Stutta viðtalið: Samferða fólki á viðkvæmum tíma

22. desember 2019

Stutta viðtalið: Samferða fólki á viðkvæmum tíma

Dr. Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir, sjúkrahúsprestur þjóðkirkjunnar

Umhverfið allt er rómað fyrir kyrrð og fegurð.

Augað hefur ekki við því að taka á móti öllu sem þar býðst og hið sama er að segja um eyrað. Arnarnesið blasir við og það sést út á Álftanesið í allri sinni dularfullu fegurð og höfuðbólið Bessastaði með sögu lands og lýðs. Og hvað er fegurra en himinn, sjór, saga, söngur fugla og trítl, og í fjarska ymur borgarinnar? Fegurðin getur nefnilega líka verið dyggur bandamaður í stríði við vágest sem enginn vill hafa í líkama sínum.

Við þennan kyrra vog var Líknardeild Landspítala í Kópavogi ýtt úr vör í apríl 1999. Tveir áratugir eru liðnir og þess er minnst á þessu ári.

Hún er fyrsta sérhæfða deildin af þessu tagi hér á landi. Deildinni var komið á fót með stuðningi Oddfellowreglunnar á Íslandi sem hefur verið tryggur bakhjarl við starfsemi deildarinnar frá stofnun hennar.

Þjóðkirkjan hefur stutt við starfsemi líknardeildarinnar allt frá upphafi með því að leggja henni til stöðugildi sjúkrahúsprests. Það er dr. Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir sem er sjúkahúsprestur þjóðkirkjunnar og hefur starfað við deildina þennan tíma. Hún hefur tekið virkan þátt í uppbyggingu og þróun starfseminnar. Eins uppbyggingu og þróun sálgæslunnar á deildinni. Framlag þjóðkirkjunnar skiptir miklu máli fyrir andlega og trúarlega þjónustu við deildina sem er veitt hverjum þeim sem hana vilja þiggja óháð trúar- eða lífsskoðunum.

Árið 2003 vígði sr. Karl Sigurbjörnsson, biskup, kapellu við líknardeildina sem var gjöf Oddfellowreglunnar.

Kapellan er mikið notuð og þar fer fram að jafnaði reglubundið helgihald tvisvar í viku. Hún er líka kyrrðarstaður og þangað getur fólk leitað, beðist fyrir eða átt persónulega stund í einrúmi. Einnig fara þar fram viðtöl við sjúklinga og fjölskyldur. Í kapellunni eru og haldnir fjölskyldufundir og fjölskyldur safnast þar einnig saman eftir andlát ástvinar.

Kapellan er sem andleg vin í starfi líknardeildarinnar. Guðlaug Helga greinir frá því að þar komi nefnilega líka saman starfsfólk og haldi viðrunarfundi og fræðslufundi. „Kapellan er ætíð opin og það veit fólk,“ segir Guðlaug Helga, „hún er frátekinn helgur staður á þessum reit þar sem mikil glíma fer oft fram.“

En hvað er líknarmeðferð?

Gefum Guðlaugu Helgu orðið:

„Líknarmeðferð er meðferð sem byggir á heildrænni sýn á manneskjuna. Áhersla er lögð á að mæta hinum mismunandi þörfum manneskjunnar, þ.e. líkamlegum, félagslegum, sálrænum og andlegum, trúarlegum og tilvistarlegum. Meðferðin beinist að því að bæta lífsgæði sjúklinga sem eru með langvinna og lífsógnandi sjúkdóma og fjölskyldna þeirra. Í líknarmeðferð er verið að veita bæði sjúklingnum og fjölskyldu viðkomandi þjónustu og því er gjarnan talað um þau sem meðferðareininguna.

Líknarmeðferð getur bæði verið sérhæfð og almenn. Í sérhæfðri líknarmeðferð er verið að sinna sjúklingum með versnandi sjúkdóma og flókin einkenni en almenn líknarmeðferð á að vera hluti af almennri heilbrigðisþjónustu.“

Guðlaug Helga segir að helstu ástæður fyrir innlögn á líknardeild séu vegna meðferðar á einkennum sjúkdóma og/eða meðferðar við lok lífs.

