Kirkja og samfélag: Árpokinn rauk út

27. janúar 2020

Kirkja og samfélag: Árpokinn rauk út

Arngerður Jónsdóttir með einn Árpoka

Kirkjustarf er víða blómlegt og sumt af því er unnið í góðu samstarfi við ýmsa aðila í nærsamfélaginu. Gott dæmi um það er Árpokinn.

Hvað er nú það?

Jú, það er lítill og fallegur innkaupapoki, fjölnota og umhverfisvænn, sem er gefinn í smærri verslunum hverfisins. Pokinn er úr efni sem hefur verið notað áður – hefur til dæmis verið hluti af litríkum gardínum á sínum tíma. Þær ganga skyndilega aftur í litlum poka sem saumaður hefur verið í hverfinu. Og einnig litlir pokar undir grænmeti sem saumaðir eru úr stórrisefni, hálfgagnsæju efni, og var haft fyrir innan gardínur. Árpokinn er saumaður til höfuðs öllum plastpokum heimsins!

En hvar eru þessir pokar saumaðir og hverjir eru að sýsla við það?

Arngerður Jónsdóttir, kirkjuvörður í Árbæjarkirkju og umsjónarkona með félagsstarfi fullorðinna í kirkjunni veit allt um það.

„Kvenfélag Árbæjarsóknar tekur þátt í samfélagsverkefni í samvinnu við ýmsar menningarstofnanir í hverfinu sem eru Þjónustumiðstöð Árbæjar- og Grafarholts, Borgarbókasafn-Menningarhús og Félagsmiðstöðin í Hraunbæ 105.,“ segir hún, „verkefnið snýst um að skapa fólki vettvang til að koma saman og að efla félagsauðinn.“

Arngerður segir að pokasaumaskapurinn hafi verið upplagt verkefni til að þjappa saman fólkinu í hverfinu. Byrjað hafi verið á því að hliðra fyrir saumaaðstöðu í félagsmiðstöðinni í Hraunbæ og bókasafninu. Markmiðið var að allir gætu tekið þátt í þessu verkefni. Það stæði öllum opið á hvaða aldri sem þeir væru.

„Konur sem sækja félagsmiðstöðina í Hraunbæ hafa verið mjög duglegar að sauma,“ segir Arngerður. Nú hafi verið saumaðir um þrjú hundruð pokar. „Og það voru konurnar sjálfar sem ákváðu að fara með pokana í litlu rótgrónu verslanir hverfisins.“ Þar á meðal er sú fræga búð Búsáhaldaverslun Þorsteins Bergmanns sem rekin hefur verið frá árinu 1881. Lengst af var hún nú á Skólavörðustígnum en hefur verið í Árbænum í þrjá áratugi.

Pokarnir hafa líka verið saumaðir á saumakvöldum Kvenfélags Árbæjarsóknar – og í kvenfélaginu eru konur á öllum aldri.

Nú og sumar kvennanna hafa saumað heima. Það er komið til móts við alla á þeirra forsendum.

Það eru fyrst og fremst konur sem hafa sinnt þessu verkefni enda þótt karlar viti af því.

Leitast var við að tengja saumaskapinn barnastarfinu í kirkjunni. Það var gert með þeim hætti að djákninn, Ingunn Björk Jónsdóttir, lét börnin í barnastarfi kirkjunnar búa til myndir sem saumaðar voru á pokana. Til dæmis mynd af fiski og fræddi hún þá börnin í leiðinni um þetta gamla kristna tákn.

Þegar farið var af stað með verkefnið árið 2018 vantaði saumavélar. Leitað var eftir gömlum saumavélum og þær notaðar í fyrstu. Síðan sótti Kvenfélag Árbæjarsóknar um styrk til borgarinnar í tvígang. Í fyrstu fékkst styrkur frá Velferðarsviði upp á 50.000 kr. og nú nýlega styrkur frá Hverfissjóði Árbæjar upp á 300.000 kr. „Saumavélar verða keyptar í samvinnu við samstarfsaðila okkar,“ segir Arngerður glöð í bragði.

Margt smátt gerir eitt stórt. Félagsauðurinn í hverfinu hefur sýnt sig og sannað – fólkið hefur einbeitt sér að umhverfismálum og tengslamálum í hverfinu. Eitt skref er tekið í einu og allt í samvinnu við það fólk sem kemur að málum. Allir hafa sitt að segja.

„Við höldum ótrauð áfram með verkefnið,“ segir Arngerður og á henni er engan bilbug að finna. „Og svo getum við hugsanlega útfært það með öðrum hætti og svo er aldrei að vita nema það spretti eitthvað annað upp af því.“

Heimasíða Árbæjarkirkju.

Umhverfisstefna þjóðkirkjunnar er hér.

Græna kirkjan.

hsh

Fallegir Árpokar - umhverfisvænir