Digranesprestakall - auglýst eftir presti

23. september 2019

Digranesprestakall - auglýst eftir presti

Biskup Íslands auglýsir laust til umsóknar embætti prests í Digranesprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Skipað er í embættið frá 1. janúar 2020 til fimm ára.

Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um val og veitingu prestsembætta nr. 144/2016 og um presta nr. 1011/2011, svo og leiðbeinandi reglna biskups Íslands frá 2017 fyrir umsækjendur um laus prestsembætti. Tengla á þessar heimildir er að finna ofar á síðu þessari. Með því að sækja um embættið staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.

Í Digranesprestakalli er ein sókn, Digranessókn, með rúmlega 9.700 íbúa og eina kirkju, Digraneskirkju. Digranessókn er á samstarfssvæði með Hjallasókn.

Vísað er til þarfagreiningar sókna prestakallsins varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið. Þarfagreiningin er birt hér að neðan í framhaldi af auglýsingunni. Þá er bent á vef Digranesprestakalls: www.digraneskirkja.is

Allar gildar umsóknir fara til þriggja manna matsnefndar sem metur hæfni umsækjenda, sbr. 5. og 6. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Matsnefnd velur að jafnaði fjóra hæfustu umsækjendurna en þó aldrei fleiri en fimm og skilar skýrslu þar að lútandi til biskups.
Kjörnefnd Digranesprestakalls kýs prest úr hópi framangreindra umsækjenda, að loknu valferli kjörnefndar, sbr. fyrrgreindar starfsreglur um val og veitingu prestsembætta.

Umsækjendur geri skriflega grein fyrir starfsferli, samskiptahæfileikum og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram. Umsókn skal fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunnum svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á. Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun eftir atvikum.

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn og væntingar er varða embættið.

Umsækjendum ber að fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 3. gr. starfsreglnanna. Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni. Tengil á eyðublaðið er að finna ofar á síðu þessari.

Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 15. gr. framangreindra starfsreglna um val og veitingu prestsembætta. Skrifleg ósk um kosningu skal hafa borist biskupi eigi síðar en hálfum mánuði eftir að prestakallið var auglýst laust til umsóknar.
Um embættið gilda lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar. Er einkum vísað til starfsreglna um presta.
Um laun og önnur kjör fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs.

Nánari upplýsingar um embættið, starfskjör og helstu lög og reglur sem um starfið gilda eru veittar hjá sr. Gunnari Sigurjónssyni, sóknarpresti Digranesprestakalls, s. 554 1620, Margréti Loftsdóttur, formanni sóknarnefndar Digranessóknar, s. 554 2564, sr. Gísla Jónassyni, prófasti Reykjavíkurprófastsdæmis eystra, s. 587 1500 og á biskupsstofu, s. 528 4000.

Umsóknarfrestur um embættið er til miðnættis fimmtudaginn 24. október 2019.
Sækja ber um embættið rafrænt á vef kirkjunnar og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.
Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.
Vakin er athygli á því að nöfn umsækjenda um embættið verða birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti

Þarfagreining
Digranessóknar í september 2019
Digranessókn er eina sóknin í Digranesprestakalli í Kópavogi og tilheyrir hún Reykjavíkurprófastdæmi eystra. Í Digraneskirkju eru 3 leikskólar, 2 grunnskólar, menntaskóli og þjónusta við 3 dvalarheimili fyrir aldraða. Digranessókn er á samstarfssvæði Kópavogs ásamt Linda-, Hjalla- og Kársnessókn. Samstarf er milli sókna með vaktsíma presta og helgihald á elli- og hjúkrunarheimilum bæjarins sem eru: Sunnuhlíð, Roðasalir og Boðaþing. Einnig er um að ræða margvíslegt annað samstarf milli safnaðanna í Kópavogi og þá sérstaklega milli Digranes- og Hjallasókna. Undanfarið hafa þjónað níu prestar í Kópavogi, fimm karlar og fjórar konur.

Íbúar í Digranessókn voru 9.788 1. des. 2018, þjóðkirkjuaðild er tæplega 64,2% Sóknarbörn eru 6.280 og skiptast þannig eftir aldri:
• 274 undir skólaaldri.
• 635 á grunnskólaaldri.
• 486 á framhaldsskólaaldri.
• 1019 á aldrinum 20-34 ára.
• 2306 á aldrinum 35-64.
• 1560 á eftirlaunaaldri.
Í Digranessókn starfa árið um kring:
• Sóknarprestur í 100% starfi.
• Prestur í 100% starfi.
• Organisti í 100% starfi.
• Tveir kirkjuverðir í 50% starfi.
• Sem stendur safnaðarráðinn æskulýðsprestur í 60% starfi á móti 40% starfi í Hjallasókn.
• Húsmóðir í 100% starfi
Auk fjölda annarra starfsmanna og sjálfboðaliða.
Sóknarnefnd fundar að jafnaði einu sinni í mánuði yfir vetrartímann. Starfsáætlun er gerð fyrir eitt ár í einu og fjárhagsáætlun unnin samkvæmt henni. Vel hefur gengið að fara eftir fjárhagsáætlun hverju sinni.

