Merkilegt félag áttatíu ára

16. nóvember 2019

Merkilegt félag áttatíu ára

Sr. Lára G. Oddsdóttir, í ræðustól

Félag fyrrum þjónandi presta og maka fagnaði áttatíu ára afmæli nú í vikunni. Boðað var til afmælisfundar í Háteigskirkju og í safnaðarheimili kirkjunnar af því tilefni þann 11. nóvember.

Það var ótrúleg framsýni sem réði för þegar hópur presta kom saman í Oddfellow-húsinu við Vonarstræti í Reykjavík fyrir áttatíu árum í því skyni að stofna með sér félag. Þrír gamlir prófastar voru þar í forsvari og rúmur tugur manna með þeim. Félagið átti að beina sjónum sínum að þeim gömlu prestum sem höfðu látið af störfum og flust utan af landi á mölina í Reykjavík. Þegar í bæinn var komið söknuðu þeir tengsla við kirkjuna og gamla samstarfélaga. Sumir voru nágrannaprestar og aðrir skólafélagar. Félagið skyldi bæta úr þessari félagsþörf. Og svo sannarlega hefur það sýnt fram á gagnsemi sína!

Tilgangur félagsins lá fyrir í lögum sem prestafundurinn samþykkti. Hann var sá meðal annars að endurnýja gamla viðkynningu og ræða sameiginleg áhugamál, einkum þau er kirkjuna vörðuðu á hverjum tíma. Félagið fékk nafnið: Félag fyrrverandi presta og prófasta.

Nú heitir þessi ágæti félagsskapur Félag fyrrum þjónandi presta og maka. Sumir félagsmanna hafa gantast með nafnið. Einn kallaði það ætíð Pokafélagið. Annar Gamlingjafélagið og þannig mætti lengi telja. En öllum þykir þeim vænt um félagið og njóta þess að sækja fundi hjá því.

Sennilega er þetta eitt fyrsta félag fyrrverandi starfsmanna, embættismanna, sem stofnað hefur verið hér á landi. Nú eru til margvísleg félög af sama toga en bara mun yngri. Kirkjan.is hvetur lesendur sína til að láta vita ef þeim er kunnugt um eldra félag sem starfar á svipuðum grunni og umrætt félag.

Félagið hefur ætíð verið tengt hjúkrunar- og dvalarheimilinu Grund. Sérstakur velgjörðarmaður þess var sr. Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason í Ási, heimilisprestur Grundar og forystumaður í málefnum aldraðra á sinni tíð. Síðar tók sonur hans við merkinu, Gísli Sigurbjörnsson, og reyndist félaginu haukur í horni. Þeir feðgar styrktu félagið með ýmsu móti og sennilega hefði það ekki lifað nema vegna atbeina þeirra. Þessi stuðningur hefur haldið áfram í gegnum dóttur Gísla, Guðrúnu Birnu Gísladóttur, og síðar son hennar og sr. Páls Þórðarsonar, Gísla Pál.

Félagsmenn önnuðust guðsþjónustuhald á Grund frá árinu 1955 einu sinni í mánuði og í lokin var boðið til hefðbundins kirkjukaffis.

Síðan með tilkomu Áss í Hveragerði færðist þangað sumarmessa félagsmanna í samvinnu við Hveragerðiskirkju og nú hin síðari ár hefur félagið annast guðsþjónustu í Mörkinni í samvinnu við djákna heimilisins.

Félagsmenn eru 82. Elstur presta á Íslandi nú er sr. Fjalar Sigurjónsson, fæddur 1923. Tuttugu og sex félagsmenn eru fæddir fyrir 1940.

Um leið og prestur lætur af störfum er hann sjálfkrafa skráður í félagið og eru makar fullgildir félagar.

Formaður félagsins er sr. Lára G. Oddsdóttir, og flutti hún aðalræðu í afmælishófi félagins.

Sr. Lára fór yfir sögu félagsins í stuttu máli.

Hún gat meðal annars um það að á aðalfundi félagsins árið 2016 hafi verið samþykkt tillaga um að prestsmakar yrðu fullgildir félagar í félaginu. Jafnframt skyldi breyta nafni félagsins frá þeirri stundu og héti það: Félag fyrrum þjónandi presta og maka. Af þessu tilefni sagði hún:

„Þjóðkirkjan er í mikilli þakkarskuld við allar þessar konur sem stutt hafa heilshugar við störf manna sinna og tekið virkan þátt í störfum safnaðarins af dugnaði og fórnfýsi.“

Á langri ævi tengist fólk í sömu störfum með ýmsum hætti. Prestsþjónustan var dreifðari um landið hér fyrr á árum og prestar hittust ekki oft. Flest allir hittust þó einu sinni á ári á prestastefnu. En fjarlægðin var mikil milli starfsfélaga og skólavina. Það er breytt. Tölvubyltingin hefur komið til sögunnar og allar samskiptaleiðir opnar. En engu að síður er það svo enn að maður er manns gaman þá þeir hittast augliti til auglitis hvað sem allri tækni líður. Þess vegna mun Félag fyrrverandi presta og maka halda áfram að vera til.

Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, kynnti í afmælisfagnaðinum nýju sálmabókina sem kemur út á næsta ári. Þá söng hún nokkra sálma eftir íslenska presta við undirleik Björns Steinars Sólbergssonar.

Þá færði Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundar, félaginu veglega peningagjöf, kr. 80.000, sem ákveðið var að rynni óskert til Hjálparstarfs kirkjunnar. Formaður þakkaði heilshugar fyrir stuðninginn við félagið í fortíð og nútíð.

Í lok afmælishófsins flutti biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, stutt ávarp.

Kirkjan. is óskar Félagi fyrrverandi presta og maka, innilega til hamingju með árin áttatíu.Kirkjuritið, 1. desember 1939, bls. 411.

Sr Kristján Búason, setti afmælishátíðina með bæn