Nýárspredikun biskups Íslands

1. janúar 2020

Nýárspredikun biskups Íslands

Bæn:

Guð, um aldir hefur ljósið þitt ljómað af ásjónu nýfædds barns í Betlehem sem tákn elsku þinnar og návistar mitt í ógn og illsku heimsins. Við biðjum þig: Láttu ljósið þitt lýsa okkur enn. Leið okkur frá dauða til lífs, frá lygi til sannleika, frá vanmætti til vonar, frá ótta til trausts, frá hatri til kærleika, frá stríði til friðar. Hjálpa okkur að tendra ljós fremur en að formæla myrkrinu og lát frið þinn fylla hjörtu okkar, allra manna, alheims. Í Jesú nafni. Amen.


Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilegt ár kæru landsmenn nær og fjær og þakkir fyrir það sem liðið er. Árið 2019 er á enda runnið og nýtt ár 2020 hefur heilsað. Þegar ár mætast og sálmurinn „Nú árið er liðið“ heyrist á öldum ljósvakans er viss söknuður sem kemur upp í huga manns en um leið þakklæti fyrir það að hafa fengið að lifa enn ein áramótin. Framtíðin er nú sem áður óskrifað blað þó margt sé ráðgert og verður vonandi eins og vænst er. Það er erfitt að undirbúa sig fyrir hið óþekkta og óvænta í lífinu en margt er hægt að gera til að fyrirbyggja vandræði og vera viðbúin ef óveður skellur á, eldgos eða aðrar náttúruhamfarir.

Enn eru jólin og ljósið frá helgri hátíð lýsir enn. Í kirkjum landsins var lesið um drenginn hennar Maríu sem fæddist í Betlehem. Um englana sem fluttu tíðindin af fæðingu hans og hirðana sem fyrstir fengu að heyra um fæðingu barnsins. Við fylgdum hirðunum síðan eftir til Betlehem og í dag er næsti þáttur frásögunnar á dagskrá. Guðspjall dagsins er aðeins eitt vers, „Þegar átta dagar voru liðnir skyldi umskera hann og var hann látinn heita Jesús eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi.“

Við í okkar kirkju höfum annan hátt á en venja var þegar Jesús fæddist, þegar barni er gefið nafn. Við skírum börnin og oft er það að nafn barnsins er gert opinbert við skírnarathöfnina. Nafnið er valið af kærleika og ást til barnsins og ef nafnið er í höfuð einhvers eða eftir einhverjum er oft um að ræða kærleika til þess sem nafnið ber eða bar. En skírnin er ekki nafngjöf. Í skírninni þökkum við Guði fyrir þá stórkostlegu gjöf sem barnið er. Með því að láta skíra barnið sýnum við þakklæti okkar og biðjum Guð að vera nálægur í uppeldi og lífi þess. Þegar foreldrar þiggja blessun skírnarinnar barninu til handa eru þau að leyfa umhyggju Guðs að umvefja barnið í lífinu. Við sjáum ekki Guð og það sem gerist í skírninni er líka ósýnilegt augum okkar. Þess vegna notum við tákn til að hjálpa okkur að skynja og skilja það sem ekki sést. Kross táknið sem barnið fær á enni og brjóst er tákn sigurs og vonar.
Við skírnina verður barnið hluti af kirkju Krists hvort sem það er formlega skráð í ákveðna kirkjudeild eða ekki.

Það barn sem skírt er í þjóðkirkjunni verður hluti af Grænni kirkju Krists, sem hefur sett umhverfismál í algjöran forgang. Græna kirkjan eru fjölmennustu umhverfissamtök á Íslandi. Á nýju ári verður kynntur til leiks Skírnaskógur íslensku þjóðkirkjunnar. Í Skírnarskóginum verður gróðursett tré fyrir hvern skírðan einstakling. Tréð mun síðan vaxa, rétt eins og barnið, og verða hluti af umhverfinu og gagnast samfélaginu.

Við skírnina verður barnið hluti af þeirri kirkju sem berst fyrir mannréttindum, frelsi og jafnrétti. Verður hluti af kirkju Krists sem hvern dag eflir samtíma sinn og samfélag með starfi sínu og mannauði.

