Stutta viðtalið: 101 Reykjavík, 1110 Morges

08. ágúst 2019

Stutta viðtalið: 101 Reykjavík, 1110 Morges

Sr. Yrsa, sóknarprestur við Genfarvatn

„Hvern hefði grunað að ég yrði einhverntímann sóknarprestur við Genfarvatn?“ segir sr. Yrsa Þórðardóttir. „Fyrir tæpum tíu árum var ég sálgreinir í 101 Reykjavík og drakk þar ófáa latte.“

Framtíðin er torlesin bók og alltaf skoðuð með augum líðandi stundar og sjóndeildarhringur hennar getur veitt mörg tilboð.

Áður en sr. Yrsa var sálgreinir hafði hún verið sveitaprestur á Hálsi í Fnjóskadal, vígð þangað fyrir rúmum þrjátíu árum. Þá ung kona.

Nú er það Genfarvatn. Langur vegur frá Hálsi í Fnjóskadal og þangað – með millilendingu í henni Reykjavík, Strassborg, Fáskrúðsfirði og Appenzell. Það er sitthvað að starfa norður við ysta haf, svo í henni Reykjavík og þá við Genfarvatn.

En sr. Yrsa er áræðin kona og lætur ekki hlutina vefjast fyrir sér. Svo býr í henni ævintýralöngun.

Sr. Yrsa segist hafa verið sóknarprestur um tveggja ára skeið í Waldstatt í austur-Sviss. Það hafi verið dýrmæt reynsla að æfa sig í þýsku og svissneskum mállýskum og oft reynt á. En þar sem hún talar frönsku reiprennandi hafi hún ákveðið að nýta sér það og sækjast eftir starfi á því málsvæði. Það tókst. Í kantónunni Vaud er töluð franska.

Eiginmaður sr. Yrsu er sr. Carlos A. Ferrer. Hann er sóknarprestur í kantónunni Appenzell,í bæjunum Grub og Eggersriet.

„Það er alltaf ævintýri að flytja sig um set,“ segir sr. Yrsa.

Flestir þekkja þá stund flutninganna þegar öllu virðist vera ólokið enda þótt stritað hafi verið við að pakka niður svo dögum skipti. Og enn fleiri kannast við þá gleðitilfinningu þegar vinir birtast með kraftaglóð í augum og vilja leggja hönd á plóg í flutningunum.

„Carlos og vinur okkur, hann Larry, héldu austan frá Appenzell um nóttina á flutningabíl með veraldlegum eigum okkar hjóna,“ segir sr. Yrsa og bætir því við að hún hafi komið á eigin bíl undir hádegi.

Þegar sr. Yrsa renndi í hlað, var þangað kominn vinur þeirra Carlosar, sr. Árni Svanur Daníelsson, frá Genf, og búinn að aðstoða þá Carlos og Larry við að bera allt upp aldnar steintröppur.

„Upp á aðra og þriðju hæð dásamlegs húss með sjarma, sem er steinsnar frá vatninu“, segir sr. Yrsa og eftirvæntingin leynir sér ekki í röddinni. „Ef opnaður er hleri á efstu hæð sést út á vatnið og þar höfum við í hyggju að drekka stundum morgunkaffið,“ segir hún leyndardómsfull á svip.

„Það var sannarlega ánægjuauki að sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir kom ásamt dóttur þeirra Árna, Heiðbjörtu, að okkur, flutningafólkinu, þar sem við snæddum tapas við aðalgötuna í Morges. Christophe, kollega minn, bar þar að í tæka tíð til að drekka kaffi með okkur. Hann var með gífurlegan vagn með sér, undir myndvarpann okkar,“ segir sr. Yrsa og er hrifinn af hugmynd hans um að kaupa Kristianíuhjól undir varpann. „Sibylle, konan hans, er einnig prestur hér og djákninn Danielle fyllir flokk vígðra þjóna Morges og nágrennis. Þau eru alveg hreint yndislegt fólk, ég hlakka til að starfa með þeim“, segir sr. Yrsa. Alls staðar eru verkfúsar hendur og góðar samstarfsmanneskjur sem renna góðum stoðum undir safnaðarstarfið.

Handtak góðra vina yfir vatnið þar sem Kristín og Árni Svanur hafa verið þeim Carlosi og Yrsu er einkar dýrmætt. Ekki bara þennan flutningsdag heldur undanfarin ár. Það er þétt handtak og gott.

Íslenskir prestar í útlöndum


„Mér verður hugsað til þess hvernig guðfræðideild Háskóla Íslands hefur menntað guðfræðinga sem fara víða og taka að sér ýmis störf. Persónulega á ég nú skjöl frá háskólum í Strassborg og Zürich sem viðurkenna ágæti þeirrar menntunar. Og að ári treysti ég því að í safnið bætist plagg frá Lausanne í kantónunni Vaud,“ segir sr. Yrsa. „Fjölmargir íslenskir prestar starfa í útlöndum. Við fjögur hér hugum að samkirkjulegu starfi, við Carlos höfum haft náið samstarf við rómversk-kaþólska kollega, Árni starfar að lúterskum málum um veröld alla og Kristín er sóknarnefndarformaður í enskumælandi kirkju, sem deilir kirkju með þýskumælandi mótmælendum. Þar er ekki leiðinlegt að sækja messu,“ segir sr. Yrsa hlæjandi.

„Svissneski þjóðhátíðardagurinn er 1. ágúst, svo að það var ekki bara til að fagna mér sem skotið var upp flugeldum, fallegur bálköstur brenndur úti á vatni og lúðrar þeyttir. Ég var búin að æfa mig að syngja þjóðsönginn, sem ég heyrði aldrei eystra. Þar sungum við Appenzellljóð. En ég set mig hér í stellingar að þjóna í enn einni tegund af kristinni kirkju. Aðlögunarhæfni er ekki orðið. Frekar botnlaus gleði yfir hinu óþekkta og húmor í bland við svekkelsi yfir að vera alltaf að misskilja við og við,“ segir sr. Yrsa brosandi.

En hempan? Gamla góða hempan.

„Hún varð eftir heima á Íslandi, sérlega var það kraginn sem styngi hér í stúf. Hér eru allt aðrir siðir, annar söngur, messuform ekki svipað því sem við lærðum forðum daga heima. Siðbótarkirkjan er óneitanlega ekki lútersk. Austur í Appenzell var það helst Zwingli sem við studdumst við. Hér verður það kannski Zwingli í bland við Calvin, ég á eftir að komast að því. Fimm öldum eftir siðbót hafa kirkjur sem betur fer lært hver af annarri, með samkirkjulegu starfi. Ég sendi kæra kveðju til systkina í Kristi nær og fjær,“ segir sr. Yrsa Þórðardóttir, sóknarprestur við Genfarvatn að lokum.

Sr. Carlos og Larry, flutningsmaður með meiru

 

Sr. Yrsa fyrir utan prestssetrið