Samkirkjulegt námskeið og þinghald

2. júlí 2019

Samkirkjulegt námskeið og þinghald

Greinarhöfundur ásamt Dr. Margaret Obaga frá Kenya

Sr. Sigurður Rúnar Ragnarsson skrifar.

Dagana 13. – 22 maí sl. fór fram samkirkjulegt námskeið og málþing um trú og kirkjulegt starf í Evrópu. Að þessu námskeiði stóð Lútherska kirkjusambandið í München. Mér var boðin þátttaka og var hún að mestu kostuð af Evangelisku Lúthersku kirkjunni í Bæjaralandi. Mótsstaðurinn var í Jósefstal, sem er við rætur Alpanna í geysifallegu umhverfi. Þar er rekinn kirkjumiðstöð fyrir unglingstarf Lúthersku kirkjunnar í Bæjaralandi og hentar vel fyrir svona samkomu, þar sem voru saman fulltrúar fjölmargra kirkna í Evrópu. Alls voru þátttakendur 53 að stjórnendum og umsjónarmönnum meðtöldum. Flestir voru frá Suður Evrópu Ítalíu og gömlu Júgóslavíu, Rúmeníu, Póllandi og fleiri löndum, en einnig fulltrúar frá Finnlandi og Svíþjóð, auk mín frá Íslandi. Var hópurinn mjög samstilltur og námskeiðið einkenndist af góðum samskiptum og miðlandi efnisþáttum.

Dagskráin var nokkuð þétt og vel haldið á málum. Þátttakendur stóðu sjálfir fyrir fjölbreyttum bæna- og samverustundum. Stofnaður var kór fyrsta daginn og var hópur áhugamanna sem leiddi söng í hverri bænastund og við önnur tækifæri.

Fjallað var um málefni einstaklinga, reynslu okkar þátttakendanna af trú og kirkjulegu starfi í heimalandi hvers og eins og hvernig unnið er að trúarlegu starfi meðal kirkna og einstaklinga. Var þetta afar áhugavert og miðluðu allir af sinni reynslu og fengu tækifæri til að segja frá kirkjulegum málum á landsvísu og einnig í sóknum eða prestaköllum eftir atvikum. Flest kvöld voru haldnar kynningar sem hver kirkja eða kirkjusvæði sá um að kynna. Forum Evrópa var áhugavert fyrirbæri sem sýndi í hnotskurn ýmislegt varðandi kirkjur og menningu, sem og sérkenni í mat og drykk hvers lands. Ég bauð upp á íslenskan harðfisk og fleira sérstakt sem auðvelt var að hafa í farangrinum.

Farið var í heimsóknir um svæðið og nálægar kirkjur heimsóttar og fylgst með og rætt við presta og starfsfólk sem hefur ýmis þjónustuhlutverk í viðkomandi kirkjum. Þar var kynnt barna og æskulýðsstarf, kirkja eldri borgara og einnig var farið í almennar guðsþjónustur í öðrum kirkjum. Flesta daga var unnið mikið starf í trúarlegum málefnum og margir þættir kynntir og krufðir, s.s. bænastarf í Kaþólsku kirkjunni, talnaband og bænir frá grísk Orþodoxa kirkjunni, guðþjónustur að hætti Lúthersku kirkjunnar í Bæjarlandi og Jesúítakirkju í München svo eitthvað sé nefnt.

Í frjálsum tímum var farið í skoðunarferðir, kynningar á þjóðlegu þýsku efni, gönguferðir og ferðalög til nágrannabæja og reynt að miðla sem flestu því er Lútherska kirkjan í Bæjarlandi hefur upp á að bjóða. Þarna voru samankomnir einstaklingar frá ólíkum trúarsvæðum, hefðum, með margvíslega reynslu og má segja að námskeiðið hafið skilað mjög miklum fróðleik og miðlað mikilli reynslu, sem gagnast vel í samkirkjulegu starfi annarsvegar og fyrir presta og leiðtoga í kirkjustarfi ekki síður.

Í lok námskeiðsins má segja að andrúmsloftið hafi verið magnþrungið, er öllum var ljóst að dvölin og samveran yrði ekki lengri en til morguns, næsta dags er allir héldu heimleiðis þann 22. maí, eftir strangt og mikið námskeið. Loka¬stundin í kapellunni var tilfinningaþrungin og snerti marga viðkvæma strengi eftir svo nána samveru sem var bæði gefandi og mótandi fyrir alla þátttakendurna.

Vil ég hvetja presta og starfsmenn á kirkjulegum vettvangi að taka þátt í slíku starfi að ári ef í boði verður. Málefni næsta árs mun fjalla um sekulerseringu í Evrópu og stöðu kirkjunnar sem stofnunar, á mótum breyttra tíma gagnvart trú og kirkju. Sé ég fyrir mér að það muni verða áhaugavert viðfangsefni í bland við reynslu, afstöðu og framtíð kirkjunnar í trúarlegum efnum gagnvart afhelgun og fjölmenningu sem fer vaxandi í Evrópu og raunar um heim allan, gagnvart trúarbrögðum og kennisetningum á sviði boðunar og bænheyrslu. Ljóst er að heimurinn er að breytast og margt rótfast riðar til falls. Sú úttekt sem fer fram næsta ár verður án efa mjög áhugaverð fyrir allt kirkjulegt samstarf.

Sigurður Rúnar Ragnarsson sóknarprestur í Norðfjarðarprestakalli.

 

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Námskeið

  • Trúin

  • Fræðsla

  • Námskeið

logo.png - mynd

Síðari umferð kosningar biskups Íslands

25. apr. 2024
...hefst 2. maí næstkomandi.
Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta