Biskup heimsækir Konukot

20. september 2019

Biskup heimsækir Konukot

Bjartsýnn hópur eftir að hafa fræðst um öflugt starf í Konukoti

Fyrir nokkru skipaði sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, starfshóp, til að kanna hvað kirkjan gæti gert í málefnum heimilislauss fólks og koma með tillögur þar um. Í starfshópinn voru skipuð þau Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni, og stýrir hún hópnum, Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, og sr. Hjalti Jón Sverrisson. Sr. Hreinn S. Hákonarson, fyrrv., fangaprestur er ráðgjafi hópsins.

Í gær heimsótti biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, Konukot og ásamt starfshópnum og sr. Sigfúsi Kristjánssyni, sviðsstjóra á fræðsludeild Biskupsstofu.

Brynhildur Jensdóttir, forstöðukona Konukots, og Marín Þórsdóttir, forstöðumaður, tóku á móti hópnum. Þær kynntu starfsemi Konukots og svöruðu mörgum spurningum. Konukot er rekið af Rauða krossi Íslands en Reykjavíkurborg stendur straum af kostnaði við rekstur þess. Að starfseminni koma hvort tveggja launaðir starfsmenn og sjálfboðaliðar.

Í Konukoti er rými fyrir tólf konur og jafnvel fleiri ef í nauðir rekur. Konukot er neyðarúrræði og þar dveljast þær konur sem glíma við fíknivanda og/eða geðræna kvilla. Konum er mætt þar á þeim stað þar sem þær eru „staddar“. Meðalaldur þeirra er 25 til 45 ár. Þær geta komið í hús kl. 17.00 og fara út kl. 10.00 að morgni. Fá kvöldmat og morgunmat. Engin kona á fast „rúm“ þar sem um neyðarúrræði er að ræða og þær taka ekki þátt í matseld. Setja aðeins lín á rúm og taka það af. Þær geta farið í sturtu á staðnum.

Þegar þær fara úr Konukoti að morgni dags tekur fátt eitt við. Ekkert dagsetur er rekið og var rætt um að úr því þyrfti að bæta.

Biskup hefur einmitt viljað beina sjónum að dagþjónustu við fólk sem er „á götunni“ og með hvað hætti kirkjan gæti komið að þeirri þjónustu. Rætt var almennt um hugsanlegt fyrirkomulag slíkrar þjónustu, kynjaskiptingu, virkni einstaklinga sem sæktu dagvist af þessu tagi, þjónustu sem þeim yrði veitt og möguleika til að vekja með þeim sjálfum sjálfstæði og frumkvæði eins og til að mynda með því að þvo af sér fötin.

Starfshópurinn vonast til að ljúka störfum sínum innan tíðar.

Talið er að um eitt hundrað konur séu heimilislausar í Reykjavík.

Konukot rekur markað sem opinn er á laugardögum frá kl. 12.00-16.00. Þar er hægt að kaupa fatnað, skart, lampa og bækur, bolla og alls konar skemmtilegt glingur. Allur ágóði rennur af honum til Konukots.

Dagstofan í Konukoti

Konurnar búa sjálfar um rúmin og taka línið af um morguninn

Á markaði Konukots er hægt að gera góð kaup og styrkja starfsemina

 

 

 

  • Biskup

  • Forvarnir

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Trúin

  • Biskup

  • Menning

Lilja Dögg og forsetahjónin

„Sögustaðir efla samkennd okkar“

22. júl. 2024
...segir menningarráðherra á Skálholtshátíð
Forseti Íslands kom á málstofuna

"Húmorinn var aldrei langt undan"

20. júl. 2024
...málstofa til minningar um sr. Karl Sigurbjörnsson
Málþingið var fjölsótt

"Stríðið gæti þróast yfir á Vesturbakkann"

20. júl. 2024
...áhrifamikið málþing á Skálholtshátíð