Stutta viðtalið: Uppi í turni

10. september 2019

Stutta viðtalið: Uppi í turni

Glaðbeittur klukkusérfræðingur

Hljómur kirkjuklukknanna er sjálfsagður.

Fáir velta klukkunum svo sem mikið fyrir sér. Hljómurinn er þarna á þeirri stundu sem hann á að vera.

Og þó.

Þyturinn í flughreyflunum á flugvellinum er með allt öðrum blæ en klukknahljómar í helgum húsum landsins. Hvort tveggja hefur sinn sjarma. En klukknahljómurinn hefur náð að heilla flugumferðarstjórann knáa með öðrum hætti en flugvéladynurinn.

Með vissum rétti má segja að Guðmundur Karl Einarsson flugumferðarstjóri sé helsti kirkjuklukkusérfræðingur landsins.

Hann heldur úti vefnum kirkjuklukkur.is þar sem segir frá kirkjuklukkum Íslands.

Guðmundur Karl fer um landið, prílar upp í kirkjuturna, tekur myndir, mælir klukkur og tekur upp hljóm þeirra. Skráir sögu þeirra og hvernig þær eru notaðar. Setur síðan allt inn á klukkusíðuna sína. Markmiðið er að fólk geti hlýtt á klukknahljóm allra kirkjuklukkna landsins og fræðst um þær.

En hvernig datt honum þetta í hug?

„Ég vann við æskulýðsstarfið í Digraneskirkju og var líka í tæknimálunum. Þar voru engar kirkjuklukkur, teikningin hafði jú gert ráð fyrir klukknaporti en það reis aldrei,“ segir Guðmundur Karl. Hann og sóknarpresturinn sr. Gunnar Sigurjónsson ræddu þessi mál oft. Þá flaug honum í hug að setja upp hátalara fyrir utan kirkjuna og inni í hana, leika af bandi klukknahljóm Dómkirkjunnar í Reykjavík sem útvarpað er hvern einasta aðfangadag. Þetta var gert og um nokkurn tíma voru jólin hringd inn í Digraneskirkju með upptöku Ríkisútvarpsins.

Hugmyndin þróaðist svo áfram og árið 2013 gekk Guðmundur Karl á fund biskups Íslands, sr. Agnesar M. Sigurðardóttur. Lagði þá hugmynd fyrir hana að hann fengi að fara um landið og taka upp klukknahljóm kirknanna. Það var auðsótt mál og framtakinu fagnað.

„Kirkjur landsins eru um 377 þannig að verkefnið er all umfangsmikið,“ segir Guðmundur Karl og brosir. „Nú þegar eru klukkur 65 kirkna komnar inn á vefinn og mun taka mörg ár að ná til þeirra allra.“

En Guðmundur Karl er ungur maður og hefur því tímann fyrir sér – og þolinmæðina.

En það er ekki bara hljóminn að finna á kirkjuklukkur.is hjá Guðmundi Karli heldur og margvíslegan fróðleik. Kirkjuklukkur eru menningarverðmæti og margar þeirra eiga merkilega sögu.

Þetta segir um kirkjuklukkurnar í Landakirkju í Vestamanneyjum á kirkjuklukkur.is:

„Þegar Tyrkjaránið var framið í Vestmannaeyjum árið 1627 var kirkjan þar brennd en sem betur fer tókst að koma klukkunum undan. Á þeim tíma átti kirkjan tvær klukkur, klukkuna frá 1617 og aðra eldri. Þeirri eldri var reyndar stolið úr kirkjunni árið 1614 þegar sjóræningjar rændu kirkjuna. Þeir buðu hana síðar til sölu í Englandi en þar sem klukkan var merkt Landakirkju í Vestmannaeyjum komst upp um þjófana. Englandskonungur lét þá senda klukkuna aftur til Vestmannaeyja en ræningjarnir voru dregnir fyrir dóm og teknir af lífi.
Talið er að eldri klukkan, sú sem send var til baka frá Englandi, hafi verið seld árið 1743 fyrir 68 ríkisdali og ný klukka keypt í staðinn.“

Saga margra klukkna er vel geymd en sögur annarra eru slitróttar eða týndar. En hljómur þeirra allra segir alltaf einhverja nýja sögu í huga þess sem hann heyrir og verður hluti af sögu hans á ýmsum skeiðum lífsins.

Það er hringt til guðsþjónustu. Líka við brúðkaup. Svo er það líkhringingin.

„Ég tek klukknahljóminn upp fyrir utan kirkjuna,“ segir Guðmundur Karl, „eins og fólkið heyrir hann – hann hljómar öðruvísi í nándinni uppi í sjálfum turninum.“ Hann tekur stundum upp myndband af slætti klukknanna, ekki alltaf. Lengi vel studdist hann við kirkjukort.net til að fræðast um kirkjurnar og átta sig á legu þeirra. Svo á hann allar bækurnar í ritröðinni, Kirkjur Íslands.

Guðmundur Karl segir frá því að sér sé hvarvetna vel tekið þegar hann falast eftir klukknahringingu. Fjölskylduferðir eru gjarnan nýttar í upptökur á kirkjuklukkum og tengdafaðir hans hafi farið víða með honum í upptökuferðir.

Kirkjan.is fylgist með Guðmundu Karli mæla klukkurnar í Háteigskirkju. Þar var fagmaður á ferð. „Ég var kominn með hljóminn úr þeim öllum“, segir hann. „Það er óvenju gott aðgengi að klukkunum í þessari kirkju. Sums staðar er mjög erfitt að komast að klukkunum og sjá til dæmis hvaða áletranir eru á þeim.“

Klukkurnar í Háteigskirkju eru steyptar í Hollandi og eru frá 1979. Elstu klukkurnar sem Guðmundur Karl hefur hljóðritað eru í Tungnafellskirkju, frá 12. öld. Þá eru mjög gamlar klukkur í Bæ í Borgarfirði og Staðarfellskirkju í Dölum.

Guðmundur Karl hefur starfað að kirkjumálum frá fermingu, var í stjórn KFUM og KFUK á Íslandi, stjórn Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar og er formaður stjórnar Vinagarðs leikskóla KFUM og KFUK. Þá situr hann í sóknarnefnd Lindakirkju í Kópavogi.

Kirkjan.is óskar honum góðs gengis með þetta merkilega áhugamál sem skilar sínu til menningarsögu þjóðarinnar og kirkju Íslands.

Vefur Guðmundar Karls er þessi: Kirkjuklukkur Íslands

Guðmundur Karl mælir kirkjuklukkur Háteigskirkju af nákæmni

Stærsta klukkan í Háteigskirkju - hringir mót líki - takið eftir hamrinum vinstra megin


  • Fræðsla

  • Frétt

  • Samfélag

  • Trúin

  • Fræðsla

  • Samfélag

Sr. Jarþrúður

Jarþrúður valin prestur

10. okt. 2024
…í Egilsstaðaprestakalli
Sálgæslu og fjölskylduþjónustan er til húsa í safnaðarheimili Háteigskirkju

Gríðarleg eftirspurn hjá Sálgæslu og fjölskylduþjónustu kirkjunnar

10. okt. 2024
...segir Vigfús Bjarni forstöðumaður
Börn og fullorðnir í Langholtskirkju

Skiptir messuformið máli?

09. okt. 2024
...þróunarvinna í Langholtskirkju