Margt bralla börnin í kirkjunni

12. febrúar 2020

Margt bralla börnin í kirkjunni

Altarisdúkur barnanna er fjörlegur

Sunnudagaskólinn í Eydala- og Stöðvarfjarðarsóknum er sameiginlegur og þar er margt brallað. Kirkjan.is rak augun í myndir þar sem börnin voru í óða önn að mála á dúk í sameiningu.

Sóknarpresturinn ungi, sr. Dagur Fannar Magnússon, sagði þá kirkjan.is forvitnaðist um þetta, að hugmyndin væri komin frá Daníel Ágústi Gautasyni, djákna í Fossvogsprestakalli, í Reykjavík. Daníel Ágúst er ötull í æskulýðsstarfi og mjög hugmyndaríkur. 

Tilgangurinn er sá að leyfa börnum og ungmennum að taka þátt í safnaðarstarfinu með áþreifanlegum hætti í orðsins fyllstu merkingu. Þau búa eitthvað til, skapa, og það verður fyrir augum allra í kirkjunni og er notað við helgihald þegar við á. Þau sem skapa eiga hlut í kirkjunni sinni. Og finnst það vera heimilislegt. 

Sunnudagaskólabörnin þar eystra tóku sig sumsé til og bjuggu til altarisdúk, máluðu hann sjálf og ákváðu hvaða tákn skyldu vera á honum. Auk þess merktu þau sér hann. Síðar meir geta þau bent á það að þarna hafi þau komið að verki. Kannski einn góðan veðurdag þegar þau verða orðið gamalt fólk og koma við í kirkjunni sinni og sjá dúkinn og nafn sitt, segja þau með sjálfum sér: „Þarna var ég, barn Guðs. Og er enn.“

„Þar sem sunnudagaskólinn er sameiginlegur fyrir Eydala - og Stöðvarfjarðarsóknir getur hann einnig verið tákn um að þrátt fyrir sóknarmörk, landamæri og annað sem aðskilur okkur, erum við alltaf eitt í Kristi,“ segir sr. Dagur Fannar.

Þemað var sígilt, sköpunin. Þess vegna fékk sköpunargleðin að njóta sín að sögn sr. Dags Fannars. Áherslan var á að öll væru börnin - og reyndar allt mannfólkið - skapað af Guði eins og hann vill að við séum.

„Guð gerir ekki mistök og hefur hlutverk fyrir okkur öll í þessu góða sköpunarverki“, segir sr. Dagur Fannar.

Svo sannarlega ljómar sköpunargleðin yfir kirkjustarfinu á Austfjörðum.

hsh

 


Altarisdúkurinn kemur vel út - litríkur eins og mannlífið sjálft 
Myndin er tekin í Stöðvarfjarðarkirkju - dúkurinn verður líka notaður í Heydalakirkju


  • Barnastarf

  • Fræðsla

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Fræðsla

  • Menning

  • Samfélag

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut