Kirkjan og óvissuástand í Grindavík

28. janúar 2020

Kirkjan og óvissuástand í Grindavík

Grindavíkurkirkja

Viðbúnarstigi hefur verið lýst yfir í Grindavík vegna jarðhræringa sem þar hafa verið. Svæði í kringum fjallið Þorbjörn þenst út að vestanverðu en þar hefur ekki orðið eldgos síðan á 13. öld. Síðast í morgun mældist jarðskjálfti 2.4 á Richter í fjögurra kílómetra fjarlægð frá Grindavík, í norðvestur.

Í gær var send út stöðuskýrsla frá ríkislögreglustjóra, almannavarnadeild, og þar segir meðal annars: 

„Landrisið er óvenju hratt eða um 3-4 mm á dag og í heildina er það orðið um 2 cm þar sem það er mest og kemur fram bæði á síritandi GPS mælum og í bylgjuvíxlmælingum úr gervitunglum. Landrisið er líklegast vísbending um kvikusöfnun á nokkurra km dýpi.“

Íbúafundur var haldinn í gær í Grindavík og var streymt frá honum. Þar kom meðal annars fram að gögn séu ekki nægilega sterk til þess að álykta út frá þeim að gos sé að hefjast. Hins vegar sé mjög svo brýnt að vera á varðbergi og horfa ekki fram hjá neinum möguleika í því efni. Þess vegna fer fram margvíslegur undirbúningur. Ákveðið hefur verið að fjöldahjálparstöðvar verði í Kórnum í Kópavogi og íþróttahöllinni í Reykjanesbæ ef gos verður.

Kirkjan.is hafði samband við sóknarprestinn í Grindavík, sr. Elínborgu Gísladóttur, vegna frétta um óvissuástandið.

Sr. Elínborg sagði að íbúafundurinn hefði verið mjög upplýsandi og vel heppnaður.

„Þar var farið vel yfir alla þætti og spurningum svarað,“ sagði sr. Elínborg, „og væru litlar líkur á gosi eftir því sem fram kom – og ef gysi þá væri það hraungos og næsta víst að hraun færi ekki yfir bæinn.“

Hún var nýkomin af mömmumorgni þegar kirkjan.is heyrði í henni.

„Þessi mál komu náttúrlega þar til umræðu,“ sagði sr. Elínborg. „Ég er ætíð til taks fyrir fólk að sjálfsögðu.“ Fólkið í bænum ræðir auðvitað þessi mál að að sögn sr. Elínborgar.

„Fólk er ætíð velkomið í kirkjuna til að ræða við prestinn og ekki síst þegar svona mál kemur upp sem getur valdið áhyggjum,“ sagði sr. Elínborg, „íhugunar- og kyrrðarstund verður haldin og auglýsi ég hana á Facebókarsíðu kirkjunnar.“

„En lífið gengur sinn vanagang hér og allir halda ró sinni,“ sagði sr. Elínborg í lokin.

Facebókarsíða Grindavíkurkirkju

Viðbragðaáætlun þjóðkirkjunnar má sjá hér.

hsh

Gamla kirkjan í Grindavík, reist 1909 og afhelguð 1982 sama ár og nýja kirkjan var vígð



  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Menning

  • Samfélag

Leikskólabörn í Egilsstaðakirkju

Mikil ánægja með skólaheimsóknir á aðventunni um allt land

13. des. 2024
...bæði í kirkjum og skólum
Liljuhafar í Egilsstaðakirkju-sjá nöfn í frétt

Glaðir Liljuhafar

13. des. 2024
...á Héraði
Jólagleði salurinn.jpg - mynd

Einlæg vinátta verður til

12. des. 2024
...á jólagleði Eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastsdæma