Heimasmíðuð jólatré á aðventu

9. desember 2019

Heimasmíðuð jólatré á aðventu

Gömul jólatré í Húsinu af ýmsu tagi

Steinsnar austan við Eyrarbakkakirkju er Húsið. Þegar stigið er þar inn fyrir dyr blasir við önnur veröld. Enda er húsið reist 1765 og var lengst af bústaður danskra kaupmanna. Í það hús kom sennilega fyrsta jólatréð á Eyrarbakka. Það er ekki lengur til.

En frásögn lítils drengs sem bjó í húsinu skömmu eftir miðja 19du öld er til og hann man eftir „jólatrénu, heimagerðu úr spýtum, sem við horfðum á í andakt, en seinna var það þakið með einiviðargreinum. Mikið af eplum og sætindum. ...“

Nú stendur yfir í Húsinu á Eyrarbakka sýning á gömlum íslenskum jólatrjám. Þetta eru aðallega heimasmíðuð jólatré en nokkur eru þó verksmiðjuframleidd. Jólatré af ýmsum íslenskum heimilum til bæjar og sveitar. 

Jólatré bárust til Íslands um miðja 19du öld. En þar sem erfitt var að fá lifandi tré brugðu menn fljótt á það ráð að smíða þau sjálfir. Lyng var svo sett á greinar og kertaljós.

Elsta tréð á sýningunni í Húsinu er frá 1873, heimasmíðað, og við hlið þess er tré smíðað eftir því gamla og með lyngi á til að sýna hvernig það kemur út. En það var Jón Jónsson bóndi í Þverspyrnu sem smíðaði tréð fyrir prestsmaddömuna í Hruna, Kamillu Briem.

Þessi gömlu tré eru ákaflega falleg og látlaus. Enda þótt lifandi tré og verksmiðjuframleidd gervitré séu algengust þá er á sumum heimilum að finna einföld smíðuð tré, af fagfólki. Flest jólatrjánna á sýningunni eru frá því nokkuð fyrir miðja síðustu öld.

Eitt jólatréð var með jólaseríu sem framleidd var á Reykjalundi. Tréð var frá árinu 1945 og notað í Litlu-Sandvík í Flóa til ársins 1990.

Jólasýning í Húsinu á Eyrarbakka stendur fram til jóla. Það var á níunda áratug síðustu aldar sem tekið var upp á því að hafa jólasýningar í Húsinu. Sýnd voru jólatré og jólasveinar.

Lýður Pálsson, safnstjóri Byggðasafns Árnessýslu, sagði sýninguna hafa verið vel sótta. Kirkjan. is naut leiðsagnar hans í gær í aðalsal hússins, sem kallast Borðstofan. Jólasýningin er fimmta sýning safnsins á þessu ári.

En það var ekki aðeins sýning á jólatrjám í gær í Húsinu heldur var þar mættur Björgvin Tómasson, orgelsmiður með meiru. Hann sneri ákaft lírukassa sinn í Stásstofunni í Húsinu og frá honum hljómuðu kunn aðventulög og jólalög. Gestir tóku undir og að loknum lírukassaleik settist fólk niður og fékk sér kaffi og konfekt á þessum öðrum sunnudegi í aðventu.

Kirkjan.is spurði Björgvin hvort hann hefði smíðað lírukassann og kvað hann svo vera. Þetta væri reyndar ekki eini lírukassi landsins, annar væri til í Hveragerði og hefði eigandi hans smíðað hann.

Kirkjan. is hvetur öll þau sem tök hafa á að líta við í Húsinu á Eyrarbakka og skoða þessa merku sýningu.

Hér fyrir neðan er hægt að hlýða á Björgvin Tómasson leika eitt jólalag á lírukassann. 

Sjá heimasíðu Hússins hér.


Elsta jólatréð á sýningunn til hægri, frá 1873. Til vinstri er eftirlíking þess með lyngi.


Ýmsi jólatré