Stutta viðtalið: Kirkja og samfélag

5. október 2019

Stutta viðtalið: Kirkja og samfélag

Siglufjarðarkirkja - myndina tók sr. Sigurður ÆgissonFyrirtæki hafa iðulega stutt við bakið á kirkjum og kirkjulegu starfi. Skemmst er þess að minnast að mörg fyrirtæki - og einstaklingar -  styrktu með myndarlegum hætti viðgerð á steindum gluggum Skálholtsdómkirkju svo dæmi sé tekið. 

Það er hins vegar ekki á hverjum degi sem fyrirtæki í litlu bæjarfélagi taka sig saman og styrkja kirkjustarf með rausnarlegum hætti.

Sautján fyrirtæki á Siglufirði ákváðu að gefa fræðsluefni handa sunnudagaskólanum í bænum, bókina Kærleiksbókin mín. Það er bók sem Skálholtsútgáfan, útgáfufélag þjóðkirkjunnar, gaf út og í henni er að finna endursagnir á sögum um Jesú frá Nasaret. Sögurnar eru á léttu og fallegu máli, börnin fá svo límmiða til að fullgera sumar myndanna í bókinni.

Gjöf fyrirtækjanna sautján sýnir samhent bæjarfélag sem staðfestir að starf kirkjunnar í bænum er mikils metið. Það er svo sannarlega þakkarvert og ætti að vera öðrum til fyrirmyndar. Sérstaklega í ljósi þess að sóknargjöldin eru skert ár eftir ár sem veldur því að þrengra er um allt í starfi sóknanna.

Kirkjan.is sló á þráðinn til sr. Sigurðar Ægissonar, sóknarprests á Siglufirði. Sagði hann fyrirtækin gefa eitt hundrað eintök af Kærleiksbókinni og væri hann afar þakklátur fyrir það.

„Barnastarfið er með þeim hætti að við byrjum í kirkjunni kl. 11.15 með söng og fræðslu“, sagði sr. Sigurður, „síðan förum við upp á kirkjuloft og snæðum eitthvað hollt og gott. Þá tekur eitt og annað við. Sum barnanna mála, önnur föndra, púsla og leira. Hinir fullorðnu teyga kaffisopann og spjalla um landsins gagn og nauðsynjar. Stundinni lýkur svo kl. 12.45.“

Aldurshópurinn sem sækir barnastarfið er breiður, börn á fyrsta ári og upp í tólf ára. „Við leggjum mikið upp úr samverunni, fólk á öllum aldri kemur saman,“ sagði sr. Sigurður.

„Fermingarbörnin hafa hlutverk í starfinu og starfa með starfsfólkinu í barnastundinni,“ sagði sr. Sigurður. „Já, við erum með öflugt starfslið, í vetur verða þrjú eða fjögur fullorðin sem koma að barnastarfinu.“

„Þetta er fjölskyldustund sem öllum þykir mjög vænt um“, sagði sr. Sigurður að lokum.

Primex ehf., er eitt fyrirtækjanna sem lagði kirkjunni lið. Kirkjan.is ræddi við Sigríði Vigfúsdóttur, sem er í forsvari fyrir það fyrirtæki. Sagði hún barnastarfið vera einstaklega gott í kirkjunni og vel sótt. Sóknarpresturinn, sr. Sigurður Ægisson, ætti mikinn heiður skilið fyrir það. Mikil gleði svifi þar yfir vötnum. Foreldrar sæktu starfið jafn vel og börnin. Slíkt starf væri ómetanlegt fyrir lítið samfélag.

Fyrirtækin sautján eru: Aðalbakarinn ehf., Byggingafélagið Berg ehf., Efnalaugin Lind ehf., Hótel Siglunes ehf., L-7 ehf., Minný ehf., Premium ehf., Primex ehf., Raffó ehf., Rammi hf., Siglósport, Siglufjarðar Apótek ehf., SR-Byggingavörur ehf., TAG ehf., Tónaflóð heimasíðugerð slf., Veitingastaðurinn Torgið ehf. og Videoval ehf.

Listinn sýnir auk þess að mannlífið á Siglufirði er fjölskrúðugt. Lítið samfélag dafnar ekki nema þar sé öflugur atvinnurekstur svo að fólk hafi vinnu – og lifandi kirkju!

 • Barnastarf

 • Fræðsla

 • Frétt

 • Menning

 • Messa

 • Samfélag

 • Samstarf

 • Trúin

 • Fræðsla

 • Menning

 • Samfélag

Lilja Dögg og forsetahjónin

„Sögustaðir efla samkennd okkar“

22. júl. 2024
...segir menningarráðherra á Skálholtshátíð
Forseti Íslands kom á málstofuna

"Húmorinn var aldrei langt undan"

20. júl. 2024
...málstofa til minningar um sr. Karl Sigurbjörnsson
Málþingið var fjölsótt

"Stríðið gæti þróast yfir á Vesturbakkann"

20. júl. 2024
...áhrifamikið málþing á Skálholtshátíð