Bókarfregn: Lesanda boðið til samtals

4. desember 2019

Bókarfregn: Lesanda boðið til samtals

Ljómandi góð bók og þýðing

Það er bráðsnjöll leið til að miðla boðskap ef hægt er að nota samtalið sem farveginn. Auðvitað er samtalið best þegar það fer fram augliti til auglitis. Allir þekkja uppistandara sem tala við hundruð áheyrenda, jafnvel þúsundir. Ná sambandi við þá. Tala við hópinn. Koma einhverju til skila sem vekur hlátur eða umhugsun. Allir skynja samtalið og taka þátt í því hið innra með sér.

Rob Bell er einn af þeim sem kann þessa aðferð þegar kemur að því að miðla kristnum boðskap og gildum. Einn af þeim bandarísku evangelísku kennimönnum sem náð hefur eyrum milljóna manna. Hann kom til Íslands fyrir fáeinum árum á vegum áhugahóps um guðfræði og síðar kom út bók á íslensku eftir hann í þýðingu dr. Grétars Halldórs Gunnarssonar, prests í Grafarvogi, og hún heitir: Það sem við tölum um þegar við tölum um Guð.

Nú er komin önnur bók út eftir hann á íslensku í þýðingu sr. Þorvalds Víðissonar. Það er Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar sem gefur út eins og hina fyrri. Hvað er Biblían? er heiti þeirrar bókar, með löngum undirtitli eins og er eitt einkenni höfundar: Hvernig ævaforn ljóð, bréf og sögur geta gerbreytt því hvernig þú hugsar og hvernig þér líður.

Texti bókarinnar sem samtal við lesandann rennur mjög vel og nær tökum á lesanda. Það er vel. Þýðandi á hrós skilið fyrir að ná að fleyta textanum áfram yfir á góða og skýra íslensku sem hæfir innihaldi og samtalinu. Málfarið er liðugt og ljóst, afdráttarlaust þar sem það á við og strákslegt þar sem það hæfir. Slík þýðing er dýnamísk og fyrir vikið nær hún sterkara taki á lesandanum en ella. Það er aðalsmerki góðrar og vel heppnaðar þýðingar.

Í bókinni ræðst Bell ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Hann ætlar sér að koma á framfæri boðskap allrar Biblíunnar í bók sem er 346 blaðsíður – og vera ófeiminn við að taka fyrir einstök rit hennar og þegar svo ber við stórkarlalegar yfirlýsingar gegn henni og boðskapnum. Og hann notar samtalsformið sem er honum svo tamt og hefur skilað árangri. Honum tekst mæta vel þessi fyrirætlun sín innan samtalsformsins sem er vissulega með þeim hætti að hann, höfundur, hefur orðið og stjórnar umræðunni á því plani, spyr ótal spurninga og velur efnisþræði, en hann setur sig líka í spor viðmælenda og áheyrenda, og lesandinn með virka hugsun tekur þátt í þessu ytra samtali innra með sér. Það er aðferðin.

Höfundur talar við lesandann með mjög svo frjálslegum hætti og áreynslulausum. Hann rökræðir við lesandann um merkingu texta og skilning. Áður en lesandinn veit af er hann farinn að taka þátt í þessu samtali sem gengur mjög svo liðuglega fyrir sig. Þess vegna er þessi stíll eða aðferð höfundar hrífandi – skemmtileg og upplífgandi. Höfundi er líka ljóst – og lesanda – að engar endanlegar lausnir á skilningi texta eða guðfræði verða snöggsoðnar. Ígrundun texta er mikilvæg og eitt af markmiðum samtalsins hjá höfundi er að lesandi setjist sjálfur niður í góðu tómi og fletti upp í Biblíunni. Ígrundi textann, láti hann tala við sig og hefji samtal við hann. Þetta er hið góða og gilda samstarf lesanda og höfundar sem ætíð hefur verið til.

Höfundur tekur margt fyrir og sumt hefur vakið upp efasemdir og orðið tilefni til hártogana og kífs. Eins og spurningin um óskeikulleika Biblíunnar, hvort hún sé innblásin, hvert vers og stafur. Og öll ættfræðin? Hvað á að gera við hana? Mótsagnir sem lesendur hnjóta um hér og þar í Biblíunni – og svo er það syndin, já svo lævís og lipur, hvað með hana? Öllu þessu svarar höfundur á sinn leikandi létta hátt en þó með sterkri rökvísi og möguleika lesandans til að halda samtalinu áfram með því að lesa fleira og leita upplýsinga.

Bók Rob Bells, Hvað er Biblían? – er kærkomin fyrir áhugasamir lesendur sem vilja stökkva inn í fjöruga orðræðu um þá bók sem valdið hefur straumhvörfum í lífi milljóna manna á öllum tímum. Hún er líka gráupplögð fyrir söfnuði sem lestrarbók, samlestrarbók – eða samtalsbók; söfnuði sem vilja bæta við öflugt safnaðarstarf sitt eða hressa við starf sem er kannski farið að dofna. Hér er öllum boðið að borðinu til að lesa, tala saman, fræðast og fræða.

Nú kunna margir að spyrja nánar út í Rob Bell. Hver er þessi maður? Auðvitað svarar Wikipedia því eins og flestu öðru:

Rob Bell er fæddur 1970, Bandaríkjamaður. Ágætlega menntaður í guðfræði – mjög svo frjálslyndur evangelisti. Hann var í rokkhljómsveit um tíma sem fékkst við kristilega tónlist. Stofnaði söfnuð sem hann var í forsvari fyrir til ársins 2012. Það var gríðarlega fjölmennur söfnuður upp á ameríska vísu. Hann hefur samið fjölda bóka, verið með sjónvarpsþætti og útvarpsþætti. Talinn af Times vera einn af 100 áhrifamestu mönnum heimsins.

Nánar má sjá um hann hér.


  • Fræðsla

  • Frétt

  • Menning

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Fræðsla

  • Menning

Bjalla kirkjuþings - gefin 1985

Kirkjuþingstíðindi

17. sep. 2020
...fundum kirkjuþings 2020 frestað
Á góðri stund á kirkjuþing. Frá vinstri: sr. Bryndís Malla Elídótttir, sr. Guðrún Karls Helgudóttir, Anna Guðrún Sigurvinsdóttir

Svipmyndir frá kirkjuþingi

16. sep. 2020
Sjón er sögu ríkari
Fundur fjárhagsnefndar kirkjuþings með kjaranefnd kirkjunnar í gær - frá vinstri: Hermann Ragnar Jónsson, Kjartan Sigurjónsson, Þuríður Björg Wiium Árnadóttir, Gísli Gunnarsson, Einar Karl Haraldsson, Anna Mjöll Karlsdóttir, Ragnhildur Benediktsdóttir, skrifstofustjóri kirkjuþings, Guðrún Zoëga, formaður kjaranefndar, Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings, Gísli Jónasson, formaður fjárhagsnefndar, Svana Helen Björnsdóttir

Kosningar á kirkjuþingi

16. sep. 2020
..nefndir og stjórnir...