Áhrifamikil bók

7. október 2019

Áhrifamikil bók

Desmond Tutu - vitur og áhrifamikill leiðtogi

Það þarf mikið til að fanga auga heimsins sem svo margt kemur fyrir. 

Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar, hefur gefið út Bókina um fyrirgefninguna, eftir þau feðginin Desmond Tutu, friðarverðlaunahafa Nóbels og Mpho Tutu. Það er metsölubók í orðsins fyllstu merkingu og hefur verið þýdd á fjölda tungumála.

Sr. Karl Sigurbjörnsson hefur þýtt Bókina um fyrirgefninguna á íslensku og þýðing hans rennur vel og af henni er ekkert þýðingarbragð. Bókin er sem hún væri skrifuð á íslensku. Það er ekki öllum gefið að þýða texta svo vel fari en sr. Karl gerir þar með glæsibrag sem honum virðist vera í blóð runninn.

Bókin um fyrirgefninguna hefur beint sjónum heimsins að fyrirgefningunni og hlutverki hennar í lífi einstaklinga og þjóða.

Þær sögur sem sagðar eru hér af fyrirgefningunni eru hetjusögur hversdagslegs fólks. Þær sýna ótrúlegan þroska og hugrekki. Og trú. Fólks sem orðið hefur fyrir skelfilegu óréttlæti og verið beitt ofbeldi. Það fyrirgefur. Lesandi spyr sjálfan sig iðulega: Gæti ég gert þetta? Svarið er oft varla en þó. Jú. Tæpast. Eða þvert nei. Margt fer semsé um hugann. En bókin þylur ekki langar fræðilegar skýringar á fyrirgefningunni, þess gerist ekki þörf. Það eru hins vegar sögur úr lífinu sem fylla hana holdi og blóði, lífi hversdagsleg fólks, segja allt, enda er saga stysta leið milla manna, eins og oft er réttilega sagt. Sögur sem tala fyrir hönd fyrirgefningarinnar. 

Þessi bók rekur sögur sem gerast víða þegar öllu er á botninn hvolft enda þótt svið hennar sé Suður-Afríka. Sögur sem hafa gerst og sem eiga eftir að gerast. Hún getur verið stuðningsbók í viðbrögðum fólks sem horfist í augu við botnlaust óréttlæti og óbilgirni yfirvalda eða einstaklinga. Þar sem líf fólks er til fárra fiska metið og fótum troðið. Þar sem nánustu ættingjar verða fyrir barðinu á óbótamönnum og morðingjum. Eða þá að nánir ættingjar greiða fjölskyldum sínum þung högg.

En yfir sögusviðinu svífur kraftur fyrirgefningar, mannskilnings og mannvirðingar, trúar og kærleika:

„Við þörfnumst öll fyrirgefningar. Við höfum öll einhvern tíma verið hugsunarlaus, sjálfselsk eða eigingjörn. Eins og ég hef áður sagt þá er ekkert ófyrirgefanlegt, engin manneskja er utan hjálpræðisins. Samt er ekki auðvelt að viðurkenna eigin brot og mistök og biðjast fyrirgefningar.“ (Bls. 173).

Í lok hvers kafla eru íhuganir, verkefni og samantekt, sem gerir bókina mjög svo læsilega og uppbyggilega til persónulegs ávinnings.

Bókin um fyrirgefninguna væri kjörin fyrir söfnuði til að taka til umræðu í leshring. Kaflarnir eru tíu og tímarnir væru tíu. Tíu er svo út af fyrir merkileg tala í kristinni trú eins og menn vita.

Kirkjan.is skorar á söfnuði að íhuga þennan einfalda og áhugaverða kost, stofna leshring utan um bók þessa. Það væri góð viðbót í safnaðarstarfinu.


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Menning

  • Samfélag

Forsetahjónin og vígslubiskupshjónin við Hóladómkirkju

Afar vel sótt Hólahátíð

18. ágú. 2025
...forseti Íslands flutti Hólaræðuna
holarihjaltadal.jpg - mynd

Hólahátíð 2025: Forseti Íslands flytur Hólaræðu

12. ágú. 2025
Hólahátíð fer fram dagana 16. - 17. ágúst n.k. Halla Tómasdóttir forseti Íslands flytur Hólaræðuna að þessu sinni.
garpsdalskirkja2.jpg - mynd

Kirkjuklukkum á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hringt samtímis til stuðnings íbúum Gasa

05. ágú. 2025
Fimmtudaginn 7. ágúst kl. 13:00 verða kirkjuklukkum dómkirknanna þriggja á Íslandi hringt og hvetja biskupar Íslands til þess að öðrum kirkjuklukkum verði hringt samtímis. Systurkirkjur Þjóðkirkjunnar í Noregi, Svíþjóð...