Kirkjufólk til Skotlands

16. október 2019

Kirkjufólk til Skotlands

Skotlandsfarar á leið til Iona

Reykjavíkurprófastsdæmi vestra blés til Skotlandsferðar á dögunum. Skotlandsfarar komu heim í gær glaðir og endurnærðir eftir einstaklega vel heppnaða kirkju- og námsferð.

Það var prófasturinn sr. Helga Soffía Konráðsdóttir, sem átti hugmyndina að ferðinni. Fékk hún sr. Bjarna Þór Bjarnason til liðs við sig og skipulagði hann ferðina. Bændaferðir fengu svo það hluterk að sjá um framkvæmdahliðina á málinu. Allt small saman og hvergi urðu hnökrar á.

Höfuðstöðvar skosku kirkjunnar voru heimsóttar í Edinborg og voru þátttakendur fræddir um kirkjuna og hina merku sögu hennar. Það er ekki einföld saga, heldur flókin og dramatísk á köflum.

Með í ferðinni voru listamennirnir, þau hjónin Leifur Breiðfjörð, glerlistamaður og Sigríður G. Jóhannsdóttir, vefnaðarlistakona. Farið var í St Giles-dómkirkjuna í Edinborg og hélt Leifur erindi um steindan glugga sem hann gerði fyrir kirkjuna. Það er stór minningargluggi um Robert Burns, þjóðarskáld þeirra Skota. Leifur á einnig listaverk sem er í forkirkjunni og er nánast eins og og fordyri kirkjunnar.

Leifur er einn fremsti kirkjulistamaður Íslendinga og á mikinn fjölda listaverka í íslenskum kirkjum og einnig í útlöndum. Hið sama er að segja um konu hans. Það var því mikill fengur fyrir þátttakendur að vera í för með þeim hjónum og kynnast þeim persónulega.

Hápunktur ferðarinnar var heimsókn til hinnar merku eyjar, Iona. Þar var gist í tvær nætur. Ferðalangarnir tóku þátt í helgihaldinu í hinni frægu Klausturkirkju á eyjunni.

Eyjan Iona er tengd nafni heilags Kólumkilla eða Kólumba (521-597) en hann kom fyrstur manna til eyjarinnar ásamt tólf lærisveinum sínum. Hann er reyndar írskur og er einn af postulum Írlands en hann og menn hans stunduðu víða öflugt trúboð í keltneskum anda. Á Iona reistu þeir kirkju og klaustur og dafnaði þar öflugt kirkjulíf um aldir. En sagan geymir líka niðurlægingu eyjarinnar og uppbyggingarstarf seinni alda. Síðustu áratugi hefur verið stundað þar kröftugt samkirkjuleg starfsemi.

Kólumkilli tengist íslenskri sögu með sérstökum hætti eins og til dæmis þessum: Sagnir herma að kirkja hafi staðið á Esjubergi á Kjalarnesi fyrir kristnitöku, um árið 900. Í Landnámu (Sturlubók) segir að Örlygur Hrappson hafi fengið frá Patreki Suðureyjarbiskupi „kirkjuvið ok járnklukku ok plenárium ok mold vígða“ til að nota í kirkju sem reisa skyldi þar hann næmi land og eigna hinum helga Kólumba. Örlygur reisti kirkju á Esjubergi á Kjalarnesi. Þar reisa nú Kjalnesingar útialtari til minningar um þessa fyrstu kirkju á Íslandi – mun rísa hár keltneskur kross upp úr altarinu.

Þá gafst þátttakendum kostur á að fara í gönguferð að strönd Kolumbaflóans sem svo heitir en sagan segir að þar hafi hann og menn hans komið fyrst að landi.

Þátttakendur fengu allir hlutverk í ferðinni og sagði hver og einn ýmist frá borg, kirkju- sem og veraldlegum menningarstraumum.

Ferðir af þessu tagi eru mjög gagnlegar fyrir þátttakendur og gera góðan kirkjuhóp enn betri. Fólk kynnist og sér nýjar hliðar á hverju öðru og byggir hvert annað upp.

Slíkar ferðir eru í raun og veru ómetanlegar fyrir kirkjuna og eiga skipuleggjendur ferðarinnar þökk og heiður skilið fyrir framtakið.

Heilagur Kólumkilli - steindur gluggi í Klausturkirkjunni á Iona
  • Frétt

  • Guðfræði

  • Heimsókn

  • Menning

  • Námskeið

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

  • Námskeið

Frá biskupsvígslu sr. Munks í Hans Egede-kirkju í Nuuk 10. október s.l.

Nýr Grænlandsbiskup vígður

15. okt. 2021
...vígsla tafðist um eitt ár
Björn Steinar Sólbergsson, organisti Hallgrímskirkju - mynd: Hrefna Harðardóttir

Hausttónar í Hallgrímskirkju

14. okt. 2021
...kirkjan er flaggskip tónlistar
Fallegar og stöðugar kertahlífar til að setja útikerti í - mynd: hsh

Góð markmið

13. okt. 2021
...handlagið fólk