Hringt í nær hálfa öld

5. ágúst 2019

Hringt í nær hálfa öld

Hreiðar Grímsson, hringjari á Reynivöllum í Kjós

Það er engin kirkja án hringjara. Og þá er verið að tala um hringjara sem fer upp í kirkjuturn og hringir klukkum með gamla laginu – með handafli.

Fagur dagur á Reynivöllum gær. Sunnudagur um verslunarmannahelgi og kallað var til hestamanna- og útivistarmessu. Margir sinntu kallinu og gömlu kirkjuklukkurnar ómuðu í nýborinni sumarkyrrð dagsins, það var hringt ákveðið og hressilega. Hestakona og guðfræðingur, María Gunnarsdóttir, prédikaði, ræddi fallegt samband manns og hests, en sóknarpresturinn, sr. Arna Grétarsdóttir, stýrði helgihaldinu; leikmenn lásu lestrana. Organistinn Guðmundur Ómar Óskarsson stóð sína vakt sem fyrr, hógvær og prúður.

Og við lok guðsþjónustunnar stefndi hringjarinn aftur lóðrétt upp í turn. Hringdi út með krafti sem skær hljómur klukknanna bar ágætlega. Kom svo ofan stigann en tíðindamaður kirkjan.is sem sat á aftasta bekk við turnopið spurði hver maðurinn væri og sagðist hann heita Hreiðar Grímsson, frá Grímsstöðum í Kjós.

„Búinn að vera hringjari lengi?“

„Nær hálfa öld,“ kvað Hreiðar við. Fæddur þrjátíuogsex.

Hreiðar Grímsson er bóndi og honum er annt um kirkju sína. „Ég var sóknarnefndarformaður 1974, þegar sr. Einar kom.“

Tíðindamanni kirkjan.is sagðist einmitt hafa gengið út að leiði síns gamla og góða fræðara dr. Einars Sigurbjörnssonar í kirkjugarðinum á Reynivöllum áður en guðsþjónustan hófst.

„Já,“ segir Hreiðar, „það eru nú ekki margir prestar sem láta jarða sig hér.“

„En þeir hafa nú verið lengi hér,“ segir tíðindamaður. Honum hafði verið gengið upp að brjóststyttu milli kirkjugarðs og kirkju, af sr. Halldóri Jónssyni.

Hann var nú hér í hálfa öld.

„Já, hann var dugnaðarbóndi.“

Tíðindamaður spyr hvort prestur sá hafi verið nettur maður og fínlegur eins og brjóstmyndin gefi til kynna.

„Nei, hann var frekar lágvaxinn. Og þybbinn að ég held.“

Svona er augað, hugsar tíðindamaður kirkjan.is. Augað listamannsins eða hans.

„Hann skírði mig,“ segir Hreiðar. „Svo kom sr. Kristján Bjarnason, hann fermdi mig, hann var líka múrari. Þá kom sr. Einar og síðan sr. Gunnar Kristjánsson. Hann skírði börnin mín og fermdi.“

Þannig tengjast kynslóðir kirkjunni. Prestarnir koma og fara.

Til þess að kirkjustarf gangi vel fyrir sig þarf valin manneskja að vera í hverju rúmi. Svo hefur verið sem betur fer víðast hvar. Hringjarar, meðhjálparar, sóknarnefndarfólk, organistar, prestar. Og söfnuður.

Hreiðar Grímsson, hringjari í Reynivallakirkju í Kjós, er einn af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni í sinni sveit.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.

 

 

Reynivallakirkja í Kjós



Sr. Halldór Jónsson þjónaði Reynivöllum í Kjós frá 1899-1950


  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

logo.png - mynd

Síðari umferð kosningar biskups Íslands

25. apr. 2024
...hefst 2. maí næstkomandi.
Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta