Stutta viðtalið: „Fyrir vorið...“

10. janúar 2020

Stutta viðtalið: „Fyrir vorið...“

Krýsuvíkurkirkja fer senn á sinn rétta stað

Krýsuvíkurkirkja brann í janúar árið 2010 eða fyrir tíu árum. Það voru fjögur ungmenni sem kveiktu í henni. Í yfirheyrslu hjá lögreglunni sögðust þau ætla að hafa kveikja í einhverri kirkju og tilviljun réði því að það var Krýsuvíkurkirkja.

Það var dapurlegt. En þó sem betur fer engin endalok Krýsuvíkurkirkju.

Kirkjan sem brann var reist árið 1857 og friðuð árið 1990. Hún var í vörslu Þjóðminjasafns Íslands.

Eftir brunann kom sú hugmynd upp að nemendur við Iðnskólann í Hafnarfirði myndu endursmíða kirkjuna. Verk þeirra yrði metið sem hluti af námi. Menn sáu fyrir sér að endurbyggingin væri góð leið til að kynna fyrir nemendum gamalt handbragð og halda því við. Enda væri mikilvægt að varðveita kunnáttu í íslensku handverki sem tengist húsbyggingum.

Hafist var handa og góðu heilli voru til teikningar af kirkjunni frá 2002. Grindarteikningar voru gerðar.

Það er Hrafnkell Marinósson, deildarstjóri í Tækniskóla Hafnarfjarðar og byggingastjóri verksins, sem hefur haft yfirumsjón með öllu er að því lýtur.

Kirkjan. is fór á fund hans til að kanna á hvaða stigi endurbyggingin væri tíu árum eftir brunann.

„Lokahnykkurinn er eftir,“ segir Hrafnkell fullur bjartsýni en bætir við að efnisskortur og réttar stærðir á borðum standi þeim eins og er fyrir þrifum – á breiðu og þykku efni sem sannarlega þarf að vera fura. „Við skilum kirkjunni af okkur í vetur,“ segir Hrafnkell ánægður á svip og hress í bragði og skýtur að með þungri áherslu: „Fyrir vorið.“

Hann segir verkið hafa haft góða nærveru og verið skemmtilegt. Verkið hafi tekið lengri tíma en búist var við og fyrir því eru ýmsar ástæður.

„Þetta reyndist vera mun flóknara mál að vinna með nemendum en ég gerði mér grein fyrir í upphafi,“ segir Hrafnkell. „Hundruð nemenda hafa komið að verkinu frá því að það hófst.“ Hrafnkell segir að vinna við kirkjuna hafi ekki komið heim og saman við áfangalýsingu hjá nemendum og það verið dálítið snúið úrlausnar. Hann hafi svo handvalið nemendur og það gengið vel út af fyrir sig og það hafi verið gott að vinna með nemendunum.

„Það hefur verið gott að hafa kirkjuna hér,“ segir Hrafnkell, „en ég hlakka auðvitað til þegar hún verður komin á sinn stað.“

Búið er að koma undirstöðum kirkjunnar fyrir og þær bíða hennar þolinmóðar.

„Við fórum hægt af stað, byrjuðum á því að smíða glugga og fög,“ segir Hrafnkell, „síðan gólfgrindur og veggjagrindur.“

Vel var vandað til alls og í engu farið óðslega. Góðir hlutir gerast hægt.

„Markmiðið var að byggja hana í sem upprunalegustu horfi,“ segir Hrafnkell, „en hún er náttúrlega miklu betur byggð en sú sem var fyrir.“ Hann segir að nútímamenn hafi auðvitað miklu betra efni til smíðinnar en fyrri tíðar menn sem og betri tæki og tól. „Svo er auðvitað allt annað fyrir okkur að smíða hana hér í skólanum í bænum heldur en fyrir fyrri tíma menn sem þurftu að reisa hana úti í móa ef svo má segja.“

Hrafnkell segir að ekki hafi alltaf verið auðvelt að fá réttan við í kirkjuna og í réttum stærðum.

„Við fengum viði úr gömlu sláturhúsi sem rifið var á Sauðárkróki,“ segir Hrafnkell. „Og burðarviði gólfsins sem er mjög efnismikið fengum við líka að norðan“.

Hrafnkell segir að þeir hafi líka fengið rekavið norðan af Ströndum, furu, og hún verið bandsöguð fyrir þá.

Hrafnkell segist hafa átt afar gott samstarf við Guðmund Lúther Hafsteinsson hjá Þjóðminjasafninu en safnið hefur yfirumsjón með verkinu.

Það er gaman að sjá hve mjög langt á veg verkið er komið. Kirkjan stendur bak við Tækniskólann í Hafnarfirði. Fyrir kirkjudyrum er þverspýta, boruð niður í hurðarkarmana og tók Hrafnkell veglegan bor með með sér til að ljúka kirkjunni upp.

Þegar inn var komið tók mjúkur ilmur af hampi og viði á móti, og Hrafnkell kveikti ljós í kirkjunni. Bekki á eftir að smíða en vinna við þá er hafin. „Þeir eiga vera úr kirkjubekkjagæðavið,“ segir Hrafnkell.

Innri kirkjuhurðin er úr ösp en annars er húsið meira og minna úr furu. Kirkjueldurinn grandaði ekki lömunum og dyralæsingunni á sínum tíma.

„Kirkjan er hæfilega gisin,“ segir Hrafnkell, „með vindpappa og raki blæðir í gegnum veggina, svo hún á að loftræsta sig.“ Í kirkjunni verður ekkert rafmagn frekar en áður og hún er ekki kynt upp.

Framgangur verksins hefur verið færður til bókar og mynda, Erlendur Sveinsson, kvikmyndagerðarmaður, hefur bæði myndað verkið og kvikmyndað. Eins Sigurjón Pétursson sem tók myndir. Þá hafi sjónvarpsmenn komið í heimsókn og tekið myndir og fjallað um verkið.

Í bygginganefnd kirkjunnar sitja þeir Guðmundur Lúther Hafsteinsson, sviðsstjóri húsasafns hjá Þjóðminjasafni Íslands, Björn Pétursson, minjavörður Byggðasafns Hafnarfjarðar, og Hrafnkell Marinósson, kennari við Tækniskólann í Hafnarfirði sem áður var Iðnskólinn í Hafnarfirði.

Hrafnkell Marinósson má vera stoltur af endurbyggingu Krýsuvíkurkirkju sem hann hefur stýrt af ábyrgð og umhyggju.

hsh

Hrafnkell sýnir hlið úr kirkjubekk, gæðaviður og rétt stærð