Drengurinn sem fékk nafnið Jesús, sem merkir „Drottinn frelsar“ hefur haft meiri áhrif á mann og heim en flestir aðrir. Vestræn menning er mótuð af því sem hann var, gerði og sagði. Kirkjan í heiminum, sem nú skiptist í margar deildir er byggð upp af orði hans og hefur lifað í 2000 ár þrátt fyrir spádóma um annað. Kirkjan í heiminum hefur ekki fallið, þjóðkirkjan hefur ekki fallið, en mörg kerfi hafa fallið, kommúnisminn féll og járntjaldið. Berlínarmúrinn og bankarnir. Þegar hugmyndakerfi falla breytist heimurinn. Það er sagt að stjórnmál séu list augnabliksins. Það getur margt gerst í stjórnmálum á stuttum tíma og stjórnmálamenn verða oft að vera fljótir að taka ákvarðanir. Kristin kirkja hefur ekki búið við þennan veruleika þó boðskapur hennar hafi vissulega haft áhrif á daglegt líf fólks og ákvarðanir manna. Kirkjan þykir enda oft svifasein og sein til ákvarðanatöku. Þar á bæ gefa menn sér góðan tíma til að velta hlutunum fyrir sér út frá guðfræði og kristinni trú. Í margar aldir hefur kirkjan getað leyft sér þessi vinnubrögð en nú er öldin önnur. Þær hröðu þjóðfélagsbreytingar sem nú eiga sér stað í hinum vestræna heimi knýja kirkjuna til að vinna hratt. Í þeirri fljóðbylgju upplýsinga sem við fáum á hverjum degi er hætta á að sú uppbyggilega rödd sem kirkjan hefur heyrist ekki né sjáist. Og menn spyrja hvert erindi kirkjunnar sé á 21. öldinni. Á boðskapur hennar erindi við hinn upplýsta nútímamann?

Ástæðan fyrir því að við kirkjunnar fólk gefumst ekki upp á því að prédika er sú að við höfum fulla trú á því að boðskapurinn eigi enn erindi. Að hann bæti lífsgæðin og veiti svör við spurningum fólks og geti fundið lausnir á vandamálum heimsins.

Rétt eins hugmyndin um velferðarkerfi samfélaganna þróaðist og byggðist upp á 20. öldinni þurfum við að byggja upp og standa vörð um andlega velferð samfélaga. Andleg velferð er lykill að lífsgæðum og hamingju mannsins. Til þess kom Kristur inn í heiminn - vegna þessa hefur kirkjan ríkt erindi á 21. öldinni og boðskapurinn hefur aldrei verið mikilvægari fyrir andlega velferð hins upplýsta manns.

Kirkjan var, er og mun verða klettur andlegrar velferðar á Íslandi. Það eru mín skilaboð til þjóðarinnar.

Kirkjan boðar lífsviðhorf út frá trú á þann Guð sem Jesús birti og boðaði. Sú trú felur í sér traust til þess að Guð sé alltaf nærri og von um að hann haldi framtíðinni í höndum sér. Þau systkin trú, von og kærleikur eru góðir lífsförunautar í dagsins önn.
Eitt er það markmið sem þjóðkirkjan lítur sérstaklega til nú um stundir og það er 13. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir í loftslagsmálum. Tvöfalda kærleiksboðorðið um að elska Guð og náungann eins og sjálf okkur er ákall um kærleika og umhyggju, að við stöndum vörð um manngildi og sköpunarverkið á sama tíma og við vinnum að réttlæti og friði í heiminum.

Það hlýtur öllum að vera ljóst að aðgerðir í loftslagsmálum eru nauðsynlegar til lífs á jarðarkringlunni. Fólk um allan heim reynir afleiðingar hækkandi hitastigs í þurrkum, flóðum og öfgum í veðurfari. Samvinna almennings og þjóða heims eru nauðsynleg og ábyrgðarfull.

Kristin trú og kirkjan leggur margt til umræðunnar um loftslagsvána sem við blasir í heiminum í dag. Í umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar segir m.a.: „Þessi vandi er siðferðilegt málefni sem varðar alla. Alkirkjuráðið og Lúterska heimssambandið hafa í þrjá áratugi látið loftslagsmál til sín taka. Íslenska þjóðkirkjan er aðili að stefnu þeirra þar sem áréttað er að jörðin sé ekki til sölu. Í henni felst áskorun til safnaða og leiðtoga kirkjunnar um að boða frið við jörðina, hófsaman lífsstíl og réttláta skiptingu jarðargæða. Þar er einnig um að ræða hvatningu til trúmennsku við þá spámannlegu köllun kirkjunnar að benda á óréttlæti, ójöfnuð, félagslega neyð og náttúruspjöll af mannavöldum.“ Eitt af megin hlutverkum kirkjunnar á 21. öldinni er að vera rödd umhverfisverndar og sjálfbærni í lifnaðarháttum. Græna kirkjan verður virk og beinskeytt rödd þeirrar boðunnar. Græna kirkjan er þjóðkirkja landsmanna.

Í umræðu dagsins ber þjóðkirkjuna oft á góma. Margir hafa skoðun á henni og hlutverki hennar. Spámannleg köllun kirkjunnar er nefnd í umhverfisstefnunni en það er hlutverk kirkju að koma á framfæri þeim kærleiksboðskap sem Jesús birti og boðaði. Rödd kirkjunnar kann að hljóma á stundum sem rödd hrópanda í eyðimörk en sú rödd á líka rétt á sér og er nauðsynlegur kompás á lífsins vegi. Það er leitt til þess að vita að sögur Biblíunnar eru ekki aðgengilegar börnum þessa lands í skólunum eins og áður var því þær eru hluti af menningarlæsi fólks í hinum vestræna heimi.

