Stutta viðtalið: Veflistakona og kirkjan

6. desember 2019

Stutta viðtalið: Veflistakona og kirkjan

Hér heldur formaður sóknarnefndar á fjólubláa höklinum, Ragnheiður Ásta Magnúsdóttir. Frá vinstri: Hjónin Gert Madsen og Elín, sr. Erla og sr. Fritz

Þær eru margar veflistakonurnar sem slá vefinn og útkoman eru dýrmæt listaverk sem notuð eru við helgihaldið. Höklar og stólur, altarisklæði og prédikunarstólsklæði. Ætíð hefur verið svo hugsað að helgigripir og öll klæði í kirkjum séu gerð úr eðalefnum – hvort heldur verið er að tala um messuklæði, altarisklæði eða klæði á prédikunarstól – og veggklæði.

Listamenn sem vinna fyrir kirkjur gera sér grein fyrir því að þeir eru að vinna fyrir himininn ef svo má segja, hann er síkvik sköpun og aldrei eins. Hann er ekta. Og í kirkjulistinni verður allt að vera ekta. Efni og hugsun. Annars nær listgripurinn ekki hinum hreina tóni, hinum hreina lit, hinni hreinu guðdómlegu stemmningu, og verður ekki hæfur til notkunar við helga þjónustu. Söfnuðurinn finnur það líka hvort það er ekta eða ekki.

Ein margra listakvenna er vinnur í þessum anda er Elín Stefánsdóttir og býr hún í Danmörku. Hún hóf nám í vefnaði tvítug að aldri hjá hinni kunnu veflistakonu, Guðrúnu Vigfúsdóttur. Síðan hélt hún utan til Danmerkur og lærði við Århus kunstakademi og settist að í Árósum en heldur góðu sambandi við gamla landið sitt. Mörgum árum síðar hóf hún nám aftur við listaakademíuna í Árósum og þá í myndlist. 

Þau sem hafa með listir að gera sjá stundum á augabragði hvar hæfileikar leynast. Segja má að slíkt hafi gerst í tilviki Elínar.

Kirkjan. is ræddi við hana um kirkjulistsköpun hennar.

Hún segir að listaævintýrið hennar hafi hafist með því að hún gerði messuhökul fyrir Aarslev-kirkju í Árósum.

„Ég sýndi svo minn fyrsta damaskhökul í Húsi listanna í Árósum“, segir hún léttilega og full af áhuga.

Hökullinn vakti athygli. Hver var þessi unga veflistakona sem skilaði frá sér þessu líka glæsilega hökli?

„Það varð til þess að ég tók síðan þátt í lokaðri samkeppni um altarisskreytingu og litasamsetningu í Kasted-kirkju í Árósum og vann hana,“ segir hún hlæjandi. Altarisklæði hennar fyrir Kasted-kirkju voru þrjú, úr damaskofnum hör og sérmeðhöndluðum bómull.

Eftir það fóru hjólin svo að snúast með undraverðum hraða. Og hún vann sér sess sem hæfileikarík veflistakona og varð eftirsótt.

Hún hefur verið með afbrigðum afkastamikil í listsköpun sinni eins og sjá má af heimasíðu hennar. Og hún er ekki aðeins veflistakona heldur vinnur líka steinda glugga og myndir. Eiginmaður hennar, Gert, vinnur líka á listaverkstæðinu, og aðallega við hina þungu vefstóla. Gert er ómetanleg stoð hennar í listinni.

Elín hefur slegið vefinn nú svo áratugum skiptir og enn er ekkert lát á verkefnum sem hún fær. Hún hefur ofið margvísleg messuklæði, hökla og stólur, altarisklæði og teppi, í alls 120 kirkjur hér heima og í Danmörku. Þær kirkjur sem eiga listaklæði eftir hana eru meðal annarra Hallgrímskirkja, Dómkirkjan, Reynivallakirkja og Keflavíkurkirkja.

„Ég er með damaskvefstól og nota svokallaða damasktækni í hökla og fíngerðari klæði,“ segir hún „og svo er ég líka með teppavefstól sem ég get ofið á teppi sem eru allt að þrír og hálfur metri.“

„Ég hanna allt sjálf og teikna,“ segir hún hress í bragði og heyrist ekki á mæli hennar að hún hafi búið svo áratugum skiptir í Danmörku.

Höklar hennar eru ákaflega léttir og þægilegir. Enda ofnir úr silkiþræði – 2200 uppistöðuþræði þarf í einn hökul. Svo er ívaf sem er örþunnur ullarþráður og segir til um lit hökulsins. Oft eru með íofnir gullþræðir og hökulliinn fóðraður með sérlituðu thaisilki.

„Ég lita þræðina eftir því sem óskað er,“ segir hún, „hvort heldur silki eða ull eins og í föstuhökulinn í Keflavíkurkirkju, litaði þar ullarþráðinn fjólubláan.“

Hún hefur unnið fyrir Keflavíkurkirkju, hannað og ofið. Fyrir nokkru tóku prestar og kirkjufólk í Keflavík við fjólubláum hökli, stólu og klæði á prédikunarstól sem Elín hafði ofið. Áður hafði hún ofið hvítan hátíðarhökul ásamt stólu fyrir kirkjuna.

Elín sagði frá vinnu sinni við hátíðlega athöfn í Kapellu vonarinnar í Keflavíkurkirkju fyrir nokkru. Hún er létt í frásögn og útskýrir margbrotinn listvefnað sinn vel. Listvefnaður af þessu tagi er gríðarleg vinna og flókin. Sérfræðivinna listamanns og engri annarri lík. Og sjálfur vefstólinn er kynngimagnaður!

Nú undirbýr Elín gerð messuskrúða fyrir í Keflavíkurkirkju í grænum lit sem minnir á lífið, vöxt þess og von. Svo koma messuklæði í rauðum lit sem sem er litur hins helga anda og kærleikans.

Keflavíkurkirkja mun þegar upp er staðið eiga messuklæði fyrir öll tímabil kirkjuársins sem eiga uppruna sinn hjá mynd- og veflistakonunni, Elínu Stefánsdóttur. Það er mikill fjársjóður og ekki bara hvað kirkjulist snertir heldur og almenna listasögu Íslands.

Sjá nánar um Elínu hér og hér.




Velt vöngum yfir grænum hökli og rauðum


Hátíðarhökull, stólur, altarisklæði og prédikunarstólsklæði, sem Elín óf

























  • Frétt

  • Menning

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta