Tjaldkirkjan og Tómas

26. september 2019

Tjaldkirkjan og Tómas

Tjaldkirkjan - Breiðholtskirkja

Nokkrar kirkjur hafa boðið upp á Tómasarmessur undanfarin ár – en sú fyrsta var haldin árið 1997. Upphaf þessa messuforms er hjá lúthersku kirkjunni í Finnlandi.

Rannsóknir hafa sýnt að þetta form höfðar mjög svo til fólks allt frá þrítugsaldri og upp til sextugs.

Messuheitið er kennt við hinn fræga Tómas, lærisveininn, sem efaðist. Hann er á vissan hátt táknmynd nútímamannsins sem er fullur efa um eitt og annað í heiminum og ekki síst það er lýtur að trú og æðri mætti. Hann vill þreifa á og finna, upplifa. Eins og Tómas sem fékk að þreifa á síðusári Jesú Krists og mælti þá samstundis af munni fram stutta og laggóða trúarjátningu: „Drottinn minn og Guð minn.“ (Sjá nánar hér.)

Form Tómasarmessunnar er blanda af hefðbundnu formi og nýju – frjálslegt yfirbragð einkennir það. Allir hefðbundnir messuliðir halda sér. Þung áhersla er á bænina hvort heldur hún er almenn eða fyrirbæn. Þátttaka leikmanna er oftast mikil í Tómasarmessum og markmiðið er að gefa þátttakendum tækifæri til trúarlegrar upplifunar. Söngur er snar þáttur í Tómasarmessum eins og í öðrum messum en gjarnan eru taizé-söngvar sungnir, almennir sálmar og lofgjörðarsálmar.

Tjaldkirkjan í Breiðholti, oft kölluð svo, eða Breiðholtskirkja, hefur fóstrað Tómasarmessuna frá upphafi.

Nú verður fyrsta Tómasarmessan n.k. sunnudag, 29. september kl. 20.00 Breiðholtskirkju. Meginstefið í messunni verður: „Þreytumst ekki á bæninni.“

Sr. Sveinn Alfreðsson prédikar og Matthías V. Baldursson stýrir tónlistarflutningi ásamt Páli Magnússyni. Nokkrir prestar og djáknar sjá um altarisþjónustuna.

Jafnan er það breiður hópur sem stendur á bak við Tómasarmessuhald og að þessu sinni er það sem fyrr Breiðholtskirkja, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, Kristilega skólahreyfingin, Samband íslenskra kristniboðsfélaga, Félag guðfræðinema og hópur presta og djákna.

Eins og áður er Tómasarmessa í Breiðholtskirkju síðasta sunnudag hvers mánaðar.

Sjá nánar um Tómasarmessuna í Bjarma, árg. 2002, bls. 16-19: hér.










  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Trúin

  • Menning

  • Samfélag

logo.png - mynd

Síðari umferð kosningar biskups Íslands

25. apr. 2024
...hefst 2. maí næstkomandi.
Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta