-síður til að sjá hvað er í boði. Eitt er víst að margt er að sjá og heyra í kirkjum landsins á hvítasunnuhátíðinni, hátíð heilags anda, og stofndegi kristinnar kirkju.

  • Frétt

  • Messa

  • Samfélag

  • Samfélag

Sálmafossinn - gestir boðnir velkomnir
24
ágú.

Sálmafossinn streymir

Snilldarfólk á ferð
Orð og hvíld
24
ágú.

Orð hafa áhrif

Opin kirkja fyrir list og boðun í miðborginni
Einar Áskell fæst við smíðar
23
ágú.

Boðið í leikhús í kirkju

...daglegt líf verður ævintýri líkast