Kirkjukórar eru menning

13. ágúst 2019

Kirkjukórar eru menning

Kristín, Hafdís og sr. Elína Hrund - kjarnakonur í kirkjustarfi

Tíðindamaður kirkjan.is hitti þær sr. Elínu Hrund Kristjánsdóttur, sóknarprest, Hafdísi Sigurðardóttur, grafískan hönnuð, og Kristínu Sigfúsdóttur, skólastjóra, og ræddi við þær í kirkju- og menningarmiðstöðinni á Hellu en hún er að Dynskálum 8.

Það er feikistórt húsnæði með tveimur góðum sölum og skrifstofum fyrir prestinn í Odda og prófast Suðurprófastsdæmis. Þar fer fram margvísleg starfsemi. Fjöldi kóra hefur þar æfingaaðstöðu; eldri borgarar nýta sér salina með ýmsu móti og þar eru sömuleiðis haldnir AA-fundir. Kirkjustarf eins og sunnudagaskóli og fermingarfræðsla nýtur góðs af þessari rúmgóðu aðstöðu. Nýbúið er að setja nýtt gólfefni á annan salinn sem tekur hátt í þrjúhundruð manns í sæti. Þær stöllur segja að kór Odda-og Þykkvabæjarkirkna stefni að því að halda þar tónleika og prófa hljómburðinn sem sagður er vera góður eftir að skipt var um gólfefni.

Já, kórinn er þeim öllum mikið hjartans mál.

Menningarstarf kirkjukórsins

Það er óvenjumikil aldursbreidd í kirkjukór Odda- og Þykkvabæjarkirkna. Yngsti kórfélaginn er fæddur 1993 og sá elsti 1939. Í kórnum erum 23 félagar og þeir halda uppi messusöng í kirkjunum þar sem sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir þjónar.

Nú stendur mikið til hjá kórnum. Hann stefnir á menningarferð til Póllands, til Parísar norðursins sem þeir pólsku kalla svo, eða borgarinnar Szczecin. Kórinn ætlar að syngja í nokkrum kirkjum og halda tónleika á allraheilagramessu föstudaginn 1. nóvember n.k. Óvenjumargir nýir félagar hafa bæst við í kórinn og því upplagt að hrista mannskapinn aðeins saman. Nánast allir kórfélagar ætla í ferðina. Og allir eru fullir af spenningi!

„En af hverju ætlar kirkjukórinn til Póllands?“ spyr tíðindamaður kirkjan.is. „Bakvið það er stutt og falleg saga,“ segja þær sr. Elína Hrund, Hafdís og Kristín. „Ungur pólskur maður bjó fyrir nokkru á Hellu, vann sem þjónn og náði ótrúlega fljótt býsna góðum tökum á íslensku svo eftir því var tekið. Hann flutti aftur til Póllands og rekur nú ferðaskrifstofu þar og skipuleggur ferðir til síns heimalands. Það var því borðleggjandi að kirkjukór Odda- og Þykkvabæjarkirkna nýtti sér þjónustu hans.“

En allt kostar peninga. Kirkjukórinn hefur fengið styrki til fararinnar en ætlar sér líka að afla fjár á eigin spýtur með því að syngja. Í kvöld verða tónleikar á mjög svo sérstökum stað, í Hlöðuhelli á Ægissíðu, kl. 20.00. Hljómburður þar er að sögn mjög góður og þetta eru fyrstu tónleikarnir í hellinum eftir að aðgengi að honum var stórlega bætt. Stjórnendur kórsins eru þau Guðjón Halldór Óskarsson og Kristin Sigfúsdóttir. Dagskráin er fjölbreytileg og skemmtileg.

Áður en kórinn þenur raddböndin mun Baldur Þórhallsson, prófessor frá Ægissíðu, segja í stuttu máli frá hellunum sem þarna eru. Þeir eru allir manngerðir. Í lok tónleikanna verður svo boðið upp á skoðunarferð um hellana fyrir þau sem vilja.

Hlöðuhellir stendur rétt fyrir neðan þjóðveg 1 við bílaplanið á Ægissíðu. Engin sæti eru í hellinum en fólk getur komið með létta stóla ef það vill. Aðgangseyrir er kr. 2.500.

Frá Reykjavík að Hellu er um 90 km og því er ekki langt að fara á spennandi tónleika á enn meira spennandi stað. Enginn verður svikinn af söng kirkjukórs Odda- og Þykkvabæjarkirkna á þessum einstaka stað, í Hlöðuhelli.

Hví ekki að skella sér austur í bíltúr í kvöld í haustblíðunni?

Kórinn syngur á mögnuðum stað sem er engum öðrum líkur

Nýlagt gólfefni í glæsilegum sal kirkju- og menningarmiðstöðvarinnar á Hellu
  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

Frá Egilsstöðum - Egilsstaðakirkja
07
des.

Líf og fjör

Söngur er ómissandi...
Vasklegur aðventuhlaupa- og gönguhópur - Steinþóra tekur sjálfu
07
des.

Hlaupið á aðventu

... vel heppnað samspil kirkju og samfélags
Hér heldur formaður sóknarnefndar á fjólubláa höklinum, Ragnheiður Ásta Magnúsdóttir. Frá vinstri: Hjónin Gert Madsen og Elín, sr. Erla og sr. Fritz
06
des.

Stutta viðtalið: Veflistakona og kirkjan

„Ég hanna allt sjálf og teikna,“ segir Elín hress í bragði