Sóknarfæri kirkjunnar

25. janúar 2020

Sóknarfæri kirkjunnar

Hluti áheyrenda - einbeittur svipur leynir sér ekki

Í morgun fór fram málþing í Neskirkju sem var ákaflega vel heppnað.

Það má til sanns vegar færa að nái íþróttir og trú saman verði til sameiginleg sóknarfæri. Sannur íþróttamannsandi hlýtur alltaf að fylgja góðum manni, karli eða konu.

Og meira af sóknarfæri. Ef kirkjan nýtir það ekki þá er það nýtt af einhverjum öðrum. Ekki flóknara en það.

Málþingið var skemmtilegt. Og kirkjan.is sá ekki annað en þau sem þar voru hefðu notið þess að hlýða á sérstaklega jákvæð, einlæg og vonarrík, erindi frá frummælendum.

Það voru þau sr. Alfreð Örn Finnsson, sóknarprestur á Djúpavogi, Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur, og dr. Skúli Sigurður Ólafsson, sóknarprestur í Neskirkju, sem stigu þar í stólinn og öllum mæltist vel.

Segja má um málþing sem þetta eins og oft er sagt um leiki að eftirvænting hafi legið í loftinu.

Hvað er um tengsl trúar og íþrótta segja?

Sr. Alfreð Örn Finnsson sagði meðal annars um að margir íþróttamenn færu eftir plani Guðs og það væri auðvitað grafalvarlegt mál. Alfreð Örn sagði frá tengslum fótbolta og sr. Friðriks Friðrikssonar, og hvernig hann hefði komið að stofnun fótboltafélaga, Hauka og Vals. Eins rifjaði hann upp komu sr. Róberts Jack austur á Breiðdalsvík þar sem hin fræga messutilkynning varð til: Messa á sunnudaginn – takið fótboltaskóna með. Takkaskór skoska prestsins og fótboltamannsins voru aldrei langt undan. Þessir prestar hafa verið mörgum fyrirmynd þegar kemur að kirkjustarfi og íþróttum. Sjálfur sagði sr. Alfreð Örn Finnsson frá starfi sínu á Djúpavogi og hvernig hann reyndi að tengja saman íþróttir og sunnudagaskóla – hann var handboltaþjálfari í mörg ár. Sr. Alfreð Örn sagði frá því á mjög einlægan hátt hvernig trúin hefur komið inn í líf hans sem þjálfara. Það var athyglisvert og uppbyggilegt að heyra.

Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur, lék með KR. Hún ræddi um þátttöku sína í fótboltanum og störf sín í íþróttahreyfingunni. Hún var einnig á hinum einlægu nótum er hún sagði frá því hvernig KR-liðið sem hún var í glímdi við hressilegt tap gegn Breiðabliki. Segja má að stúlkurnar í liðinu hafi „gengið í sig“ eins og segir – og uppskáru síðar góðan sigur. Kristrún ræddi um fótboltaleiki sem „fair play“ (eða hinn fagra og rétta, siðferðilega góða leik), þar sem reglur og virðing fyrir þeim og keppendum væri í öndvegi höfð.

Sr. Skúli Sigurður ræddi í sínu erindi meðal annars um það sem gerist á vellinum og minnir á atferli í trúarbrögðum – eins og í kristinni trú. Menn fleygja sér í bænastellingu eftir vel heppnað mark, signa sig, benda til himins o.s. frv. Þá velti hann vöngum yfir því hvort íþróttir, fótbolti, hefðu gengið inn í hlutverk trúarbragða. Eins drap hann á mikilvægi íþróttamanna sem fyrirmynda þegar kæmi til dæmis að því þá þeir töluðu opinskátt um trú sína. En niðurstaða hans var sú að enda þótt margt í boltanum minnti á trú/trúarbrögð þá er vitaskuld himinn og þar haf á milli – jafnvel að viðbættum fótboltavelli! Fótbolti er fótbolti – og trú er trú.

Nokkrar umræður urðu eftir erindin – umræðustjóri var dr. Arnfríður Guðmundsdóttir. Spunnust meðal annars umræður um þjóðsönginn og hvernig hann hefði gengið í endurnýjun lífdaganna á fót- og handboltamótum. Einhver kvað jafnvel svo fast að orði að hann hefði verið uppgötvaður aftur. Þá voru uppi vangaveltur um það þá átök verða innan félaga, hvort illir andar séu þar að verki. Eins var því skotið að hvað væri unnt að gera til að bera klæði á vopnin þegar lið sem eiga rætur í ólíkum trúfélögum, kirkjudeildum, elda grátt silfur saman. Jafnvel með illvígum hætti.

Þetta málþing var eins og áður segir hið besta og gott hefði verið að streyma því til þeirra sem ekki áttu heimangengt – og eins til að eiga erindin sem voru öll hin áheyrilegustu og endalaus uppspretta spurninga, vangaveltna og nýrra hugmynda. Þegar svo er þá hefur málþing tekist vel.

Neskirkja og Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar eiga þakkir skyldar fyrir að hafa efnt til þessa málþings.

Málþing sem þetta getur verið öðrum söfnuðum hvatning til að efna til slíkra umræðuþinga sem standa ekki lengur en í tvær klukkustundir. Þar liggja  sóknarfæri! 

„Áfram svona,“ segir kirkjan.is.

hsh


Sr. Alfreð Örn Finnsson flutti erindi sitt með skörulegum hætti