Prestur skrifar um guðsmann

11. nóvember 2019

Prestur skrifar um guðsmann

Saga Gústa guðsmanns

Í öllum bæjarfélögum er að finna kynlega kvisti. Á sumum ber meira en öðrum. Menn sem binda ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamennirnir. Stundum hafa þeir verið óþolandi í samfélaginu og það komið illa fram við þá. Stundum hefur samfélagið ekki séð þá – leitt þá hjá sér. Eða aðeins vitað af þeim þarna einhvers staðar í samfélaginu úti á jaðrinum og reynt að láta þá ekki trufla sitt daglega líf. Umborið þá með vissum hætti. Litið jafnvel á þá sem undirmálsmenn, samfélagsbyrði eða furðufugla, skrítlinga. Líka kennt í brjósti um þá. En sumir voru líka svo sjálfstæðir í hugsun og framgöngu að ekkert fékk þeim hnikað. Þegar þeir hafa kvatt jarðlífið komast menn stundum að því að þeir hafa skilið eftir sig skarð – og í sumum tilvikum stærra skarð en samfélagið óraði fyrir að þeir mundu skilja eftir. Þeir sjálfir kannski – mjög líklega – aldrei leitt hugann að því sjálfir. Og ekki hvarflað að þeim að einn góðan veðurdag yrði stytta úr eir afhjúpuð af þeim. Í heiðursskyni eða af samviskubiti samfélagsins – hver veit?

Einn slíkur setti svip sinn á Siglufjörð í mörg ár. Varð samgróinn bæjarmyndinni. Sá hét Ágúst Gíslason. Kallaður Gústi guðsmaður.

Og hver var hann?

Þeirri spurningu svarar sr. Sigurður Ægisson, sóknarprestur, í bók sem hann hefur ritað um Gústa guðsmann og er nýkomin út. Mikið verk, á fimmta hundrað blaðsíður, hefur verið átján ár í vinnslu og heitir: Gústi, alþýðuhetjan, fiskimaðurinn og kristniboðinn. Stórfróðleg bók og ríkulega myndskreytt. Skemmtileg til aflestrar.

Hún er vel skrifuð og frásagnirnar vekja strax áhuga og halda lesanda við efnið.

Þetta er sjöunda bók höfundar.

Gústi guðsmaður hét fullu nafni Guðmundur Ágúst Gíslason, fæddur 1897 í Hvammi í Dýrafirði og lést 1985 á Siglufirði.

Í mörgum borgum er að finna götuprédikara sem prédika margir hverjir af miklum trúarhita. Og sumir jafnvel af ofsa. Gústi guðsmaður hafði að sönnu sína heitu trú sem hann gekkst undanbragðalaust við og boðaði hana af miklum krafti og kærleika – enda þótt hvöss orð fykju annað veifið – og bölv og ragn!

Gústi varð fyrir trúarlegri upplifun í kjölfar veikinda – þakkaði skaparanum fyrir endurheimt heilsu sinnar. Hann skrifar í dagbók sína 1924:

„Trúaður maður er sterkur meiður, treystir Guði án takmarka og lætur það góða vinna í gegnum sig ... Skilyrðið að vera góður maður, með skoðun á lífinu, er að trúa af alhug Guðs orði, láta það verða vort hold og blóð, líf og sál, og þá þroskumst við á Guðsríkis vegum, og þá er sælasti lífsferillinn hjer á jörðinni.“  (Bls. 59).

Saga Gústa áður en hann kom til Siglufjarðar árið 1929 var meiri en menn vissu almennt. Þessi sérkennilegi Dýrfirðingur hafði siglt um öll heimsins höf og gengið á stýrimannaskóla og Biblíuskóla í Noregi. Trúarlegt starf hans var í fyrstu unnið í Barnaskólahúsinu og einnig í Hjálpræðishershúsinu á Siglufirði (sjá bls. 79). Hann stundar sjóinn og fer víða um, t.d. til Vestmannaeyja. Trúin er samofin sjómennsku hans og samkvæmt bókinni fer ekki mikið fyrir honum í fyrstu. Það er ekki fyrr en fjórða áratug síðustu aldar sem hann prédikar fyrst á Ráðhústorginu á Siglufirði en lætur af því fyrir orðastað föður síns. Síðan eru sagnir um hann á fimmta áratugnum á torginu. En 1967 er skrifað svo í dagbók lögreglunnar:

„... hóf Ágúst Gíslason sjómaður Snorragötu sunnudagspredikun sína á Ráðhústorgi. Hann hefur um alllangt skeið lesið úr Guðsorðabókum á sunnudögum á og við Ráðhústorg og virðist kæra sig kollóttan um hvort nokkur hlustar á hann eða ekki.“  (Bls. 197).