Umræða um aðskilnað ríkis og þjóðkirkjunnar er ekki ný af nálinni. Hún hefur komið upp af og til nánast frá því stjórnarskráin var lögleidd árið 1874. Það er samt ekki alltaf ljóst hvað menn meina þegar málefnið ber á góma, enda verður að byrja á því að skilgreina hver tengslin eru sem á að slíta. Margir vilja meina að aðskilnaðurinn hafi farið fram og tekið gildi fyrir nákvæmlega 22 árum, þann 1. janúar árið 1998 en þann dag tóku lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar gildi eftir að samkomulag milli ríkis og kirkju hafði verið undirritað tæpu ári áður. Frá þeim tíma hefur þjóðkirkjan verið sjálfstæð og ráðið innri málum sínum án aðkomu ríkisins innan lögmæltra marka eins og segir í lögunum. Kirkjuþing setur allar reglur og hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, en framkvæmdaaðili þeirra reglna er kirkjuráð og eftir atvikum biskupsembættið.

En það er rétt að aðskilnaður ríkis og kirkju hefur ekki farið fram að fullu, en skref eru stigin að fullum aðskilnaði, m.a. í dag þegar nýtt viðbótarsamkomulag ríkis og kirkju tekur gildi ásamt breyttum lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar sem samþykkt var á Alþingi fyrir stuttu. Frá og með þessum degi, 1. janúar árið 2020 hefur starfsfólk biskupsstofu og kirkjuráðs fengið nýjan ráðningarsamning og prestar landsins eru ekki lengur embættismenn ríkisins.

Það er því ekki hægt að halda því fram að tengsl ríkis og kirkju séu mjög náin eða sterk þó vissulega beri ríkisvaldinu að styðja og vernda þjóðkirkjuna samkvæmt 62. grein stjórnarskrárinnar. Því ákvæði verður ekki breytt nema meirihluti kjósenda landsins vilji það. Skemmst er frá því að segja að í ráðgefandi kosningu um nýja stjórnarskrá árið 2012 kaus meirihluti kjósenda með því að samband ríkis og kirkju yrði áfram staðfest í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Af einhverjum sökum gleymist þessi staðreynd í tíðum umræðum um nýja stjórnarskrá. Þessi nýstaðfesta 62. grein byggir á þeirri forsendu siðbótarinnar að almannavaldið, almenningur í kirkjunni eða hið veraldlega hafi um það að segja hvernig kirkjan er, en ekki eingöngu prestarnir. Menn geta haldið áfram að ræða tengsl ríkis og kirkju eða aðskilnað ríkis og kirkju en mikilvægara er að samfylgd þjóðar og kristinnar trúar haldi áfram, hér eftir sem hingað til.

Því hefur verið haldið fram að engin þörf sé fyrir þjóðkirkju í landi okkar. Hlutverki hennar sé lokið hafi það þá nokkurn tíma verið til staðar. En staðreyndin er sú að fólk sæki messur og margir þiggja þjónustu þjóðkirkjunnar. Í þéttbýlinu leggur fjöldi fólks á öllum aldri leið sína í kirkjurnar enda er starf hennar ekki bundið við sunnudagana og aðra helgidaga ársins.

Sú mynd sem ég fæ af kirkjunni þegar ég heimsæki söfnuði hennar er að starfið blómstri og fólkið sé glatt. Söfnuðurinn er fólkið í kirkjunni og ég vil nota tækifærið og þakka þeim fjölmörgu sem leggja kirkjunni lið, gefa af tíma sínum og kröftum og telja það ekki eftir sér. Um landið allt eru sjálfboðaliðar í sóknarnefndum og kirkjukórum, kvenfélögum og bræðrafélögum, safnaðarfélögum, auk þeirra fjölmörgu sem hafa kosið að vinna fyrir kirkjuna við þrif, kirkjuvörslu, eru hringjarar og viðgerðarmenn. Takk fyrir framlag ykkar. Þið eruð kirkjan ásamt öllum þeim sem hana sækja og þjónustu hennar njóta, um land allt.

Það er margt sem hefur hrunið og margt sem getur hrunið. Það þekkjum við af sögu mannkyns. Hugmyndakerfi hafa komið og haft mikil áhrif en hrundu svo. Fjármálakerfi sömuleiðis, fyrir utan alla þá eyðingu jarðar sem mannskepnan hefur valdið.

En kirkja Krists stendur enn og mun gera á meðan drengurinn sem fæddist hin fyrstu jól, vill að hún standi. Það er undir Drottni sjálfum komið en ekki misvitrum mönnum hvort hún stendur eða fellur, hvort hún er tengd eða aðskilin. Á Drottinn vonum við, til Drottins biðjum við, á hann hlustum við í heilögu orði hans.

Á hverri árs- og ævitíð
er allt að breytast fyrr og síð.
Þótt breytist allt, þó einn er jafn,
um eilífð ber hann Jesú nafn
orti séra Valdimar Briem í áramótasálmi sínum Í Jesú nafni áfram enn.

Á nýju ári skulum við leggja allt í Guðs hendur. Guð mun vel fyrir sjá.

Gleðilegt ár, í Jesú nafi.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju:
Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.
  • Biskup

  • Aðventa

  • Biskup

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut