Hátíðasöngvar séra Bjarna

9. desember 2019

Hátíðasöngvar séra Bjarna

Söngmálastjóri afhendir biskupi eintak af Íslenskum hátíðasöngvum

Í dag var biskupi Íslands, sr. Agnesi M. Sigurðardóttur, afhent fyrsta eintak nýrrar útgáfu af Íslenskum hátíðasöngvum sr. Bjarna Þorsteinssonar. Á þessu ári eru 120 ár frá því að þeir voru fyrst gefnir út en það var í Kaupmannahöfn árið 1899.

Það er Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar – og embætti söngmálastjóra sem gefa út Hátíðasöngvana. Kristín Jóhannesdóttir prófarkalas - og lék Hátíðasöngvana og Douglas Brotchie sá um nótaskrift. Sr. Kristján Valur Ingólfsson veitti ráðgjöf við útgáfuna.

Hér er um að ræða heildarútgáfu á öllum hátíðamessum og aftansöng. 

Sr. Bjarni Þorsteinsson (1861-1938) var prestur á Siglufirði hátt í hálfa öld. Hann var tónskáld og kunnastur fyrir að hafa safnað íslenskum þjóðlögum. Hann safnaði og bjó til prentunar Íslenzka sálmasöngbók sem kom út árið 1903. Íslenzk þjóðlög, komu út ár árunum 1906-1909.

Í formála þessarar útgáfu Íslenskra hátíðasöngva skrifar Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar svo:

„Hátíðasöngvarnir hafa verið samofnir helgihaldi kirkjunnar á hátíðum í meira en heila öld. Þeir eru merkileg tónsmíð, sem samin er undir rómantískum áhrifum og fagmenn hafa undrast þau gæði sem söngurinn hefur, miðað við þá fábrotnu tónsmíðaþekkingu sem höfundurinn hafði getað aflað sér. Hátíðasöngvarnir gera miklar tónlistarkröfur til flytjendanna og hafa oft verið settir sem prófsteinn á getu prests, kórs og organista. Það er gæfa kirkjunnar og þjóðarinnar að hafa eignast þessa söngva og ánægjulegt að finna að 120 árum eftir samningu þeirra, eru þeir ennþá ómissandi þáttur helgihaldsins á hátíðum.“

Kona sr. Bjarna var Sigríður Lárusdóttir, organisti. Mjög líklega lék hún fyrst manna undir Hátíðasöngvana í Siglufjarðarkirkju aðfangadagskvöld árið 1897 samkvæmt ævisögu sr. Bjarna sem út kom 2011 en þar stendur einnig:

„Það var afrek að svo metnaðarfullur, raddaður víxlsöngur skyldi vera fluttur af litlum kór erfiðisfólks í lítilli timburkirkju í smáþorpi við ysta haf.“ (Bjarni Þorsteinsson: Eldhugi við ysta haf, eftir Viðar Hreinsson, bls. 246).

Hátíðasöngvarnir voru sumsé frumfluttir á Siglufirði, síðan notaðir við guðsþjónustur um jól og áramót á Eyrarbakka, á Stokkseyri og Dómkirkjuna 1899 en í síðastnefndu kirkjunni virtist sem organistinn hafi „flutt hluta verksins með hangandi hendi, einraddað við aftansöng.“ (Bjarni Þorsteinsson: Eldhugi við ysta haf, eftir Viðar Hreinsson bls. 250).

Þetta mun vera fimmta útgáfa Hátíðasöngvanna, hún er handhæg og þægileg fyrir kóra í guðsþjónustum. Hægt er að fá lækkaða rafræna útgáfu keypta. 

Sjá hér Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar, Siglufirði



Afhending á eintökum af Íslenskum hátíðasöngvum á Biskupsstofu í dag.
Frá vinstri: sr. Sigfús Kristjánsson, stjórnarmaður í Skálholtsútgáfunni,
sr. Þorvaldur Víðisson, biskupssritari, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup, Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri, Kristín Jóhannesdóttir, organisti og hún prófarkalas- og lék Hátíðasöngvana, og Douglas Brotchie, organisti sem skrifaði nóturnar