Merkileg sýning

6. janúar 2020

Merkileg sýning

Kirkjan sem aldrei reis

Í Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar fer fram merkileg sýning og lýkur henni 12. janúar n.k.

Sýningin ber nafnið: „Guðjón Samúelsson, húsameistari.“ Farið er yfir hið umfangsmikla ævistarf fyrsta húsameistarans og greint frá fjölda bygginga sem hann teiknaði og eru flestar þjóðkunnar.

Kirkjuteikningar Guðjóns eru sérkapítuli út af fyrir sig og honum eru gerð góð skil á sýningunni. Sjá má líkön af Hallgrímskirkju, Laugarneskirkju og Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Kannski er síðastnefnda líkanið eftirtektarverðast því sú kirkja reis aldrei nema að hluta þ.e.a.s. kjallarinn. Kirkja var svo byggð ofan á kjallarann eftir annarri teikningu, þeirra Sigurðar Guðmundssonar og Eiríks Einarssonar. Hún var vígð 1957. 

Enginn ætti að láta þessa merku sýningu fram hjá sér fara og allra síst áhugafólk um kirkjur og kirkjubyggingar.

Myndin með fréttinni er af líkani Hallgrímskirkju á Hvalfjarðarströnd sem aldrei reis. Um hana segir í skýringartexta á sýningunni:

„Til þess að fá kirkjuna til að minna á sálmaskáldið er hún gerð með mjög þungum og alvarlegum stílblæ. Turninn, sem er mjög stór í hlutfalli við kirkjuna, er gerður sem mjög stór legsteinn, en táknræn mynd hans eru þrjár, grannar, steyptar súlur, hvítar að lit, og eiga þær að minna á hörpustrengi.“

Guðjón var fæddur á Hunkubökkum á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu 1887 og lést í Reykjavík 1950. Sýningin er haldin í tilefni þess að öld var liðin frá því að hann lauk háskólaprófi í byggingarlist árið 1919 og skipaður húsameistari ári síðar. Á þessu ári kemur út bók um byggingarlist Guðjóns eftir Pétur H. Ármannsson og verður fengur að henni.

Stjórn þessarar sýningar er í höndum Ágústu Kristófersdóttur og Péturs H. Ármannssonar.

Sýningin er opin frá kl. 12.00 til 17.00. 

hsh

Líkan af Hallgrímskirkju á sýningunni