Kvöldkirkjan fer af stað

23. október 2019

Kvöldkirkjan fer af stað

Kvöldkirkjan í Hallgrímskirkju á morgun

Nokkrar kirkjur hafa reynt fyrir sér með því sem kallast kvöldkirkja. Sennilega var fyrst gerð tilraun hér á landi með kvöldkirkjuna í Dómkirkjunni í Reykjavík í tíð sr. Hjálmars Jónssonar fyrir rúmum áratug. Í sumar var farið af stað með kvöldkirkju í Akureyrarkirkju sem líka var kölluð sumarkirkja.

Kvöldkirkjufyrirkomulagið er með ýmsu móti. Fólki er gefinn kostur að koma í kirkjuna á öðrum tíma en venjulega og gengur þar frjálslega um. Leyfilegt er að leggjast á kirkjubekkinn ef hugur býður svo. Fólk getur skrifað bænarefni á miða og lagt á ákveðinn stað í kirkjunni. Einnig er hægt að ræða í trúnaði við presta og starfsfólk kirkjunnar. Stundum er leikið á hljóðfæri eða sungið. Og fólk getur setið í þögn á kirkjubekknum eða gengið um rökkvaða kirkju og íhugað.

Andrúmsloftið í kvöldkirkjunni er mótað af kyrrð og íhugun, slökun og hvíld. Þar gefst fólki kostur á að iðka trú sína eitt og sér eða í samfélagi. Kvöldkirkjan getur verið góð leið fyrir þau sem finna sig ekki í hinu hefðbundna guðsþjónustuhaldi kirknanna. Segja má að fólk kjósi sér það form helgihalds sem það telur sér henta í þessum kringumstæðum.

Á morgun, 24. október, fara tveir söfnuðir af stað með kvöldkirkju í samvinnu. Það er Hallgrímssókn og Dómkirkjusókn sem bjóða fólki til kvöldkirkjunnar. Fyrir áramót er kvöldkirkjan opin í Hallgrímskirkju og eftir áramót í Dómkirkjunni. Kvöldkirkjan stendur yfir frá kl. 17.00 til 21.30 einu sinni í mánuði. Hvenær sem er innan þessa tíma er fólk velkomið til kvöldkirkjunnar.

Kvöldkirkjan er ein leið af mörgum til að næra trúna og koma til móts við mismundandi aðstæður fólks.

Kvöldkirkjan verður í þrjú skipti í Hallgrímskirkju, fimmtudagana 24. október, 21. nóvember og 12. desember.

Þau sr. Elínborg Sturludóttir, sr. Sveinn Valgeirsson, sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir og dr. Sigurður Árni Þórðarson hafa umsjón með kvöldkirkjunni ásamt kirkjuvörðunum Boga Benediktssyni, Grétari Einarssyni, Kristni Gissurarsyni og Sveinbjörgu Rósu Sumarliðadóttur.

Kvöldkirkjan verður eftir áramót í Dómkirkjunni í Reykjavík
  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Samfélag

Forseti Íslands flytur hugvekju

Forseti fjallaði um áskoranir í lífi ungs fólks

14. okt. 2024
...á kirkjudegi í Bessastaðasókn
Hofskirkja í Vopnafirði

Laust starf sóknarprests við Hofsprestakall

14. okt. 2024
...auk þess tímabundin afleysing á Þórshöfn
Guðrún biskup í ræðustól

Biskup Íslands í Prag

11. okt. 2024
...á Evrópufundi Lútherska heimssambandsins