Ellefu hlutu styrk

22. janúar 2020

Ellefu hlutu styrk

Listafólkið stillti sér að sjálfsögðu upp fyrir myndatöku

Í gær fór fram á Biskupsstofu, Katrínartúni 4, úthlutun styrkja úr Tónmenntasjóði kirkjunnar.

Tónmenntasjóður kirkjunnar er samstarfsverkefni STEFs og þjóðkirkjunnar og starfar samkvæmt skipulagsskrá. Tilgangur sjóðsins samkvæmt reglum frá 1974 er að styrkja tónskáld og textahöfunda sem semja kirkjuleg verk.

Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, flutti ávarp á undan styrkveitingu. Hún sagði frá því að samkomulag hefði náðst um breytingu á fyrirkomulagi sjóðsins og auk þess yrði nafni hans breytt í: Tónlistarsjóður þjóðkirkjunnar og STEFs. Þessi úthlutun væri hins vegar sú næst síðasta úr Tónmenntasjóði kirkjunnar en síðasta úthlutunin verður á næsta ári samkvæmt gamla fyrirkomulaginu. Þess er vænst að sjóðurinn verði öflugri með þessum breytingum.

Heildarfjárhæð til uthlutunar var að þessu sinni 3 milljónir króna. 

Stjórn sjóðsins ákvað að veita styrki sem hér segir:

1. Bára Grímsdóttir, tónskáld - Styrkur til að ljúka við óperu um ævi Jóns Arasonar, biskups
2. Cantoque Ensemble/ Hallveig Rúnarsdóttir - Pöntun tónverka frá Hafsteini Þórólfssyni og Steinari Loga Helgasyni, fyrir tónleika í Skálholtskirkju í sumar
3. Davíð Þór Jónsson og Þórunn Gréta Sigurðardóttir - Útgáfa dróttkvæðra ljóða við klassíska messuliði og frumsamin tónlist við kvæðin
4. Dómkórinn í Reykjavík - Pöntun þriggja tónverka til flutnings á norrænu kirkjutónlistarmóti í Helsinki 2020
5. Eyþór Ingi Jónsson, organisti - Geislaplata með orgelverkum, m.a. eftir Magnús Blöndal Jóhannsson og Gísla Jóhann Grétarsson
6. Guðný Einarsdóttir, organisti og fleiri. Rafrænn gagnagrunnur með upplýsingum um sálma og heimildir þeirra
7. Haukur Guðlaugsson, organisti - geisladiskar með orgelupptökum af leik hans
8. Kristján Hrannar Pálsson, organisti - Tvær gráður - samning og upptaka á orgelverki vegna hnattrænnar hlýnunar, framhald verkefnis frá fyrra ári.
9. Listvinafélag Hallgrímskirkju - Pöntun verks fyrir kór og hljómsveit frá Huga Guðmundssyni til flutnings á Kirkjulistahátíð 2021
10. Steingrímur Þórhallsson, organisti - Tónsmíðar og útgáfa sex orgelverka.
11. Ægisif, blandaður kór. Stjórnandi: Hreiðar Ingi Þorsteinsson - Upptaka á hluta af tónverki Hjálmars H. Ragnarssonar, Magnum Mysterium

Í stjórn Tónmenntasjóðs kirkjunnar sitja þau Margrét Bóasdóttir, formaður, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðherra, Hildigunnur Rúnarsdóttir, tilnefnd af STEF, og Hrafn Andrés Harðarson, tilnefndur af Rithöfundasambandi Íslands. Varamaður er Gunnar Andreas Kristinsson, tilnefndur af STEF og Margrét Lóa Jónsdóttir, tilnefnd af Rithöfundasambandi Íslands.

hsh

Bára Grímsdóttir og Guðný Einarsdóttir