Vetrardagskráin í Digraneskirkju 2019-20 er eftirfarandi
• Messur eða guðsþjónustur alla sunnudaga kl. 11:00
• Unglinga- og fjölskyldumessur mánaðarlega
• Reglulegar temamessur
• Sunnudagaskóli alla sunnudaga kl. 11:00
• Fermingarfræðsla einn sunnudag í mánuði kl 12:30 auk haustnámskeiðs í ágúst sem er endurtekið eftir áramót.
• TTT starf 10-12 ára barna á mánudögum kl 17:15
• Barnastarf 6-9 ára barna á mánudögum kl 16:00
• Krílasálmar á þriðjudögum kl 10:30
• Leikfimi aldraðra þriðjudaga og fimmtudaga kl 11:00
• Kirkjustarf aldraðra á þriðjudögum kl 12:00
• Kammerkór Digraneskirkju æfir á þriðjudögum kl 16:00
• Heilabrot á miðvikudögum kl 13:00
• Prjónakaffi á miðvikudagskvöldum kl 19:30
• Fyrirbænastund á fimmtudögum kl 11:40
• Æskulýðsfélag á fimmtudögum kl 20:00
Auk þess hafa verið haldin ýmis námskeið og viðburðir.

Digraneskirkja er eina starfsstöð sóknarinnar. Aðstaða í kirkju og safnaðarheimili er mjög góð, þar með talin skrifstofa væntanlegs prests. Skírnir hjá prestum Digraneskirkju voru samtals um 43 á árinu 2018. Vorið 2018 fermdust 49 fermingarbörn í Digraneskirkju í 3 athöfnum.
Kammerkór Digraneskirkju kemur að helgihaldi og ýmsu öðru tónlistarstarfi kirkjunnar, ásamt tveim öðrum kórum og hljómsveitum.

Gildi Digraneskirkju
Digraneskirkja vill vera lifandi kirkja sem er til staðar á gleði- og sorgarstundum. Hér lofum við Guð, tilbiðjum hann, uppfræðumst og eigum heilagt samfélag í trú við hann. Sem lærisveinar Krists er hlutverk okkar fyrst og fremst að boða kærleika hans í orði og verkum.
Áherslur og framtíðaráform í starfi safnaðarins
Frá því að Digranessókn varð að prestakalli árið 1971 hefur verið lögð mikil áhersla á barna- og æskulýðsstarf. Söfnuðurinn vill halda því áfram og leggja áherslu á þróun og uppbyggingu starfs fyrir sóknarbörn undir 20 ára aldri, en þau eru 1.395 talsins. Unnið er að því að efla starf fyrir börn og unglinga í kirkjunni og innan sóknar og mun sú efling einkum vera í höndum þess prests sem verður kosinn til þjónustu samkvæmt þessari auglýsingu.
• Yfirumsjón starfs fyrir 6-9 ára, 10-12 ára börn ásamt æskulýðsstarfi.
• Yfirumsjón krílasálmanámskeiðs.
• Yfirumsjón með fjölskyldu- og unglingamessum mánaðarlega.
• Umsjón með eflingu æskulýðsstarfs í kirkjunni og innan sóknar.
• Umsjón með því að efla tengsl við skóla og félagsþjónustu í sókninni.
• Umsjón með því að efla sálgæslu við börn, unglinga og fjölskyldur þeirra í sókninni og vinna að efni sem snýr að áföllum barna og unglinga.
• Umsjón með fermingarfræðslu og fermingar að vori.
• Umsjón með skóla- og leikskólaheimsóknum.
• Auk þessa umsjón með vikulegu prjónakaffi, aðkoma að eldriborgarastarfi og öðru því starfi sem fram fer í söfnuðinum.

Væntingar safnaðarins til nýs prests
Við leitum að einstaklingi sem er fullur af eldmóði, hefur ástríðu fyrir öllu starfi innan kirkjunnar og þá sérstaklega starfi með börnum og unglingum. Á gott með að eiga samstarf við ólíka aðila, og hefur frumkvæði af því að hrinda í gang nýjum verkefnum og hugmyndum í starfi. Er fær um að nýta sér samskiptamiðla í markaðsetningu og miðlun starfsins og hefur reynslu og menntun til að veita faglega ráðgjöf til barna og unglinga og fjölskyldna þeirra.




Umsóknarfrestur til og með 24. október 2019
  • Auglýsing

  • Starfsumsókn

  • Umsókn

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut