Stutta viðtalið: Börn og aðventa

12. desember 2019

Stutta viðtalið: Börn og aðventa

Kristný Rós og lambið Snæbjört

Kirkjan. is mætti litlum hópi leikskólabarna úr Kvistaborg í Hallgrímskirkju einn morguninn nú í vikunni, daginn eftir óveðrið mikla, og spurði stúlku eina í hópnum: „Hvað ertu gömul?“ og hún svaraði lágum rómi: „Fjögurra ára,“ ofan í bringu sína. Einum dreng í hópnum fannst – kannski sem upprennandi karlmanni – hann þurfa að árétta þetta af meiri myndugleika og sagði hægt og rólega, vandaði sig mjög mikið enda ekki auðvelt orð á leiðinni og honum einnar tannar vant í efri góm: „Við erum öll fjögurra ára.“

Síðan gekk prúður hópurinn að borði einu og fékk piparkökur.

Hallgrímskirkja sendir bréf til grunn- og leikskólanna í októbermánuði hvert ár og býður þeim að koma í kirkjuna á aðventu og fræðast um jól sr. Hallgríms Péturssonar þá hann var barn að aldri á 17. öld.

Þetta hófst fyrir fimm árum í Þjóðminjasafninu og er byggt á bók Steinunnar Jóhannesdóttur, rithöfundar, Jólin hans Hallgríms, sem kom út árið 2014. Síðan var dagskráin flutt úr Þjóðminjasafninu og safnið gaf kirkjunni spjöld sem það hafði látið gera í tengslum við sýninguna. En myndirnar á spjöldunum eru úr bókinni og þær gerði Anna Cynthia Leplar.

Ekki er að því að spyrja að skólabörnin hafa streymt í kirkjuna á aðventunni í fylgd með kennurum sínum. Þátttaka er mjög góð og hundruð barna hafa séð sýninguna.

Þegar börnin koma í Hallgrímskirkju er fyrst farið með þau í skoðunarferð um kirkjuna. Þeim er sagt frá ýmsu eins og kirkjugripum og þau fá jafnvel að snerta á þeim. Svo tekur Björn Steinar Sólbergsson, organisti, á móti þeim. Hann sýnir þeim orgelið og segir frá því. Spilar svo jólalag eða sálm á orgelið og þau syngja. 

„Heimsóknirnar hafa verið virkilega skemmtilegar og allt hefur gengið mjög vel,“ segir Kristný Rós Gústafsdóttir, djákni og verkefnastjóri barna- og æskulýðsmála í Hallgrímskirkju. „Við tökum á móti börnunum hér á annarri hæð í kirkjunni, á pallinum til hliðar við orgelið og þau setjast niður og við segjum söguna af jólunum hans Hallgríms. Svo tölum við um við hvernig jól Hallgríms voru.“ Þau tala um jólabaðið, undirbúning jólanna eins og bakstur, matinn og svo þegar jólin gengu í garð. Endursegja jólaguðspjallið fyrir börnin sem drekka í sig hvert orð. Börnin spyrja margs og hafa margt að segja sem vel er hlustað á.

Kristný Rós segir að temað sé jólin og sú birta sem fylgi þeim. Þau leggi hins vegar líka áherslu á andstæðu ljóss og myrkurs. Myrkrið sem var á tíma Hallgríms sé eitthvað sem börn nútímans eigi auðvitað ekki auðvelt með að skilja. Jólin komu með birtuna inn í baðstofuna – og í sálina.

Á pallinum er rokkið og börnin útbúa stjörnur og hengja upp á vegg. Þegar stjörnur gefa birtu er stjörnubjart og börnin skilja vel að fólk fyrr á tímum hafi kunnað að meta það í vetrarmyrkrinu.

Ef stjörnurnar á veggnum eru taldar má sjá hve mörg börn hafa komið í kirkjuna á þessari aðventu. Í trogi er að finna kjálkabein og leggi til að leika sér með í anda Hallgríms sem barns. Þá er uppstoppað lamb sem börnin geta tekið upp, klappað og strokið. Lambið heitir Snæbjört – til að minna á að snjórinn veitir líka birtu um veturinn.

Í sögunni lærir Hallgrímur jólasálminn Nóttin var sú ágæt ein og hann er sungin í stundinni. Ljúfir tónar og falleg orð fylgja börnunum út úr kirkjunni og heim.

Það er gott og hollt veganesti á aðventu fyrir unga sem aldna.

Kristný Rós er Ólafsvíkingur, vígð sem djákni 2011 til starfa fyrir vestan. Síðar starfaði hún sem djákni í Áskirkju áður en hún hóf störf í Hallgrímskirkju.

Heyra má Steinunni Jóhannesdóttur, lesa söguna, hér.

Sjá hér um Jólin hans Hallgríms.

Gömul leikföng barna sem sjá má í Hallgrímskirkju