Siglfirska samfélagið virðist hafa haft mikið umburðarlyndi gagnvart honum - og verið sátt við hann. Gústi guðsmaður var þarna á torginu og las úr Biblíunni, prédikaði, las prédikanir annarra og margvíslegt kristilegt efni. Áheyrendur hans voru ekki margir, oftast fáir eða engir. Stundum nokkrir strákar sem drógust að honum fyrir forvitnissakir. En í bókinni segir að sterk rödd hans hafi engu að síður ómað um bæinn og segir kona ein að ekki hafi þurft annað en að opna glugga til að heyra hljómmikla rödd guðsmannsins berast með andvaranum. Henni fannst það notalegt. Honum var ekki strítt enda þótt einstaka maður hafi kannski hrist höfuðið yfir þessu tiltæki mannsins eða brosað í kampinn og kannski brá fyrir vorkunnarglampa – eða dáðst innst inni að hugrekki hans, einbeitni og sjálfstæði.

Gústi guðsmaður fór sínar eigin leiðir á Siglufirði. Hélt að morgni dags út, lammaði út fjörðinn, kom í land, fór heim. Á sunnudögum út á torg á hverjum sunnudegi nema ef veður hamlaði. Hann var einfari, fór sjaldan í heimsókn til fólks. En þekkti alla. Og gaf sér tíma upp úr Biblíulestrinum á torginu til að ávarpa fólk og inna það eftir persónulegum högum þess.

Hann var hluti af hversdagslegum takti í þessu litla samfélagi. Báturinn hans hét Sigurvin og var oft í afar misjöfnu standi – og vélin ekki alltaf í lagi! Margir bæjarbúar létu sér annt um hann og fylgdust með honum; voru áhyggjufullir ef hann skilaði sér ekki í land á venjulegum tíma.

Hann bjó við þröngan kost og sérkennilegan sem hann hafði vitaskuld kjörið sér sjálfur. En af litlum efnum lagði hann fram drjúgan skerf til menntunar barna víðsvegar út um heim og til trúboðs, og kristniboðsstarfs og Biblíufélagsins (bls. 257). Það fór ekki hátt. Hann var góður gjafari og hógvær.

Segja má að Gústi guðsmaður hafi lifað á vissan hátt sjálfbæru lífi eins og það heitir nú. Snæddi fiskinn sem hann veiddi og skaut sér fugla til matar. Í bókinni er að finna magnaðar lýsingar samferðamanna á matreiðslu guðsmannsins eins og þegar hann sauð múkkann í fiðrinu og öllu saman (bls. 141). Helst vildi hann grámáf eða svartfugl. Og lýsið var hans drykkur.

Húsnæðið sem hann bjó í um tíma var hörmulegt, eins og lýsingar á Antonsbrakka gefa til kynna (bls. 128-129). Enda kvörtuðu margir undan all svakalegri lykt af karli.

Og svo bölvaði hann allhressilega. Mörgum fannst það á skjön við guðsmanninn en hann sagði þetta vera holdið – og syndina.

Gústi guðsmaður sem var hluti af þessu samfélagi er kominn þangað aftur eftir að eirstytta af honum var reist á torginu. Og segja má með vissum hætti að styttan sjálf prédiki út af fyrir sig ... þegar gestir og gangandi spyrja um hver hann sé þessi þá verður að segja frá því ...

Þess má geta í framhjáhlaupi að listakonan Aðalheiður S. Eysteinsdóttir reyndi að fanga guðsmanninn í tré árið 2004. Listaverk hennar má sjá í Síldarminjasafninu sem og bát hans, Sigurvin.

Í lokin þetta: Einn hængur er þó á þessu ágæta verki. Það hefði mátt vera styttra að ósekju. Með því að vinna betur úr heimildum, draga saman, endursegja í knöppu formi, varpa upp leiftri, hefði textinn runnið enn betur. Bókartexti sem inn í eru felldar langar orðréttar heimildir með smáu letri kalla á hornalestur – sem er kannski í lagi fyrir þau sem slíku eru vön.

En hvað sem því líður þá færir kirkjan. is höfundi einlægar þakkir fyrir að bregða sterku ljósi á þennan alþýðumann, hann Gústa guðsmann, sjómann og kristniboða.

Sjá youtube-kynningarmyndband hér.

Gylfi Ægisson, gerði lag um Gústa guðsmann, sem náði töluverðum vinsældum, sjá og hlusta hér.

Gústi, alþýðuhetjan, fiskimaðurinn og kristniboðinn, útgefandi er Bókaútgáfan Hólar 2019, og bókin er 464 bls.


  • Frétt

  • Guðfræði

  • Menning

  • Samfélag

  • Útgáfa

  • Menning

  • Samfélag

Ólafsfjarðarkirkja - mynd: Sigurður Herlufsen
08
júl.

Tvær sóttu um Ólafsfjörð

Umsóknarfrestur rann út 7. júlí
Margt fólk gengur í hjónaband þegar blómin anga og sumarsólin skín
08
júl.

Skilyrði rýmkuð

Drengskaparvottorð í stað fæðingarvottorðs
Húsavíkurkirkja - mynd: Sigurður Herlufsen
07
júl.

Þrjár sóttu um Húsavík

Umsóknarfrestur rann út 6. júlí