„Teymisvinna er mjög öflug á líknardeildinni þar sem hver fagstétt hefur sína aðkomu að þjónustunni við sjúkling og fjölskylduna,“ undirstrikar Guðlaug Helga. Hún leggur áherslu á að vinna með fjölskyldum sé mikil á deildinni.

„Það gefur auga leið að þegar einn í fjölskyldunni veikist alvarlega þá hefur það áhrif á alla fjölskyldumeðlimi og þá stundum með sínum hætti á hvern og einn þeirra, og svo á fjölskylduna í heild,“ segir Guðlaug Helga. Í þessu sambandi nefnir hún fjölskyldustoð sem líknardeildin býður fjölskyldum þar sem foreldri er deyjandi og börn eru í fjölskyldunni eða ungt fólk innan 25 ára aldurs. Þessari fjölskyldustoð sinnir sjúkrahúsprestur þjóðkirkjunnar og tveir hjúkrunarfræðingar. Hún segir að það hafi líka verið farsælt og náið samstarf við nágranna líknardeildarinnar, Kópavogskirkju.

En hvernig er að starfa á líknardeild?

,,Það er mjög innihaldsríkt að starfa á líknardeild“ segir Guðlaug Helga. „Það eru forréttindi að fá að vera samferða fólki á þessum viðkvæma tíma í lífi þess. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að starfa á þessum vettvangi og að hafa fengið að taka þátt í uppbyggingu þjónustu deildarinnar. Um leið og starfið er gefandi þá tekur það einnig á þar sem sorgin er hluti af daglegum veruleika okkar á deildinni. Segja má í rauninni að hér sé að finna allt litróf mannlegra tilfinninga og andstæður lífsins blasa við okkur á degi hverjum. Lífið fer hér þannig um í sinni fyllstu mynd,“ segir Guðlaug Helga og bætir við að það sé þó ekki þannig að allir sem leggist inn á deildina deyi inni þar heldur útskrifist sumir eftir að hafa fengið meðferð við erfiðum einkennum.

Það er býsna mikið um að vera á líknardeildinni á aðventu og í aðdraganda jóla. Það er m.a. aðventustund og þá kemur Skólakór Kársness og syngur. Í kapellunni eru fluttir jólasöngvar undir styrkri stjórn Ernu Blöndals og Arnar Arnarsonar. Sjúklingar og aðstandendur koma til þeirrar stundar ásamt starfsfólki deildarinnar.

„Þetta eru innihaldsríkar samverustundir,“ segir Guðlaug Helga, „og það er mikið lagt upp úr því að færa anda aðventu og jóla – sem og endranær anda umhyggju og hlýju – til þeirra sem dveljast á deildinni.“

Yfirlæknir líknardeildarinnar hefur verið frá upphafi dr. Valgerður Sigurðardóttir.

„Það er mikill faglegur metnaður á deildinni og fagþróun,“ segir Guðlaug Helga. Það sé fylgst með nýrri gagnreyndri þekkingu á sviði líknarmeðferðar, og einnig hvatt til rannsókna, gæðaverkefna og fræðslu innan deildar sem utan.

Starfsafmælisins hefur verið minnst af starfsfólki líknardeildar með ýmsum hætti. Ljósmyndir sem starfsfólk hefur tekið af nánasta umhverfi deildarinnar hafa verið hengdar upp til sýnis á deildinni. Starfsfólk fór einnig í námsferð til London á afmælisárinu og heimsótti líknardeildir.

Kirkjan. is þakkar fyrir viðtalið og óskar líknardeildinni til hamingju með afmælið og blessunar Guðs.

Fagurt útsýni frá líknardeildinni í Kópavogi








  • Frétt

  • Guðfræði

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

Börn og fullorðnir í Langholtskirkju

Skiptir messuformið máli?

09. okt. 2024
...þróunarvinna í Langholtskirkju
Háteigskirkja

Góð þátttaka í fjölbreyttum fermingarstörfum

08. okt. 2024
...fermingarstarf í Háteigskirkju
Biskup Íslands Guðrún Karls Helgudóttir í Víkurkirkju

Biskup Íslands á 90 ára afmælishátíð í Vík

07. okt. 2024
...vel heppnuð hátíð