Kíktu í kirkjubrall í Háteigskirkju!

20. nóvember 2019

Kíktu í kirkjubrall í Háteigskirkju!

Háteigskirkja - skyldi einhver fara upp í turn í kirkjubrallinu?Sunnudaginn 24. nóvember kl. 11. 00 er boðið til helgihalds í Háteigskirkju sem er með öðru sniði en venjulega. Það er sr. Hildur Björk Hörpudóttir sem heldur utan um þetta helgihald ásamt þeim sr. Helgu Soffíu Konráðsdóttur, prófasti, og sr. Sigfúsi Kristjánssyni. Við orgelið er Guðný Einarsdóttir.

Margar kirkjur leitast við að bjóða upp á sem fjölbreytilegast helgihald. Þar með er ekki sagt að sígildri messu – sem svo er kölluð - sé úthýst heldur er hún líka á sínum stað enda kunna margir afar vel við það form.

Á sama hátt og göngugarpur eða göngugerpla þarf að eiga nokkur skópör þá þarf kirkjan á göngu sinni að eiga margs konar messuform – hún fer svo víða, um kletta og klungur, slétta vegi og hála, og það verða líka nefnilega svo margir á leið hennar um heiminn.

En guðsþjónustuhald er hægt að hafa með ýmsum hætti. Og það er nefnilega líka eitt af því marga sem er svo lærdómsríkt við kirkjuna – hún er fjölbreytilegt og veit af því að einstaklingar eru ekki allir steyptir í sama mótið enda þó allir séu þeir börn Guðs.

Eitt form hefur verið að ryðja sér nokkuð til rúms síðustu misseri. Það er svo kallað kirkjubrall (Messy church). Formið á rætur sínar í Bretlandi og hefur farið víða um heim.

Það sem einkennir þetta form er fyrst og fremst að þau sem sækja guðsþjónustuhaldið finni sig eiga heima á staðnum, í kirkjunni. Í henni er pláss fyrir alla og þar eiga kynslóðirnar að geta talað saman eins og á stóru heimili.

Kirkjurýmið verður frjáls vettvangur guðsþjónustunnar. Í stað þess að sitja á bekk, rísa á fætur og setjast eftir því sem formið segir til um, þá getur þú gengið um kirkjuna, farið að ákveðnum stöðvum sem svo eru kallaðar. Þar má vinna t.d. bænaefni, Biblíutexta, fróðleik um t.d. Hjálparstarf kirkjunnar o.s.frv. Blað og blýantur fyrir bænaefni sem þú gengur sjálfur/sjálf með upp að altari og leggur þar á. Þú ert staddur/stödd í húsi Guðs.

En þótt þú sért orðin/n kirkjubrallari þá ertu ekki laus við prestinn. Nei, aldeilis ekki. Hann eða hún er þarna og hefur tilsjón með öllu. Leiðir altarisgönguna að hætti kirkjubrallarans og prédikunina. Eins athafnir eins og skírn.

Messan sem tekur að þessu sinni sérstaklega til umfjöllunar skírnina, er byggð upp á verkefnum sem höfða til allra kynslóða, fögnuði og óhefðbundinni altarisgöngu.

Altarisgangan verður samfélag um hádegismatinn.

Allir eru boðnir velkomnir en sérstaklega er hvatt til þess að eldra fólk láti sjái sig, unglingar, trúaðir, trúlausir, börn og fullorðnir, fjölskyldur af öllum stærðum og gerðum, og hvern þann sem hefur löngun til að eiga góða stund og helga í Háteigskirkju – með öðrum hætti en venjulega. Og þú finnur að þú átt heima í kirkjunni. Um það snýst málið.

 • Frétt

 • Guðfræði

 • Kærleiksþjónusta

 • Menning

 • Messa

 • Samfélag

 • Tónlist

 • Trúin

 • Viðburður

 • Menning

 • Samfélag

Barnakór 2.png - mynd

Barnakór Fossvogs í Bústaðakirkju með nýju sniði

27. feb. 2024
.....í samstarfi við Tónlistarskóla Grafarvogs
Lágafellskirkja

Barnakór Lágafellskirkju tekur virkan þátt í samfélaginu

26. feb. 2024
....eldri- og yngri barnakór