Regnbogamessa um land allt

11. ágúst 2019

Regnbogamessa um land allt

Grétar Einarsson, prédikaði í Hallgrímskirkju

Í morgun var regnbogamessa í Hallgrímskirkju í Reykjavík til marks um þátttöku kirkjunnar í gleði- og hinsegindögum sem nú standa yfir og ná hámarki um næstu helgi. Af þessu tilefni var búið að breiða út fána fjölbreytninnar í kórtröppur kirkjunnar: regnbogafánann sem er fáni allrar mannréttindabaráttu og hinseginfólks.

Það eru margir sem koma að einni guðsþjónustu og hana þarf að skipuleggja vel svo allt gangi snurðulaust fyrir sig. Dr. Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur, þjónaði fyrir altari ásamt sr. Evu Björgu Valdimarsdóttur, héraðspresti. Messuþjónar lásu lestra og Grétar Einarsson, prédikaði. Félagar úr Mótettukórnum sungu. Við orgelið var Kjartan Jósefsson Ognibene en konsertorganisti helgarinnar, Susannah Carlsson, lék eftirspilið. Allt gekk samkvæmt áætlun. Á annað hundrað manns sóttu regnbogamessuna. En þar með er ekki öll sagan sögð.

Regnbogamessunni var nefnilega útvarpað beint og því barst hún út um land allt. En það gerist ekki af sjálfu sér.

Þeir Einar Sigurðsson og Magnús Þorsteinn Magnússon, hljóðupptökumenn frá Ríkisútvarpinu, voru búnir að stilla upp hljóðnemum og líma niður snúrur svo fólk flæktist ekki um þær. Tíðindamaður kirkjan.is ræddi við þá úti í upptökubílnum þar sem þeir sátu við hljóðupptökuborðið og réðu ráðum sínum. Allt þarf að vera fínstillt og í lagi – þeir hlusta á alla messuna út og eru tilbúnir að grípa inn í ef hljóðið bjagast hvað þá ef það skyldi nú detta út. Þeir segjast hafa unnið við þetta svo áratugum skiptir og finnst þetta alltaf jafn skemmtilegt.

Þau eru því býsna mörg sem koma að einni guðsþjónustu og í þetta sinn tveir að auki frá Ríkisútvarpinu svo öll þjóðin hafi tækifæri til að hlusta.

Guðsþjónustur í Ríkisútvarpinu á sunnudögum eru mörgum kærkomnar, bæði unnendum íslenskrar menningar og trúar.

En þó að búið sé að útvarpa messunni þá má hlusta á hana hér: https://www.ruv.is/utvarp/spila/gudsthjonusta/24228?ep=7hi3c5, og hlýða á ljúfan söng, fagra þjónustu og góða prédikun. Njótið vel!

Magnús Þorsteinn og Einar, hljóðupptökumenn, í bílnum 
fyrir utan Hallgrímskirkju í morgun

Messuþjónar, prestar, prédikari og kórfólk ganga inn í kirkju

Sr. Eva Björg, Grétar og dr. Sigurður Árni

  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

Jarþrúður Árnadóttir
20
ágú.

Nýr prestur

Langanes- og Skinnastaðaprestakall
Edda Möller glöð í bragði að vanda
20
ágú.

Stutta viðtalið: Brosið í Kirkjuhúsinu

Kirkjan er auðug þegar hún hefur svona kjarnorkufólk í þjónustu sinni
Sálmafoss mun streyma um stuðlabergið á menningarnótt
19
ágú.

Kirkjan og menningarnótt

Gott er að glöggva sig með fyrirvara á tímasetningum atburða...