Göngumessa í Kjós

11. júní 2019

Göngumessa í Kjós

Myndina tók Sigríður Pétursdóttir

Góðviðrið kom sér vel um hvítasunnuhelgina hjá þeim söfnuðum sem boðuðu til helgihalds úti í guðsgrænni náttúrunni.

Á hvítasunnudag var á Reynivöllum í Kjós útihelgihald, göngumessa.

Fólk kom saman í Reynivallakirkju en þar ávarpaði sóknarpresturinn, sr. Arna Grétarsdóttir, viðstadda og fór með bæn. Kór Reynivallaprestakalls söng. Síðan var gengið að kirkjugarðinum á Reynivöllum en þar mun rísa aðstöðuhús sem er mjög nútímalegt og mun falla vel inn í umhverfið – var það kynnt nánar í lok göngumessunnar. Frá kirkjugarðinum var haldið inn á gamla Kirkjustíginn og austur með Reynivallahálsi. Leiðin er mjög falleg og gengið var að vatnsbrunni sem þar er, niður að Laxá og meðfram ánni heim að Reynivöllum. Á nokkrum völdum stöðum var numið staðar, lesnir textar úr helgum ritum og pílagrímafræðum. Lestur var í höndum Rúnars Vilhjálmssonar en sóknarpresturinn leiddi íhuganir og stýrði för.

Kór Reynivallaprestakalls söng í upphafi ferðar og á einum stað á göngunni. Þegar komið var á Reynivelli var kaffi og hressing þegin í boði sóknarnefndar. Sungið var Land míns föður við fánastöngina. Kórstjóri var Guðmundur Ómar Óskarsson, organisti.

Þó nokkur fjöldi fólks á ýmsum aldri tók þátt í göngumessunni sem var afar vel heppnuð.

Göngumessum hefur farið fjölgandi á undanförnum árum enda getur fólk sameinað margt í þeim, samfélag, helgihald og útivist.

  • Frétt

  • Messa

  • Samfélag

  • Samfélag

Hlaupið að bjöllunni

Spurningakeppni fermingarbarna á Austurlandi

22. mar. 2023
....krakkar frá Reyðarfirði unnu
Ólafsfjarðarkirkja og safnaðarheimili

Hún sótti um

21. mar. 2023
.......Ólafsfjörð
Lesið úr ritningunni í fjósi

Kirkjan til fólksins og kúnna

20. mar. 2023
.....messa í fjósi í Hreppunum